Tók léttan hring í gærkvöldi. Veðrið er eins og ég veit ekki hvað um miðjan mars. Samkvæmt öllu eðlilegu ætti að vera snjór og frost en það heyrir víst sögunni til.
Baugsmálið var afgreitt úr héraðsdómi í gær og sakborningar dæmdir sýnir saka. Það eru ýmsar spurningar sem vakna í þessu sambandi. Það var athyglisvert viðtalið við lektorinn (ég held að ég fari rétt með) úr HR í sjónvarpinu í gærkvöldi sem fór yfir að lagasetningin um ársreikninga hlutafélaga væri gölluð á þann veg að dómurinn hefði ekki getað dæmt eftir henni. Það segir sig sjálft að stór hluthafi í hlutafélagi sem er skráð í kauphöll einhvers lands getur ekki og má ekki hafa rýmri möguleika til að ganga í sjóði félagsins og fá þar óformlegt lán heldur en litlu hluthafarnir. Ef íslensk lög um þetta efni er ófullkomin er það nokkuð alvarlegt mál. Starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra virðist hafa orðið fyrir einu áfallinu til viðbótar. Maður veltir fyrir sér hvernig er unnið þar innan dyra. Í nútímasamfélögum er afar mikilvægt fyrir lögregluna að geta tekist á við hvítflibbaglæpi ekki síður en annarsskonar kriminalitet því fjöldi þeirra og umfang fer vaxandi.
Fór á fund Víkinni seinnipartinn í gær til að hlusta á kynningu á væntanlegum gerfigrasvelli í Víkinni. Hann á að geta verið tilbúinn næsta haust ef allt fer að óskum. Nokrar umræður urðu um ýmis atriði meðal íbúanna og bar þar hæst ótti við að fljóðljósin myndu virka truflandi á næstu hús. Tækninni fleygir fram og nú er verið að setja upp búnað sem tekur ljósunum á Fram vellinum og Fylkisvellinum langt fram en þar hefur verið kvartað nokkuð undan ljósunum. Nauðsynlegt er að ljúka þessari umræðu sem fyrst þannig að framkvæmdir þessa mikilvæga máls fyrir Víking geti hafist.
Planið hefur gengið að mestu leyti eins og ætlað var til þessa. Kvefið í síðustu viku setti aðeins strik í reikninginn en það er ekkert sem neinu máli skiptir. Ég er viss um að ég er sterkari núna heldur en á sama tíma í fyrra. Með þessu áframhaldi fer ég að fara á Esjuna hvað úr hverju, m.a. til að prufa nýja höfuðljósið sem ég keypti hjá Daníel Smára og félögum fyrir nokkru. Ég hef notað Leppin próteinblönduna hans í alla hádegismata um ca þriggja vikna skeið og er mjög sáttur við útkomuna. Þetta smitar svolítið út frá sér í umræðunni og hver veit hvað gerist. Það finnst alla vega öllum blandan vera góð á bragðið. Það verður fróðlegt að meta stöðuna þegar maður fer að herða á álaginu.
Herinn er svo búinn að ákveða að fara. Það var ekki flóknara en eitt símtal fra Wasington DC í gær. Einhvern tíma hefði manni fundist þetta vera tíðindi en nú er mér eiginlega nokk sama.
fimmtudagur, mars 16, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli