sunnudagur, júní 14, 2009

Norðurlandamót ungmenna í fjölþraut hófst í Kópavoginum í dag og lýkur á morgun. María er þarna að taka þátt í sínu fyrsta alvöru stórmóti ef má kalla það svo. Hún er í flokki undir 18 ára svo hún á eitt ár eftir í honum. Henni hefur gengið svona þokkalega en ekkert umfram það. Stalla hennar í flokknum, Sveinbjörg Zophanísdóttir frá Hornafirði, hefur aftur á móti sett í kraftgír og er í öðru sæti, örfáum stigum á eftir sænskri stelpu. Það verður spennandi að sjá lokasprettinn hjá þeim á morgun. Það sýnir að eplið fellur sjaldan langt frá eikinni að mömmur þeirra stelpnanna, Sigrún og Guðrún Ingólfsdóttir voru saman í sigursælu kvennaliði Ármanns fyrir allnokkrum árum. Pabbi og pabbi Guðrúnar voru síðan saman í skóla á Hvanneyri fyrir margt löngu. Helga Margrét, sem verður 18 ára í haust, keppir í flokknum undir 20 ára. (Við Steini, pabbi hennar, erum aftur á móti gamlir skólabræður sem og föðurbróðir Sveinbjargar!!!Svona liggur þetta saman þvers og kruss.). Helga Margrét hefur heldur betur staðið undir væntingum eftir að vera nýkonin úr meiðslum mest allan veturinn eftir áramót. Hún var í öðru sæti í fyrstu tveimur greinunum en straujaði svo þær næstu tvær og er með afgerandi forystu eftir fyrri daginn. Þar á ofan er hún verulega fyrir ofan íslandsmet sitt sem hún setti í fyrra eftir fjórar greinar. Hún setti auk þess unglingamet og stúlknamet í kúluvarpi. Hún hefur þann sjaldgæfa eiginleika að vera bæði eldsnögg, nautsterk og þolin þannig að hún er jafnvíg á allar greinar sjöþrautar. Það verður gaman að sjá hvernig hún hefur unnið úr þessum hæfileikum sínum þegar hún nær fullorðinsaldri. Í svona móti þar sem ekkert má bregða út af geta skiptst á skin og skúrir. Einar Daði, annar tveggja af efnilegustu tugþrautarmönnum okkar, gerði öll stökk ógild í langstökki þannig að hann er ekki lengur með. Þetta var biturt því hann stefndi á að ná lágmarkinu á EM unglinga. Hann stefndi einnig á að ná toppsætum sem hann hefur tekið síðustu tvö árin. Svona getur þetta gengið til. Það er ekki öll nótt úti með EM sætið en það kostar meiri fyrirhöfn fyrst svona tókst til.

Maður á ekki að vera alltaf að pirra sig yfir námuhestasýn sumra íslenskra fjölmiðla á íþróttir en sama er. Þarna eru íslensk ungmenni í dag að etja kappi við norræna jafnaldra sína í Kópavogi. Sum þeirra standa sig frábærlega vel og eru að berjast um toppsætin við jafnaldra sína á Norðurlöndum. Stöð tvö minntist ekki á þetta heldur sagði frekar frá því að Ronaldo hefði verið að deita París Hilton. Síðan var umfjöllun um allan skrattann annan sem var að gerast út í heimi. Vafalaust er það einfaldara að sitja uppi á stöð og kópíera klippur frá erlendum stöðvum en fara niður á Kópavogsvöll og mynda. Þannig er sem sagt forgangsröðin á þeim bænum. Ríkissjónvarpið sýndi frá mótinu og vakti sérstaka athygli á afrekum Helgu Margrétar og allt gott um það. Ég held hins vegar að fyrsta mótið af þremur í strandblaki hafi fengið eins mikinn tíma í þættinum og norðurlandamótið í fjölþraut í Kópavogi. Strandblak af öllum íþróttum!!! Mér skildist að íslendingar hefðu unnið fyrstu hrinuna í strandblaki í íslandssögunni á Smáþjóðaleikunum um daginn og voru fyrir vikið á svipinn eins og þeir hefðu orðið heimsmeistarar. Mogginn sendi ljósmyndara á mótið þannig að maður á von á góðri dekkun af þeirra hálfu eftir helgina. Þó nú væri því hver einstakur fótboltaleikur í efstu deild fær hátt í heilsíðu í hvert sinn sem umferð fer fram.

Svíarnir sendu sérstakan ljósmyndara með á mótið þannig að þá veit maður hvernig er fylgst með efnilegasta fjölþrautarfólki þeirra. Umfjöllun fjölmiðla skiptir máli og þeir hafa skyldur í þessum efnum, ekki bara gagnvart fótbolta og golfi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Algerlega sammála þér hvað þetta varðar Gunnlaugur. Hundruðir krakka æfa mörgum sinnum í viku, leggja hart að sér í mörgum greinum og ná oftast betri árangri í öðrum greinum en fótbolta. Þessu er lítill gaumur gefinn og það dugar ekki einu sinni til að árangur sé að verða gríðargóður á Evrópuvísu - alltaf fá þriðjudeildar liðin í Englandi meiri athygli! En hvað er til ráða? Eiga foreldrar að taka sig saman og hringja og skrifa stöðugt í íþróttafréttamennina eða... Það hefur nú verið fundað um minna, mér finnst þetta uppeldismál (varðandi blaðamennina altsvo) sem þarf að fara að taka föstum tökum!
Kv.
Halla Þorvaldsd