mánudagur, mars 27, 2006

Ekkert hlaupið í gær. Það var ferming í fjölskyldunni, prófalestur og fleira sem sett var framar í forgangsröðina. Ferming er alltaf svolítið sérstakur dagur. Það er dálítið skref barna inn í heim fullorðinna. Sumir krakkar halda að með fermingunni sé skrefið tekið að fullu en önnur átta sig sem betur fer á því að sú ganga er nokkru lengri og eins gott að taka hana í áföngum.

Það er gaman að skoða tímana í marsmaraþoninu. Tími fremstu manna er mjög góður. Stefán hleypur á rúmum 3 klst og hinn síungi Þórhallur kemur þar skammt á eftir. Þeir þremenningar Þórhallur, Ívar og Trausti fóru fram úr mér rétt áður en ég kom á stokkinn fyrir síðasta snúning og þar var sko ekkert gefið eftir, grimmdin lak af þeim. Elín kemur mjög sterk inn á 3.26 í sínu fyrsta þoni. Það verður gaman að sjá hvað hún afrekar í hlýrra veðri og þegar reynslan er farin að skila sér. Það var einnig gaman að sjá hvað hinn ólseigi Svanur fór létt í gegum sitt tuttugasta og níunda maraþon en hann var skorinn upp á seinna hnénu í októberlok í fyrra en fyrra hnéð fór í yfirhalningu snemma árs í fyrra. Síðan eru einnig margir góðir tímar í 1/2 maraþoni og er ekki að sjá annað en margir séu á mjög góðu róli eftir veturinn og verður gaman að sjá hverju fram vindur í ár. Það er ekki við öðru að búast en margir góðir tímar muni nást í sumar.

Ég gerði engar ráðstafanir með selen eða C vítamín át fyrir þetta hlaup. Ég ætla aftur á móti að búa mig vel undir hlaupið í London eftir mánuð hvað þetta varðar og bera saman hvernig ástand fótanna verður, bæði í hlaupinu og eins og eftir. Enda þótt maraþon sé ekki ultrahlaup þá tekur það vissulega verulega í eins og allir vita sem reynt hafa.

Flottar myndir hjá Torfa á www.hlaup.is frá hlaupi laugardagsins.

Þegar maður horfir út um gluggann á mánudagsmorgni og sér garrann og kuldanæðinginn getur maður ekki annað en hugsað sem svo að veðurguðirnir séu áhugasamir um framgang hlaupa hérlendis. Gaman væri ef fjölmiðlamenn sýndu þessum íþróttaviðburðum álíka eftirtekt.


Talandi um æfingar og góða tíma. Sá grein í Aftonbladet í dag sem fjallaði um þegar æfingarnar náðu yfirhöndinni í lífi einhverrar manneskju. Fjallað er nokkuð um þegar fólk verður svo háð æfingunum að þær taka stjórnina. Helstu einkennin eru þessi:

1. Verðurðu argur eða færðu sektartilfinningu ef þú þarft að sleppa æfingu?
2. Læturðu æfingarnar ganga fyrir samskiptum við fjölskyldu og vini?
3. Finnst þér að þú verðir að æfa sérstaklega mikið ef þú hefur borðað óvanalega mikið?
4. Ferðu á æfingar enda þótt þú sért lasinn eða með hita?
5. Æfirðu svo mikið að þér finnst líkaminn vera útkeyrður?

Því fleiri já, þeim mun meiri líkur á að vera æfingaháður.

Ef æfingarnar eru keyrðar áfram af kröftum s.s. eins og sektartilfinningu sem er upprunninn í fyrri erfiðleikum með að hafa vald á mataræði þá skyldi fólk hugsa sinn gang og átta sig á hver það er sem ræður ferðinni.

Engin ummæli: