Góður hringur í hverfinu í gærkvöldi. Það er eins og vanalega. Maður heldur að það sé kalt úti en þegar maður er kominn af stað með lambhúshettuna og tilbehör þá er þetta bara mjög fínt og gott að hlaupa. Kuldi er spurning um klæðnað.
Fékk bréf í gærkvöldi frá Eiolf hinum norska. Hann er mikill meistari. Ég skrifaði honum um daginn varðandi Spartathlon. Hann sendi mér ýmisar gagnlegar upplýsingar. Hann segist fara hálfsmánaðarlega í 4 - 6 tíma hlaup þegar hann er að undirbúa sig undir svona vegalengdir. Það er ekki óáþekkt og ég hef gert og ætla að gera. Nauðsynlegt hins vegar að hafa reglu á því. Eiolf ætlar að fara til Grikklands í maí og þreyta 185 km hlaup með Trond vini sínum, svona sem upphitun fyrir sumarið. Síðan tekur hann þátt í Lappland ultra í júlíbyrjun og nokkrum maraþonum. Hann hefur verið eitthvað meiddur í tæpt ár og ekki getað beitt sér sem skyldi. Æfingaprógrammið fyrir svona löng hlaup segir Eiolf að eigi að vera 70% andleg uppbygging og 30% líkamleg. Ekki skal ég segja til um þessa skiptingu en hitt veit ég að andlega hliðin er mjög mikilvæg og hana skyldi ekki vanmeta. Andinn verður að ráða yfir skrokknum.
Sá frétt í sjónvarpinu í gærkvöldi á Stöð 2 um vinnuálag barna á Íslandi. Tilefnið var grein sem ungur strákur sem hafði unnið í Krónunni skrifaði í Moggann. Stöð 2 birti vel og vandlega myndir af meintri vinnuþrælkunarstassion Krónunnar. Nú dettur mér alls ekki að draga frásögn drengsins í efa en hinu má ekki gleyma að Krónan er í mikilli samkeppni við Bónus sem er í eigu sömu aðila og Stöð 2. Þetta dregur verulega úr gildi umfjöllunar stöðvarinnar að mínu mati. Ég minnist þess að í fyrra vetur birti Stöð 2 viðtal við póstburðarkonu Íslandspósts sem var ósátt við launin að nýloknum kjarasamningum póstmannafélagsins. Ég hringdi í fréttamanninn og spurði hvort þeir myndu ekki fylgja þessari frétt eftir með umfjöllun um vinnuálag og kjör blaðbera Fréttablaðsins. "Jú við erum að vinna í þessu" var svarið og eru líklega að því enn, því aldrei kom nein umfjöllun. Á þessum tíma var Frétt ehf nefnilega að íhuga að fara í samkeppni við Íslandspóst um útburð á almennum pósti. Eftir þriggja ára viðræður af og til er ekki enn búið að ganga frá kjarasamningum blaðbera Fréttar ehf við VR þannig að Frétt ehf ákveður enn einhliða kaup, kjör og vinnuálag blaðbera blaðsins. Það kom fyrir þegar ég kom nálægt þessum málum að 13 ára börnum var gert að bera 60 kg af blöðum og auglýsingum út í 120 ein- og tvíbýli á einum klukkutíma. Að mínu mati er til ákveðið orð yfir það vinnuálag.
fimmtudagur, mars 23, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli