Það var gaman að fylgjast með Einari Daða og Helgu Margréti í Tékklandi í gær og fyrradag. Bæði stóðu sig frábærlega. Helga Margrét sýndi að íslandsmetið í Kópavogi um hina helgina var engin tilviljun og gerði gott betur. Bætti nýsett met um á annað hundruð stig og varð þriðja með ólympíumeistarann í broddi fylkingar. Það munaði einungis 22 stigum að hún næði inn á HM fullorðinna, aðeins sautján ára gömul. Hún er í efsta sæti í heiminum í sínum aldursflokki þannig að hér er um frábæran árangur að ræða. Hún er svakalegt efni í frábæra íþróttakonu og verður gaman að sjá hvernig hún vinnur úr þessum hæfileikum sínum. Einar Daði bætti fyrir vonbrigðin í Kópavogi og sýndi svo sannarlega hvað í honum bjó. Hann setti íslandsmet í sínum aldursflokki og varð í öðru sæti í unglingaflokki á mótinu. Flottur íþróttamaður.
Ég fékk tímarit Landsbjargar í gær. Þar kennir margra grasa og meðal annars er þar grein um slys í ferðamennsku. Á árunum 1996 - 2006 urðu 34 dauðaslys í landinu í ferðamennsku eða um 3 dauðaslys á ári. Og það segir enginn neitt. Það er gert mikið úr því að sjórinn hefur ekki tekið mannslíf nú um skeið og allt gott um það. en þá er ferðamennskan farin að færa sig upp á skaftið. Síðan veit maður ekkert um hve mörgum sinnum fólk hefur slasast eða legið við stórslysum. Mig grunar að þau tilvik séu allnokkru fleiri. Í greininni er meðal annars minnst á þegar frakki dó á leiðinni frá Landmannalaugum í Emstrur. Hann hefur greinilega villst niður í átt til Fljótshlíðar, séð ljósin í Húsadal og ætlað að þvera Markarfljót og drukknað. Laugavegshlauparar hafa kvartað yfir því árlega að merkingin sé léleg þar sem maður fer út af veginum yfir á sandana í átt að Emstrum. Aldrei er neitt gert í málinu. Líklega eru menn að togast á um hver á að gera hlutinn eins og þegar enginn vildi setja upp skilti við Dyrhólaey þótt þar lægi við dauðaslysum. Þetta er dálítið dæmigert.
Það er orðinn mikill fjöldi sem fer á Hvannadalshnjúk árlega. Það má þakka fyrir meðan ekki verður að óhöppum þar eða alvarlegri óhöppum en þegar hafa orðið. Það er þess meiri ástæða til að hafa áhyggjur þegar Stafafellsleiðin er svo til eingöngu farin en mun meiri hætta er á sprungum á því svæði en þegar Virkisjökulsleiðin er farin. Kunnugir þekkja vel til en hvað með þá sem eru minna kunnugir. Það ætti t.d. að koma á tilkynningaskyldukerfi vegna þeirra sem fara á jökulinn, gera ákveðnar kröfur um þekkingu hjá þeim sem leiða hópinn og gera lágmarkskröfur um búnað og fatnað hjá göngufólki. Auka þarf fræðslu um fjallaferðir og rannsaka þarf formlega hvað olli ef óhöpp eða slys verða. Óvarkárni á að geta valdið leyfismissi. Síðan er alltaf spurningin hvað á að gera ef sauðþráir íslendingar hlýða engu og engum. Slíkir einstaklinga eru alltaf til. Það á að vera hart tekið á því ef menn hlýða ekki fararstjóra. Jsfnvel á að vera hægt að setja menn í ferðabann þannig að menn fái ekki leyfi til að fara með í skipulagðar ferðir á vegur Ferðafélagsins, Útivistar eða Fjallaleiðsögumanna ef þeir verða uppvísir að því endurtekið að fara ekki eftir fyrirmælum. Það getur farið gamanið af því að vera inni á hálendinu í erfiðleikum eins og það er magnað við góðar aðstæður og þegar allt gengur vel.
Fór Eiðistorgshringinn í kvöld í góðu veðri.
föstudagur, júní 26, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli