föstudagur, mars 31, 2006

Fór Poweratehringinn, Breiðholtshattinn og Grensássvegsslaufuna í eftirmiðdaginn í gær. Þetta var einn af þessum dögum sem er gaman að hlaupa. Það var hlýtt, golan hæfileg, brekkurnar liðu hjá, hraðinn var ásættanlegur og niður lungnanna eins og í nýjum átta strokka fjallajeppa.

Hitti Svan á leiðinni. Hann bar sig vel og sagðist ekki kenna sér neins meins í hnénu eftir maraþonið. Það er ánægjulegt því aðgerðir eru aðgerðir og ætíð nokkur óvissa hvernig útkoman verður.

Í gær féll dómur í máli forsvarsmanna Frjálsar fjölmiðlunar. Dómurinn var nokkuð þungur. Þegar maður ber saman umræðu um mál sakborninga í þessu máli og síðan umræðuna í krinum annað mál allstórt sem hefur verið á döfinni að undanförnu þá er nokkur munur á hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um málefni sakborninga í þessm tveimur málum. Það hefur til dæmis ekkert verið rætt um að málaferlin gagnvart þeim sem voru ákværðið í máli Frjálsar fjölmiðlunar hafi verið þungbær gagnvart fjölskyldum þeirra. Það hefur ekki verið gerð nein skoðanakönnun í fjölmiðlum um hvort eigi að fella málaferlin gegn þeim niður, enda hafa þeir í Frjálsri fjölmiðlun heitinni ekki gefið Barnaspítala Hringsins 300 milljónir króna. Það hafa ekki verið löng drottningaviðtöl við þessa sakborninga í fjölmiðlum þar sem þeir hafa af mikilli smekkvísi úthúðað ákæruvaldinu um léleg vinnubrögð og fúsk.

Í réttarríki er það eina sem maður getur farið fram á að þessir sakborningar eins og aðrir sakborningar verði meðhöndlaðir af réttvísi og verði dæmdir á sanngjarnan hátt samkvæmt laganna bókstaf. Svo á einnig við um aðra sakborninga, hvort sem þeir eru milljarðamæringar eða ekki.

Í kvæðinu Grettisbæli eftir Einar Ben kemur fyrir ljóðlínan "Sekur er sá einn sem tapar" Það er vonandi að það sannist ekki einn ganginn til.

Engin ummæli: