Ætli siðblinda sé algengara viðhorf í samfélaginu en maður hefur gert sér grein fyrir. Listamenn eru settir í nefnd til að úthluta fjármunum. Einn í úthlutunarnefndinni er einnig umsóknaraðili um fjármuni til nefndarinnar. Þegar farið er að minnast á þetta við hann þá finnst viðkomandi einstakling nákvæmlega ekkert að þessu. Það er ekki fyrr en eftir langa mæðu að hann sér ljósið og segir af sér.
Einn af formönnum skilanefndar bankanna er einnig í áhrifastöðu fyrir eitt af stórfyrirtækjum landsins og tekur fyrir það verulega fjármuni. Hvernig á það að geta gengið upp að gæta hagsmuni ákveðins fyrirtækis með annarri hendinni og að taka ákvarðanir um örlög annarra fyrirtækja með hinni hendinni. Þarna eru hagsmunir avo samofnir þvers og kruss að þetta fyrirkomulag myndi alls ekki vera liðið í alvöru samfélögum.
Sonur ríkissaksóknara er framkvæmdastjóri eins af þeim stórfyrirtækjum sem eru hvað nátengdust bankahruninu. Hvernig á þetta að geta gengið upp? Mér finnst fínt hjá Evu Joly að vaða í málið og tala íslensku tæpitungulaust. Ríkissaksóknari getur ekki verið í þerri stöðu að hann þurfi að velja þau mál sem hann er hæfur til að sinna og hver ekki. Ef ríkisstjórnin hefur ekki vald til að taka á málinu þá breyta þau lögum hið snarasta og klára málið. Til þess eru þau kosin.
Ég heyrði í útvarpinu í gær að námsmenn eru óánægðir með að námslán muni ekki hækka með hækkandi verðlagi. Allt gott um það, námsmenn hafa oft ástæðu til að mótmæla. Forsvarsmenn þeirra boðuðu til motmæla á Austurvelli í gær. Það mættu eitthvað á milli 10 og 20 námsmenn til að mótmæla. Það sló mig að í kvöldfréttum útvarpsins var þess vandlega gætt að minnast ekki á hve mæting var vandræðalega lítil. Svona mótmæli eru náttúrulega algert flopp. Forsvarsmenn námsmenna eru algerlega út á túni í þessu máli. Ef námsmenn mæta ekki vegna þess að þeir eru sammála stefnu yfirvalda þá er námsmannaforystan ekki í tengslum við sína umbjóðendur. Ef námsmenn mæta ekki á svona mótmæli vegna þess að þeir nenna því ekki þá er forystan á hálum ís. ef í þriðja lagi námsmenn mæta ekki á svona fund vegna þess að þeir eru að vinna þá er forystan í slæmum málum að boða fund á tíma þegar nær því enginn getur mætt. Alla vegna er þarna eitthvað eins og það á ekki að vera. Það sem maður heyrði í kvöld í sjónvarpinu að forystumenn námsmanna gerðu ráð fyrir að þeir myndu hætta í námi og fara á atvinnuleysisbætur vegna þess að þær væru hærri er út í hött. Námsmenn hafa fæstir rétt á atvinnyleysisbótum. Þeir færu þá á sósíalinn.
Ég heyrði nýlega að Henrik prins af Danmörku hefur komið með athyglisvert innlegg í baráttu fyrir jafnstöðu karla og kvenna. Hann kvartar yfir því hvernig er farið með karla í rojalisku samhengi. Hann er ekki konungborinn heldur giftist hann inn í dönsku konungsfjölskylduna. Hann fær bara nafngiftina prins og er skör lægra settur heldur en Margrét. Hann verður t.d. að ganga eilítið á eftir henni við opinberar athafnir. Hann er einnig lægra settur en synir hans. Afur á móti fá Maríurnar, sem eru giftar Friðrik og Jóakim, nafngiftina drottning ef maður annarar hvorrar verður kóngur. Þar er ekkert prinsessukjaftæði. Drottningin er jafnstæð kónginum og gegnur við hlið hans við opinberar athafnir þrátt fyrir að hún hafi ekki blátt blóð. Mér finnst að jafnréttisstofa, jafnréttisráð og jafnréttisnefndir allra landa ættu að styðja við bakið á Henrik prins í þessu sambandi. Þetta er náttúrulega ekki líðandi. Það ég best veit er einnig illt í Filipusi prins af Bretlandi út af því sama.
Tók Eiðistorgshringinn í kvöld. Fínt hlaup í fínu veðri.
laugardagur, júní 13, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli