Nú var ekki mikil hlaupið um helgina því öðru var að sinna. Ég fór hringferð með strákunum í 3ja flokk Víkings í handbolta. Þeir áttu að spila við Hött á Egilsstöðum á laugardaginn og KA á sunnudaginn. Við lögðum af stað upp úr kl. 7.00 á laugardagsmorguninn og héldum austur sveitir. Við Hvolsvöll fór að birta og var veðrið eins og best verður á kosið austur að Djúpavogi. Við stoppuðum t.d. við Jökulsárlónið í 13 stiga hita, heiðskíru og logni. Við komum til Egilsstaða um kl. 16.00. Straákrnir spiluðu við Hött kl. 17.00 og unnu þá sannfærandi. Við gistum svo í skólahúsnæði þeirra Egilstaðamanna um nóttina og jukum veltuna töluvert á pizzustað bæjarins um kvöldið.
Morguninn eftir var haldið til Akureyrar um kl. 8.30. Þá hafði veðri versnað heldur, farið að frysta og hálka á öræfunum og síðan mesta alla leiðina til Akureyrar. Það var spilað við KA strákana kl. 13.00 og tapaðist sá leikur með 3 mörkum. Víkingar voru fámennir og höfðu engan varamann þannig að úrslitin voru ekki slæm miðað við aðstæður. Síðan var rólað suður og við komum í bæinn um 20.30 í gærkvöldi.
Svona ferðir eru mjög skemmtilegar. Strákahópurinn er mjög fínn, góður andi og samstæður hópur sem skemmtir sér vel á ferðum sem þessum. Þær koma líka til með að efla andann og skilja eftir sig góðar minningar.
Ég hef verið að taka eftir því undanfarið að það er misjafnt hve númerið á kreditkortinu kemur fram á kvittunum í verslunum. Sumstaðar birtast bara öftustu 6 tölurnar en annarsstaðar kemur öll runan og einnig gildistíminn þannig að maður er að dreifa númerinu á kreditkortinu út um allt. Þetta skipti ekki svo miklu máli á meðan netverslun var ekki umfangsmikil en nú þegar hægt er að versla alla hluti á netinu, fara í fjárhættuspil á netinu og ég veit ekki hvað þá getur þetta farið að skipta máli. Sumir skrifa nafnið sitt mjög samviskulega á kreditnóturnar. Þá er ekki mikið mál að verða sér út um kennitöluna ef vilji er fyrir hendi. Ég kvitta ætíð undir kreditnótur á ólæsilegan hátt þannig að það þarf allavega að hafa eitthvað fyrir því að grafa upp hvað maður heitir. Ég þarf að kanna málið hjá VISA hvaða reglur gilda í þessu sambandi.
Her fer, fer her var sungið hér fyrir á árunum. Nú er hann bara farinn að pakka niður og er að fara. Allir fara. Öllu er pakkað niður. Ég held að brottför hersins eigi eftir að skapa mikil tækifæri fyrir Suðurnesin. Menn hafa alltof lengi hugsað um herinn sem eitthvað jafn sjálfsagt eins og að það birti alltaf eftir að nótt lýkur en það er bara ekki svo. Það hefur þó verið ljóst á seinni árum að það myndi draga til tíðinda í þessum málum fyrr en síðar. Nú er allt á fullu í fundahöldum á Suðurnesjum um atvinnumál. Meir að segja fóru forsætisráðherra og utanríkisráðherra suður eftir að ræða atvinnumál samkvæmt fréttum. Samkvæmt því sem mér er sagt þá eru það um 300 manns sem búa á Suðurnesjum sem munu missa vinnuna. Vitaskuld er það töluverður fjöldi og ætíð slæmt þegar fólk missir vinnuna. Það má hins vel á það minna að fjölmargir stórir vinnustaðir, fyrst og fremst í í sjárvarútvegi hafa lokað víða á landbyggðinni á undanförnum árum í tengslum þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað innan greinarinnar. Það er hins vegar ekki mikið atvinnuleysi út um land. Hvers vegna skyldi það vera? Jú. líklega vegna þess að fólkið hefur þurft að flytja burtu og leita sér vinnu annarsstaðar, yfirleitt hér syðra.
Sé að fyrrverandi forystumenn í stjórmálum eru farnir að láta á sér kræla á nýjan leik og síður en svo búnir að gleyma gömlum töktum. Þetta minnir mig á kvikmynd sem mig minnir að hafi heitið "The Return of the Mummies"
mánudagur, mars 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli