Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum að ókunnugt fólk (aðallega karlar) hefur stoppað mig á förnum vegi, óskað mér til hamingju með hlaupið í Danmörku en látið svo fylgja með: "En þetta er náttúrulega klikkun" Þegar ég malda í móinn og segi að þetta sé kannski ekki svo galið þá er sagt með þunga: "Þetta er víst klikkun"
Í sambandi við þetta þá hef ég velt fyrir mér hvað veldur því að fólk gengur að ókunnugu fólki og fullyrðir við það að það sé klikkað. Nú má vera að þetta sé blanda af öfund og vanmáttarkennd en það kemur meira til. Það er viðtekið sjónarmið að fólk eigi að falla í ákveðið norm. Ungt fólk á að vera á ferð og flugi og takast á við eitt og annað. Það er normalt. Fólk á sextugsaldri á að vera farið að taka það rólega, vera í golfi og taka kannski eina og eina gönguferð með Útivist eða FÍ. Annars á það að dútla í garðinum og anda rólega. Þetta er normið, annað er ónormalt. Ef einhver brýtur sig út úr norminu þá reynir almenningsálitið að þrýsta honum inn í normið aftur. Það er ekki sátt nema allt sé undir kontrol. Í annan kant má einnig ímynda sér aðra ástæðu. Nágrannar mínir eru afar duglegir að dútla við eitt og annað heima við. Til hreinnar fyrirmyndar. Það hefur hins vegar ýmis áhrif út frá sér. Oft er sagt hér heima; "Geturðu nú ekki farið að gera hitt eða þetta, sérðu ekki hvað þeir eru duglegir." Það er misjafnt hvað maður hrekkur fljótt til við slíkar brýningar. Því getur maður ímyndað sér að einhversstaðar sé sagt þegar konunni er farið að ofbjóða kílóasöfnunin hjá kallinum. "Geturðu nú ekki farið að hreyfa þig aðeins, góði minn, þú hefðir bara gott af því?" Þegar það hefur ekki áhrif þá er farið að benda á hina og þessa. "Sérðu hvað hinn eða þessi er að gera, farðu nú að hreyfa þig aðeins. Þú getur það alveg eins og þeir" Þá er lokavörnin að fullyrða að þetta séu bara kolklikkaðir endorfínsjúklingar sem verði að hlaupa lengra og lengra til að fá skammtinn sinn. Þetta séu bara dópistar. Svo þegar menn sjá ódámana ljóslifandi þá geta menn ekki staðist freistinguna að upplýsa viðkomandi um hvað þeir séu klikkaðir. Þetta er svolítið fyndið.
Nú er allt afstætt. Hvað er klikkun og hvað er ekki klikkun? Að mínu mati er það dæmi um töluverða klikkun að taka meðvitaða ákvörðun um að eyðileggja líkamann hraðar en lífsklukkan telur með óhollu mataræði, kyrrsetu og að ég tali nú ekki um með reykingum. Kílóunum fjölgar og blóðþrýstingurinn hækkar. Svo lætur eitthvað undan langt um aldur fram. Í upplýstu samfélagi nútímans vita þetta allir. Aðrir geta verið ósammála þessu mati og allt í lagi með það. En ef það er talin klikkun að borða hollan mat, styrkja sig andlega og líkamlega og setja sér ný og krefjandi markmið sem nást þá er ég harla ánægður með að vera álitinn klikkaður. Toppurinn á klikkuninni er síðan að slaka á í heita pottinum eftir langa og krefjandi æfingu, nýbúinn að fá sér góðan próteindrykk.
Ég er að hlusta á Útvarp Sögu. Stöðin er oft með fína umræðu um ástandið í samfélaginu. Gagnrýnin umræða er aldrei nauðsynlegri en í ástandi eins og samfélagið er í um þessar mundir. Þau eru að fara yfir að stöðin hafi ekki brugðist í gagnrýnni umræðu á undanförnum árum eins og aðrir fjölmiðlar eru sakaðir um. Ég er ekki sammála þessu sjálfsmati stöðvarinnar. Ég gat ekki fengið mig til að hlusta á Útvarp í nokkur misseri vegna þess hvernig stöðin fjallaði um persónu Jónínu Benediktsdóttur í kjölfar þerrar gagnrýni sem hún setti fram á þá þróun sem var að eiga sér stað í samfélaginu. Jónína var t.d. mjög gagnrýnin á fjármálakerfið, krosseignatengsl og vinnubrögð auðjöfranna. Hún fékk aldeilis að snýta rauðu fyrir vikið. Það átti hreinlega að ganga frá henni og skilja hana eftir ærulausa. Útvarp Saga gekk vasklega fram í því sambandi. Nú hefur reynslan sýnt að Jónína hafði rétt fyrir sér í öllum þeim atriðum sem hún fjallaði um. Mér finnst að Útvarp Saga ætti hreinlega að viðurkenna þetta og biðja Jónínu afsökunar. Þau stæðu sterkar eftir í gagnrýni á stöðuna eins og hún er í dag.
Tók 34 km í morgun. Frábært veður.
Víkingar fengu Hauka í heimsókn í Víkina í gær. Heimaliðið lá 1-3. Það er nokkuð í land með að byggja upp gott fótboltalið í Víkinni.
laugardagur, júní 27, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Orð í tíma töluð um klikkunina. Það er talin klikkun að verja 3-4 klukkutundum á dag í að viðhalda heilsunni eða jafnvel bæta hana en það er talið fullkomlega eðlilegt og fjærst allri klikkun að eyða öllum deginum í að eyðileggja eða skemma heilsuna með hreyfingarleysi og vitlausu mataræði - bæði hjá sjálfum sér og öðrum (börnunum sínum). Óvíða á betur við en hér "lengi býr að fyrstu gerð" og "hvað ungur nemur gamall temur."
Bjarni Stefán
Skrifa ummæli