Það gengur heldur treglega að ná kvefinu úr sér. Það er ekkert stórmál en er heldur leiðinlegt. Ég hef ekki kvefast svona lengi árum saman eða ég man ekki síðan hvenær. Þegar ég var í Rússlandi fyrir 10 árum síðan kvefaðist ég reyndar þannig að ég varð raddlaus í heila viku, þ.e.a.s. það heyrðist ekkert í mér (sem er kannski bara betra á stundum). Það var svolítið erfitt sérstaklega þar sem reglulegir fundir með rússunum voru eitt að skylduverkefnum okkar. Þá þurfti maður oft að sofa með húfu á hausnum svo heilinn í manni storknaði ekki yfir nóttina.
Það bætir ekki um að jafnhliða kvefinu er þessi kuldagarri utandyra. Maður er var um sig því ef eitthvað er verra en kvefslæðingur þá er það að láta sér slá niður.
Ég var að lesa greinina um þjálfunarákefð eftir Erling Richardsson sem Gísli birti á síðunni sinni. Greinin er mjög fróðleg og gagnleg. Hún staðfestir það sem maður hafði grun um að ákefðaræfingar skila meiri árangri en langar og hægari æfingar, sérstaklega við hin skemmri hlaup. Þegar verið er að æfa fyrir lengri hlaup eru langar æfingar nauðsynlegar og þá fyrst og fremst til að venja andann og líkamann við svo langa áreynslu. Andlegi undirbúningurinn er nefnilega einnig mjög mikilvægur. Reyndir ultramenn taka 4 - 6 tíma hlaup á ca hálfsmánaðarfresti sem andlega uppherslu.
Voðalega finnst manni stjórnmálaumræðan hérlendis stundum vera froðuleg. Jónínunefndin svokallaða skilaði frá sér skýrlu nýverið um framtíðarsýn í heilbrigðiskerfinu og velti upp ýmsum valkostum og möguleikum sem umræðugrundvelli fyrir stefnumörkun til framtíðar í þessum málaflokki sem er ekki sá einfaldasti. Á einum stað í skýrslunni var minnst á sem einn valkost af fleirum hvort ætti að láta þá efnameiri greiða fyrir aðgengi að læknisaðgerðum. Þetta var ekki ákveðin tillaga heldur sett fram sem möguleiki til að ræða ásamt fleirum. Það fór náttúrulega allt uppíloft og þingmenn töluðu sig hása og fordæmdu það að einhverjir skyldu einu sinni hugsa svona. Engin vitræn eða efnislega umræða komst að, kostir og gallar voru ekki metnir og niðurstaða fengin eftir þá umræðu heldur hlaupið strax í stóryrðin og frasana.
Ég minnist þess að einu sinni fyrir nokkrum árum var ég á fundi þar sem umræða skapaðist um greiðslur í heilbrigðiskerfinu. Þá voru þau afgreidd á þann veg af ákveðnum stjórnmálamanni að hann sagðist hafa verið á ferð í Indlandi og þar hefði einhver sem hann hitti (líklega leigubílstjóri) sagt honum frá afleiðingum þess að hann hefði ekki getað fengið læknisþjónustu fyrir sig sökum fjárskorts "og svona kerfi vil ég ekki hafa á Íslandi" lauk hann ræðu sinni og salurinn klappaði allt hvað af tók!!! Engin efnisleg umræða heldur frasar.
Ef ekki er hægt að ræða málin út frá raunveruleikanum og staðreyndum þá fara menn bara í hringi. Það er nú ekki eins og núverandi fyrirkomulag sé svo fullkomið að umræða sé óþörf. Það liggur ljóst fyrir að þeir sem hafa meiri fjárráð hafa aðra og fjölþættari möguleika en hinir sem ekki hafa jafn mikil fjárráð. Þetta er bara svona hvort sem almenningu vill eða vill ekki og hvort sem honum líkar þetta eða líkar ekki. Okkar samfélagsgerð byggir á því að að sé fyrir hendi ákveðið velferðarkerfi eða öryggisnet sem allir eigi að hafa aðgengi að, hvort sem um er að ræða menntun eða heilbrigðiskerfi svo dæmi sé nefnt. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir það að þeir sem hafa til þess fjárrráð geti keypt sér enn betri þjónustu en almannakerfið býður upp á. Þeir sem hafa efni á geta keypt börnum sínum auka kennslu, þeir geta sent þau í einkaskóla s.s. sumarskóla erlendis svo dæmi séu nefnd. Sama gildir um ákveðna heilbrigðisþjónustu, þeir sem hafa til þess fjárráð geta keypt sér ýmisskonar þjónustu sem aðrir geta ekki, ef ekki hér á erlendis. það er hins vegar enginn að tala um að fólk sé látið liggja fyrir utan dyr sjúkrahúsanna ef það getur ekki reitt af hendi kostnaðinn við aðgerðina. Þar sem skipulagið er svoleiðis að fólk kaupir sér ákveðnar heilbrigðistryggingar þá freistast alltaf einhverjir til að taka ekki slíkar tryyggingar ef efnin eru ekki mikil í þeirri von að menn sleppi við áföll. Ef viðkomandi lenda hinsvegar í áföllum þá sitja menn í súpunni. Um slíkt þekki ég dæmi og mæli slíkum kerfum aftur á móti ekki bót.
Sá í Fréttablaðinu að það á að fara að selja jólagjafirnar sem velviljuð börn gáfu fátæka fólkinu og fátæku börnunum um síðustu jól. Þær gengu sem sagt ekki út. Eftirspurnin var minni en framboðið. Er þessi fátæktarumræða sem gýs upp alltaf með reglulegu millibili kannski yfirdrifin? Ég minnist þess að í einhverri könnun hefði komið í ljós að 94% þjóðarinnar lifðu við góð lífskjör. Mér finnst það mjög góður árangur og hann er alls ekki sjálfsagður ef maður horfir til nálægra þjóða.
þriðjudagur, mars 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli