Miðnæturhlaupið var í gærkvöldi. Maður var dálítið áhyggjufullur fyrirfram því það spáði ekki vel. Rigning og kalsi var yfirvofandi. Það fór hins vegar allt vel. Svo sme ekki hlýtt en þurrt og létt gola. Þátttakan fór fram úr öllum væntingum en um 1300 manns tóku þátt í hlaupinu. Það er sett þátttökumet í hverju einasta hlaupi sem haldið er. Það er sannkölluð hreyfingar- og skokkbylgja að ganga yfir. Maður sá fólk hlaupa í gær sem maður getur ekki annað en tekið ofan fyrir að hella sér í þennan slag. Þetta er erfitt og ekki alltaf skemmtilegt þegar verið er að byrja en uppskeran er eftir þeirri vinnu sem lögð er í verkið. Félagi minn sem ég hitti í gær í hlaupinu hringdi í mig í kvöld. Hann hefur heldur betur tekið sér tak og m.a. lést um eins 17 kíló frá áramótum. Hann bætti sig um einar 15 mínútur í 10 km hlaupi frá RM í fyrra. Svona er hægt þegar vilji og agi eru fyrir hendi. Þetta er almennilegt. Mogginn var á staðnum og hringdi svo og spurði frétta. Ljósvakamiðlarnir létu sig engu varða þótt um 1300 manns væri samankominn við sundlaugarnar til að hlaupa. Líklega hefur þeim fundist það kosta of mikið að ræsa liðið út. Ef ég hefði tekið mér stöðu við annan mannn niður í miðbæ og æpt "Vanhæf ríkisstjórn" út í bláinn þá hefði ég fengið viðtöl á öllum stöðvum og ég veit ekki hvað. Ég tala nú ekki um ef ég hefði hent súrmjólk á þinghúsið. Svona eru áherslurnar í fréttaflutningi.
Evrópuhlaupinu lauk á sunnudaginn. Þá luku hlaupararnir 64 daga hlaupi frá Bari á suður Ítalíu til Nordkapp, nyrsta odda Noregs. Aldrei hvíldardagur. Meðalvegalangd var 71 km á dag. Síðustu þrjá dagana var hlaupin um 260 km vegalengd. Það var skítakuldi, rigning eða hagl og vindur. Svíunum var svo kalt að á einni drykkjarstöðinni þegar þeir fengu meiri föt þá gat annar þeirra hvorki borðað eða klætt sig í nýju fötin. Þjóðverjinn sem vann hélt meðalhraða sem svaraði um 5 mín á km. Trond hinn norski varð sjötti og hélt um 6 mín tempo alla leiðina. Það er ekki hægt að segja að leiðin sé slétt. M.a. er hlaupið yfir Alpana. Um 2/3 þeirra sem lögðu af stað héldu út allann tímann. Það er hreint þrekvirki.
Um árabil hefur söngurinn staðið að það verði að leggja samræmdu prófin í grunnskólunum niður. Þeir sem þann söng kyrjuðu héldu því fram að prófin hefðu alltof mikil áhrif á seinni hluta 10 bekkjar. Hálft ár af 10 árum. Það er nú ekki svo svakalegt ef hin 9,5 árin eru vel nýtt. Veiklunda stjórnmálamenn láta undan svona umræðu og taka ákvarðanir sem frekar taka mið af vinsældakeppni en markvissri stefnumótun. Partur af þessum söng voru árlegar fréttir af hinu gríðarlegu álagi á nemendur sem fylgdi samræmdu prófunum. Niðurstaða þeirra gæti ráðið úrslitum í hvaða skóla nemendur fengju inngöngu. Þegar maður var krakki þá tók maður ætíð samræmd próf í barnaskólanum. Lestrarpróf, reikningspróf og íslenskuprófið komu að sunnan. Sama máli gilti um landsprófið. Það var samræmt próf og ekkert annað. Stóð fyrir sínu, fínt próf en dálítið erfitt. Talsmenn samræmdu prófanna héldu því hins vegar fram að það væri ekki hægt að meta niðurstöðu grunnskólans á annan hátt með öllum þeirra kostum og göllum. Þeir urðu undir í þessari umræðu. Nú hefur komið í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér. Verðbólga þykir hafa hlaupið í skólaeinkunnir. Hætt er við því að skólar freistist til að hækka skólaeinkunnir svo krakkar hvers skóla hafi meiri líkur á því að komast í þá skóla sem þá langar til að fara í. Slík þróun endar með því að allir fá 10.0 í einkunn ef maður er dálítið öfgafullur. Hvað gerist þá? Annað tveggja gerist. Framhaldsskólarnir fara að leggja inntökupróf fyrir umsækjendur eða að samræmd próf verður tekið upp aftur. Þá eru menn komnir í hring. Hver var þá tilgangurinn með allri þessari vegferð? Þetta er eins og með Lísu í Undralandi. Ef maður veit ekki hvert maður ætlar þá skiptir ekki hvaða leið maður velur. Maður kemst alltaf á áfangastað.
Það skortir ekki að útrásarvíkingarnir hafi greiðan aðgang að fjölmiðlum þegar mál þeirra eru í einhverju ferli. Yfirlýsingar þeirra eru lesnar aftur á bak og áfram. Málflutningur þeirra kemst allur til skila. Hvaða fréttamennska er þetta? Er það einhver frétt að HS sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist vera saklaus eins og páskahérinn? Af hverju eru ekki lesnar yfirlýsingar frá venjulegum snærisþjófum þegar þeir eru staðnir að verki. Það er einungis frétt þegar niðurstaða í svona mál liggur fyrir. Hvenær ætla fjölmiðlar að skapa sér einhvert sjálfstæði og hafna svona rugli.
miðvikudagur, júní 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli