mánudagur, mars 06, 2006

Fór út á sunnudagsmorgun kl. 8.30 og hélt inn í Elliðaárdal. Það var kalt á Poweratehringnum svo að grýlukerti mynduðust á húfunni þegar maður fór að svitna. Kom niður í Laugar rétt fyrir kl. 10 og þaðan var haldið vestur í bæ og snúið á Eiðistorginu. Ég hægði á mér á Ægissíðunni og lét hópinn fara á undan því gærdagurinn sat svolítið í manni enn. Ég vil ekki hætta á að fá beinhimnubólgu eða einhvern skrattann í fæturna vegna ofálags. Nægur er tíminn. Kom heim um 12 leytið og hafði lagt 33 km að baki. Helgin er með þeim lengri eða um 75 km samtals. Vigtin sýndi 82.5 kg þegar ég kom heim og höfðu 1.5 kg orðið eftir úti um morguninn. Þetta er orðið gott í bili eða fram á þriðjudag.

Fréttir um að Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefði sagt starfi sínu lausu í eftirmiðdaginn komu nokkuð á óvart. Nóg um það.

Skrapp í Þjóðminjasafnið um miðjan daginn til að sjá ljósmyndasýningu sem hollenskur maður tók hérlendis sl. sumar. Sýningin heitir "Rúntur" og vísar til þess að það vakti athygli hans hve rúnturinn er algeng afþreying ungs fólks á landsbyggðinni. Það hefur náttúrulega lengi verið eftirlæti ungs fólks að keyra góðan bíl. Kannast við það sjálfur að vestan hér í denn.

Horfði á Sjálfstætt fólk í gærkvöldi þar sem Jón "sé ég tár á hvarmi" Ársæll talaði við nafna sinn Jón Kr. söngvara á Bíldudal. Jón Kr. fór á kostum í þættinum eins og hans var von og vísa en mest hrifinn var ég af að sjá fegurðina í Arnarfirðinum. Veðrið hafði verið afskaplega gott fyrir vestan þegar unnið var að upptöku þáttarins og fékk maður að sjá sýnishorn af því í gærkvöldi. Maður sér vel þegar svona myndir ber fyrir augu hvað það vantar mikið þegar maður býr inn í miðri borg og þarf að gera sér sérstaka ferð á hendur út fyrir borgarmörkin til að sjá landslag. Þeir eiga greinilega nóg af því í Arnarfirðinum og ekki skemmdi kvöldsólin fyrir.

Engin ummæli: