föstudagur, mars 24, 2006

Sat ÍBR þing í gær fyrir hönd Víkinga ásamt fleirum. Ég hef undanfarið eitt og hálft ár verið í bréfaskriftum við sambandið með það fyrir augum að fá inngöngu fyrir UMFR36 inn í ÍBR. Ég held að það sá ekki ómerkara félag en mörg önnur. Nú síðast fékk ég bréf um að Laganefndin samþykkti ekki að nafn félagsins væri kennt við ákveðið heimilisfang. Í gær sá ég í gögnum þingsins að Íþróttafélagið Tunglið hafði fengið inngöngu í ÍBR á síðasta ári. Líklega fellur nafnið "Tunglið" ekki undir ákveðið heimilisfang eða hvað veit ég? Gaman væri að sjá götuskrána á Tunglinu. Líklega verður næst reynt að fá inngöngu undir heitinu Ungmennafélagið R36. Spennandi verður að sjá hvaða afgreiðslu það fær.

Ég les skandinavísk blöð nokkuð reglulega. Það er oft fróðlegt að fylgjast með fréttum þaðan. Oft sér maður að fréttir eru teknar beint upp afvefjum skandinavískra blaða og settar í blöð hérlendis. Það er bara eins og gengur og allt gott um það. Nú síðast hef ég verið að fylgjast með óhugnanlegu morðmáli sem gerðist rétt hjá Kalmar en réttarhöld standa nú yfir. Tvítugur strákur frá Afganistan að nafni Abbas hafði verið að slá sér upp með 16 ára gamalli stelpu frá sama landi. Foreldrar stelpunnar voru ekki ánægð með þessa þróun mála. Stúlkan hafði flutt að heiman til að geta verið nálægt kærastanum. Fjölskylda hennar bauð þeim að lokum heim til að ræða málin og diskútera framtíðina. Þegar krakkarnir birtust var stelpan fljótlega svæfð með svefnmeðali en Abbas var ósköp einfaldlega drepinn. Við verknaðinn var notuð sjóðandi matarolía, baseballtré og stór hnífur. Rétt er að fara ekki nánar út í lýsingu á smáatriðum. Síðan var reynt að láta líta út sem 17 ára gamall sonur hjónanna hefði framið ódæðið því hann myndi líklega fá einungis 3 - 4 ára dvöl á upptökuheimili (sem er svona eins og venjulegur heimavistarskóli með helgarfríum og sumarfríum að sænskum sið) en foreldrarnir myndu fá 15 - 20 ára fangelsi ef sök sannast á þau.

Þessi atburður er eitt dæmi um þau heiðursmorð sem of oft kemur fyrir að séu framin í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Að þeim standa oftast heittrúaðir múslímar. Þeir hafa sínar eigin siðareglur sem eru ansi langt frá því sem við höfum vanist. Inn í þessa umræðu kemur einnig staða konunnar í þessum samfélögum (innganga bönnuð fyrir hunda og konur)og þannig mætti áfram telja. Vitaskuld eru ekki allri múslímar sama sinnis og þeir sem greint er frá hér að framan en sama er, þetta er til í of miklum mæli.

Í Svíþjóð hafa verið stofnuð samtök sem bera heitið "Gleymið ekki Pele og Fadimu" til minningar um ungmenni sem drepin voru af svipuðum ástæðum. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á þessum ófögnuði og berjast á móti þeirri siðfræði sem réttlætir svona verknaði.

Af einhverjum ástæðum þá hafa frásagnir sænskra blaða af þessu máli ekki þótt þess virði að hafa verið teknar upp í íslenskum fjölmiðlum með copy/paste aðferðinni eins og svo margar aðrar sem eru ómerkilegri að mínu mati.

Engin ummæli: