Ég verð að segja að ég get ekki annað en verið dálítið hugsi yfir tónlistarhúsinu fyrirhugaða. 11 - 12 milljarðar, það er dálítil summa. Síðan þarf borgin að gera lóðina klára fyrir 2.5 milljarð. Bara si svona. Mér finnst stemmingin vera á stundum eins og mönnum finnist að nú geti þeir allt. Verðið skiptir ekki máli, það eru nógir peningar til.
Svona leið ýmsum á fyrstu árum plastkortanna. Allt í einu þurftu menn ekki að hafa áhyggjur af peningunum, eina sem menn þurftu að hafa til að versla voru plastkort og þá var hægt að kaupa allann skrattann. Svona um hríð. Svo kom reikningurinn. Hann gat verið dálítið hár ef menn höfðu ekki gætt sín. Þrautaráðið var að fá sér kort í öðrum banka ef menn voru komnir í vandræði á einum stað. Þá rúllaði þetta smá stund áfram. En hnúturinn herptist smám saman ef óvarlega var farið og æ erfiðara varð að leysa hann.
Í Finnlandi var Finlandiahúsið byggt fyrir nokkuð löngu síðan m.a. til heiðurs Sibeliusi sem er frægasta tónskálds Finna og þekktur víða um heim. Finlandia húsið kostaði álíka fjárhæð og rætt er um að tónlistarhúsið kosti hér. Sú ákvörðun kostaði langar og harðar umræður í Finnlandi um meðferð opinberra fjármuna. Í Finnlandi búa rúmlega fimm milljónir manna en hér búa þrjú hundruð þúsund einstaklingar ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því.
Það að byggja hús í einkaframkvæmd breytir í sjálfu sér engu um fjárhagslega ábyrgð þess sem fjármagnar framkvæmdina miðað við að byggja fyrir eigin reikning. Greiðslan er þá tekin út af rekstrarreikning sem leigugreiðsla í stað þess að taka hana út í gegnum sjóðsstreymi sem afborgun lána. Í báðum tilvikum þurfa fjármunir að vera til staðar til að standa undir viðkomandi skuldbindingum hvort sem um er að ræða greiðslu til banka vegna afborgunar láns eða greiðsla til einkaaðila sem leigugreiðsla. Það er hins vegar reikningsdæmi hvor er betur fallinn til að byggja og reka hús, einkaaðili eða opinber aðili. Niðurstaða úr þeirri umræðu er ekki einhlýt heldur verður að skoðast í hverju tilviki fyrir sig.
Mér finnast hins vegar rúmlega 600 milljónir á ári í 35 ár vera svakalega miklir peningar.
þriðjudagur, mars 14, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli