miðvikudagur, mars 08, 2006

Fór ekki í vinnu í morgun því ég var með hitavellu. Ég held að þetta sé ekki neitt að marki en mér fannst skynsamlegra að náð þessu úr sér heldur en að vera að skrölta á fótum, ómögulegur og hálf verklaus.

Notaði tækifærið í morgun og renndi í gegnum hlaupadiskana frá Borgundarhólmi og WSER. Það er gaman að rifja þetta upp. Sá meðal annars í Lore of Running að þar var talað við Ann Trason sem átti WSER árum saman eða meðan hún tók þátt í hlaupinu. Hún fjallaði um þann mun sem er í Comerades og WSER og kemur inn á saltinntöku í hlaupunum. Í WSER var salt í skál og soðnar kartöflur hjá á öllum drykkjarstöðvum en yfir höfuð er ekki boðið upp á salt í Comerades að sögn Ann. Hún sagðist ætíð leggja mikla áherslu á að taka salt í hlaupum til að fyrirbyggja krampa í fótunum eftir fremsta megni. Hún nefndi nokkrar tegundir af steinefnatöflum sem til eru í USA sem gagnast henni vel en matarsaltið er það sem er yfirleitt nægjanlega gott að hennar mati.

Sá umsögn um leikverk í Blaðinu í gær. Hún hljóðar svo:

Leikverkið er samsett úr nokkrum sögum og myndum sem lýsa fáránlegum raunveruleika og raunverulegum fáránleika. Þetta eru sögur hversdagsins, fullar af sársauka, vanmætti og styrkleika, hræðslu og hugrekki, ást, fegurð og ofbeldi. Það ytra hverfur inn og hið innra út og enginn veit hvað leynist bak við hornið.

Þetta er umsögn um leikritið Eldhús eftir máli sem ég sá um daginn. Mér finnst umsögnin lýsa leikritinu nokkuð vel að mínu mati, án upphafs eða endis, ruglingslegt, yfirdrifið og innihaldslaust.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleymdirðu að fá þér lauk, kallinn?

Nafnlaus sagði...

Þessi bók, Lore of running, er hún peninganna virði ?

Kv/Börkur