miðvikudagur, mars 22, 2006

Góð áform í gærkvöldi runnu út í sandinn. Ég var seinn fyrir vegna fundahalda og þegar heim var komið var frostið komið niður í alla vega -8% svo auminginn náði yfirhöndinni og maður hélt sig innan dyra. Það er hins vegar heldur að hlýna svo maður hefur enga afsökun í dag.

Stimpilgjaldið er líklega vitlausasti skattur sem um getur. Ríkið er með stimpilgjaldinu að skattleggja fólk sem er svo óheppið eða aura vant að það þarf að taka veðtryggt bankalán. Þeir sem taka lán með raðgreiðslum, bílalánum eða önnur lán sem ekki er þinglýst þurfa ekki að greiða skatt vegna lántökunnar. Eignaskatturinn er slæmur en lántökuskatturinn í gegnum stimpilgjaldið er enn verri. Fyrir ári síðan skuldbreytti ég áhvílandi Íbúðarsjóðslánum til að lækka vaxtabyrðina. Ríkið skattlagði mig um 120 þúsund kall vegna þess. Að lántaka sé skattstofn fyrir ríkið er svo absúrd að það tekur varla nokkru tali.

Ég hef grun um að þessi bjánalega skattheimta sé til kominn frá þeim tíma þegar umsýsla með peninga var álitin slæm og óþjóðholl. Slíkir aðilar sem sýsluðu með peninga og tóku jafnvel lán voru skattlagðir í þágu þjóðarinnar. Minna má á sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem var til hér á árum áður. Þá var litið svo á að þeir sem störfuðu við verslun eða skrifstöfustörf græddu svo mikið að þeir ættu öðrum aðilum frekar að greiða skatta til ríkisins. Hvaða þingmaður skyldi hafa dug í sér til að aka upp baráttu fyrir afnámi stimpilgjaldsins?

Sá í Mogganum í gær viðtal við tvær stelpur sem búa í Frakklandi og hafa tekið þátt í mótmælum franskra ungmenna gegn nýmælum í þarlendri atvinnulöggjöf. Með þessari nýju löggjöf mun atvinnurekendum verða gert auðveldara með að segja upp fólki sem þeir þurfa ekki á að halda. Stelpurnar voru vitaskuld á móti löggjöfinni og þótti efni hennar vera mikil firra og skerðing á mannréttindum. Ég held aftur á móti að slík löggjöf geti haft mjög jákvæð áhrif í franskt atvinnulíf. Atvinnuleysi er mikið í Frakklandi og reyndar mörgum fleiri löndum innan ESB. Öryggi starfsfólks er tryggt svo í bak og fyrir að atvinnurekendur eiga í miklum vandræðum með að segja upp starfsfólki sem þeir hafa einu sinni ráðið. Það hefur meðal annars í för með sér að þau ráða ekki fólk til starfa nema að þau alveg óhjákvæmilega þurfi. Það hefur því í för með sér að öryggiskerfið stuðlar að aukningu atvinnuleysis. Öryggisnetið er því farið að virka í andhverfu sína.

Ég þekki mann sem rekur fyrirtæki í Svíþjóð. Hann segir að ef fyrirtækið þurfi að segja upp manni þá sé það verkalýðsfélagið sem ákveði hverjum skuli sagt upp. Yfirleitt er sá einstaklingur valinn sem mesta möguleika hefur til að útvega sér atvinnu annarsstaðar. Þeir slakari sitja þannig eftir. Því velja fyrirtækin oft þann kost að segja engum upp og hafa þannig óhæft eða óþarft fólk í vinnu til að halda þeim sem dugur er í. Hvaða áhrif skyldu svona reglur hafa á framleiðni fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra á alþjóða vettvangi? Varla eru þær til bóta. Sveigjanlegur vinnumarkaður innan ákveðinna marka hefur áhrif til að draga úr atvinnuleysi og auka auðlegð þjóða. Enda þótt öryggisnet séu nauðsynleg við vissar kringumstæður þá mega þau ekki vera svo samansúrruð utan um allt og alla að það geti enginn hreyft sig fyrir netinu.

Engin ummæli: