Jæja, nú kom að því. Síðasta langa hlaupið. Fórút í kvöld um kl. 22.00 hefðbundinn hring vestur á nes og sneri við á bílastæðinu. Þetta gera um 25 km. Fór rólega og naut góða veðursins. Tók myndir á leiðinni og meðal annars af sólsetrinu út við Gróttu. Nú er undirbúningsprógramminu því sem næst lokið. Ég tek stutt á morgun og síðan verður einungis farið á Esjuna af og til farm í miðjan júní. Þar verður varlega farið til að detta ekki á hausinn og fokka öllu upp á síðustu metrunum. Nú er engin pressa lengur á æfingum og einungis afslöppun og hvíld í einar þrjár vikur.
Það má segja að það hafi allt gengið upp sem ætlað var. Ég er búinn að hlaupa yfir 2000 km frá áramótum. Maí gerði rúmlega 500 km og verður lengsti mánuður sem ég hef hlaupið nokkru sinni. Átta vikur í vetur voru yfir 100 km og tvær náðu um 150 km. Alls hljóp ég frá áramótum 28 sinnum milli 20 - 30 km, níu sinnum milli 30 og 40 km, fjórum sinnum milli 40 og 50 km og fimm sinnum yfir 50 km. Ég hef ekki talið Esjuferðirnar en þær eru örugglega orðnar hátt í 20. Það má segja að það hafi allt gengið upp í planinu sem ætlað var eftir því sem sett var upp fyrirfram. Hvort sem það kemur til með að duga verður að koma í ljós. Meiðsli og veikindi voru ekki til vandræða í vetur (sjö - níu - þrettán) og veðrið í apríl og maí var ákjósanlegt miðað við að það þurfti að ná hámarksnýtingu á tímanum.
Ég sá á netinu að nú er snjórinn í Squaw Walley farinn að minnka hröðum skrefum. Um miðjan mars var úrkoman einungis í meðallagi en síðan kyngdi niður snjó. Hann er því laus í sér og bráðnar hratt þegar fer að hlýna. Það eykur bjartsýnina um að hann verði ekki til eins mikilla vandræða eins og leit út fyrir um tíma í vetur.
þriðjudagur, maí 31, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli