þriðjudagur, mars 07, 2006

Það var hvílt í gær sem var ágætt því veðrið var svo sem ekki sérstaklega skemmtilegt, bleytuníð og ausandi úrkoma.

Ég sá í Mogganum á sunnudaginn frásögn af ráðstefnunni "Hve glöð er vor æska" þar sem var fjallað um málefni fjölskyldunnar. Þar kom m.a. fram að um 30% barna í landinu væru á leikskólum í 8 - 9 klst á dag. Það er svakalega langur tími. Hvenær eru þessi börn í einhverju samneyti með foreldrunum sínum eða þó ekki væri nema öðru þeirra? Vitskuld er staðan þannig hjá töluverðum hópi fólks að það hefur ekki aðra valkosti, sérstaklega þegar um einhleypa foreldra er að ræða sem standa frammi fyrir þessum veruleika. Hjá öðrum er þetta ákvörðun að láta börnin vera á leikskóla allann daginn til að geta stundað vinnu og klifrað upp karríerstigann. Í Sovétríkjunum gömlu var það viðtekin kennisetning að stofnanir ríkisins væru betur til þess fallnar að ala upp börnin en misvirtir foreldrar. Sú teoría féll reyndar eins og flestar aðrar teoríur þeirra Sovétmanna og endaði teoríuhrunið í einu allsherjar hruni Sovétríkjanna eins og flestir vita og margir muna eftir.

Jarðskjálftinn í gær var nokkuð snarpur. Hér á skrifstofunni nötraði allt og skalf. Þetta minnti nokkuð á skjalftann þann 17. júní árið 2000. Þá var ég staddur niðri á hafnarbakka í Reykjavíkurhöfn ásamt mörgum öðrum þegar jörð byrjaði að skjálfa. Bakkinn gekk í bylgjum eins og þegar krappar undiröldur eru á sjónum. Einhver viðstaddra spurði hvað væri eiginlega að gerast. Annar svaraði; "Ætli kraftakarlarnir séu ekki að ganga frá eftir sig" en þeir voru að ganga frá eftir keppni sem þeir höfðu verið með á bakkanum skömmu áður.

Mér finnast auglýsingar Blátt áfram verkefnisins ganga úr hófi fram. Nú efa ég ekki að því ágæta fólki sem stendur að þessu verkefni gengur eitt gott til en stundum er boginn spenntur um of. Menn fara fram úr sjálfum sér ef það er magnaður upp hræðsluáróður í þessum efnum þannig að menn sjá barnaperra í hverjum og einum sem víkur vinalega að barni. Ung börn eru vitaskuld sérstaklega viðkvæm fyrir þessari umræðu sem getur hæglega leitt af sér ranghugmyndir. Mér finnst að það ætti frekar að beina þessari umræðu að foreldrum sem væru lagðar aðferðir í hendur til að ræða við krakkana u þessi mál frekar en að láta einhvern síbyljuhræðsluáróður dynja yfir þjóðina í sjonvarpsauglýsingum. Mér fundust áhrif yfirdrifins histeríufréttaflutnings af fuglaflensunni ógurlegu koma vel í ljós þegar var rætt við bóndann á Tannstaðabakka í sjonvarpinu fyrir skömmu. Hann hafði greinilega orðið var við að krakkarnir sem komu í heimsókn til hans frá Skólabúðunum á Reykjum höfðu orðið fyrir miklum áhrifum af umræðunni um fuglaflensuna og hún sat í þeim sem illur vomur sem beið bak við næsta leyti. Börn gera kannski ekki mikinn mun á því hvort hundruð þúsunda geti dáið eða hvort hundruð þúsunda hafi dáið. Hvað hafa margir dáið úr fuglaflensu í heiminum, 20 eða 30 í það heila tekið? Hvað dóu margir íslendingar úr slæmri flensu sem gekk hér í fyrra vetur. Líklega nokkuð fleiri.

Engin ummæli: