Skelfing leiðast mér beinar beinar útsendingar í sjónvarpinu frá svona egócentrískum uppákomum eins og Grímusamkoman er. Þarna er fólk að veita hvert öðru verðlaun fyrir eitt og annað sem það hefur verið að gera og það er svo sem allt í lagi. Það má gera það fyrir mér. En að vera að troða þessu upp á mann á besta útsendingartíma sjónvarpsins það er dálítið annað mál. Ég sé bara ekkert við þetta sem á erindi við mann. Þegar ofan í kaupið þeir sem fá verðlaun fara að þakka öllu og öllum sem hægt er að hugsa sér fyrir hvað það sé allt stórkostlegt og frábært þá læðist að manni sú hugsun að það sé gert í þeim tilgangi einum að geta staðið sem lengst uppi á sviðinu og baðað sig í sviðsljósinu. Þá er mál að áhorfi linni. Það var mikil frelsun að geta horft á Biggest Loser á Skjá einum í staðinn. Það er í sjálfu sér býsna merkilegur þáttur. Þarna er spikfeitt fólk, sem margt hvert er komið í djúpa depression út af holdafarinu, sett í stifar þjálfunarbúðir. Sá sem léttist mest fær verðlaun, 250.000 USD. Það er náttúrulega stórkostlegt að sjá fólk sem er komið hátt í 200 kg að verða að almennilega löguðum manneskjum aftur. Þegar fólkið uppgötvar hvað hægt er að gera með aga og vinnu þá fer það að opna sig. Sumir ljóstra því upp að því hafi fundist að það hafi alltaf verið grönn manneskja inni í þessum feita líkama sem það var alltaf óánægt með. Maður sér svo ótrúlegan mun á fólkinu eftir að það hefur náð tökum á lífi sínu. Spengilegt, stælt og stórmyndarlegt fólk birtist eftir að það vann slaginn við sjálft sig. Það er hins vegar oft á tíðum erfiðasti andstæðingurinn að fást við, maður sjálfur.
Nú eru bara fimm dagar eftir hjá evrópuhlaupurunum. Þeir eru komnir norður í Finnland og síðan er eftir nokkura daga hlaup yfir í Noregi til Nord Kalotten, nyrsta odda Noregs. Það eru 45 hlauparar eftir af þeim 64 sem lögðu af stað frá Bari á suður Ítalíu. Einn gafst upp í gær. Það er biturt. Veðrið hefur verið leiðinlegt á þá í gegnum alla norður Svíþjóð. Kalt, vindur og rigning af og til. Dag eftir dag eru hlaupnir +/- 70 km í þessu veðri. Eiolf er slæmur í öðru hnénu og er farinn að hægja á sér. Vonandi heldur hann út alla leiðina. Hlaupararnir verða að standast ákveðin tímamörk á hverjum degi svo þeir mega ekki hægja of mikið á sér. Trond er sprækur og er í 7. sæti af öllum. Hann er ótrúlegur.
Helvíti er það gott að taka 70 m.kr að láni hjá sjálfum sér og fá peningana útborgaða. Spurning er hver rukkar hvern þegar upp er staðið.
Ég man eftir því þegar Anders Fogh Rasmussen var kosinn forsætisráðherra Danmerkur árið 2001. Strax á fyrstu dögum sínum í embætti skar hann grimmt niður í utanríkisþjónustinni. Lagði niður allnokkur sendiráð. Þau gerðu minna gagn en þau kostuðu. Hvar er umræðan um þessa hluti hérlendis? Hvað hafa sendráðin verið að gera síðasta hálfa árið? Vafalaust eitt og annað. Það vakna hins vegar spurningar um hvort þau hafi verið að sinna mikilvægasta málinu sem brennur á Íslandi nú. Að kynna stöðu lands og þjóðar og vinna málstað okkar skilnings. Íslendingar eru skki síður fórnarlömb en margir útlendingar. Það loðir alltaf við Íslendinga smá súrheit út í Dani frá því við vorum dönsk nýlenda. Menn hafa sagt að Danir hafi kúgað okkur og arðrænt. Ekki skal ég um það segja en hafi það verið gert þá má ekki gleyma því að hin danska yfirstétt þess tíma kúgaði og arðrændi danska alþýðu ekki síður en íslenska alþýðu. Því er það helvíti hart ef allir íslendignar eru brennimerktir með þjófsmerki á ennið ef það er einungis tiltölulega fámennur ræningjahópur sem stal öllu steini léttara og því sem hönd á festi og þá ekki síður frá íslendingum en útlendingum.
Það hefur verið fjallað um það með jákvæðum formerkjum að íslendingar komi til með að ferðast meira innanlands í ár en fyrri ár. Það er vafalaust rétt og ekki ætla ég að gera lítið úr ágæti þess að ferðast um landið. En glasið er annað hvort hálftómt eða hálf fullt. Það má alveg eins segja að allur almenningur sé hálfgerður fangi í eigin landi því hann hafi ekki efni á að ferðast til útlanda. Ef það sé gert þá er það alveg sérstakur lúxus. Ef maður færi erlendis í frí þá er fyrst og fremst hægt að ferðast til Svíþjóðar, Eystrasaltslandanna og Austur Evrópu. Þar er verðlag viðráðanlegt. Evrulöndin er eiginlega er varla hægt annað en að sniðganga því þar er allt svo óskaplega dýrt.
Tók góða leggi í gær og í kvöld. Allt í fínu.
miðvikudagur, júní 17, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli