Lítil hugmynd sem ég fékk í fyrra varð að veruleika í dag. Ég fór í bíltúr á síðastliðnu sumri inn á Kjalveg. Þar kannaði ég slóðir sem ég hafði aldrei komið á áður. Hvítárnes, Beinhóll, Þverbrekknamúli og Þjófadalir. Við gengum smá hring frá skálanum við Þverbrekknamúla upp að Hlaupinu og svo niður með Fúlukvíslinni að austanverðu í skálann. Einhversstaðar á leiðinni datt mér það í hug að það væri hæfilegur leggur að hlaupa frá Hveradölum, inn í Þjófadali, niður með Fúlukvíslinni, yfir Þverbrekknamúlann og svo niður með Fúlukvíslinni niður í Hvítárnes. Að stofni til er þetta gamli Kjalvegurinn nema hann lá ekki í gegnum Þjófadalina. Ég minntist á þetta við strákana í vetur og hugmyndin var komin af stað. Í vikunni tók Gauti af skarið með að nú skyldum við drífa okkur um helgina. Veðurútlit væri gott og ýmsir klárir. Við lögðum svo af stað í morgun átta saman. Gauti og Hafrún, Jói og Kristín, Sigurður og þóra, ég og Stebbi. Við keyrðum fyrst inn í Hvítárnes og skildum þar tvo bíla eftir en tróðum okkur öll í Krúser Gauta og Hafrúnar og ókum sem leið lá til Hveravalla. Það stóðst á endum að þegar við tókum beygjuna í hlaðið þá lá bíllinn á felgunni. Grjótið á Kjalvegi sýnir gúmmíinu enga miskunn enda þótt það sé undir nýjum og fínum bílum. Strákarnir á Hveravöllum voru allir af vilja gerðir með að hjálpa okkur, settu tappa í dekkið og gerðu allt klárt svo bíllinn væri nothæfur. Við lögðum af stað tuttugu mínúrur yfir tíu sem leið lá inn í Þjófadali. Það var hlýtt, logn en smá úði sem hætti fyrr en varir. Leiðin inn í Þjófadali er 12 km löng og liggur yfir tvo hálsa. Mestan partinn hlupum við eftir vegslóðanum. Við gerðum stuttan stans við sæluhúsið og fórum síðan sem leið lá inn úr dalnum og beygðum til vinstri niður með Fúlukvíslinni. Á þessum legg var að mestu leyti vatnslaust þar til við Þverbrekknamúlaskálann svo það þurfti að fylla á brúsana. Leiðin niður með Fúlukvíslinni er svolítið grýtt en annars hlaupin eftir troðningum sem kindur og hestar hafa mótað gegnum árin. "Hlaupin" er sá staður kallaður sem áin rennur í mjög þröngum stokk undir Þverbrekknamúlanum. Það er hægt að stökkva yfir ána ef mönnum liggur á. Nú er komin örstutt brú á ána sem göngufólk notar gjarna. Þaðan liggur leiðin upp á múlann og síðan er skokkað eftir honum í áttina að skálanum. Við gerðum smá stans við flottan blátæran hyl á leiðinni í gömlum árfarvegi. Í honum sáum við smáfiska okkur til undrunar. Brátt vorum við komin í hlaðið á skálanum. Þá voru komnir 26 km og við búin að vera 3 1/2 tíma á leiðinni. Við fengum okkur birgðir af vatni við skálann, skrifuðum í gestabók og héldum síðan áfram yfir brúna og niður með ánni að austanverðu. Ég vissi ekki alveg hvað þessi leggur var langur en hafði giskað á um 10 km. Hann reyndist drýgri eða um 16 km. Þarna var yfirleitt fínt að hlaupa, þéttar moldargötur og grjótið mjög sjaldan til leiðinda. Á þessum legg var þreytan aðeins farin að segja til sín enda nestið ætlað fyrir heldur styttri leið en hún reyndist þegar upp var staðið. Á einum stað munaði litlu að við færum fram hjá réttu leiðinni því það lá bara fjöl á jörðinni og á henni stóð Hvítárnes. Hvað ef spýtan hefði legið á hvolfi? Það létti sporið þegar við sáum skálann stutt undan og náðum þangað eftir tvo tíma frá´skálanum við Þverbrekknamúla eða eftir fimm klst og þrjátíu mín í allt frá Hveravöllum. Það stóðst á endum að þegar við komum að Hvítárnesi fór að rigna töluvert. Okkur var því ekki til setunnar boðið heldur drifum okkur af stað. Gauti fór að sækja bílinn í áttina að Hveravöllum en við hin sigum áleiðis heim. Finn dagur var á enda runninn og skemmtilegt að lítil hugmynd sem kviknaði af tilviljun skyldi verða að veruleika. Þetta er fín fjallahlaupaleið, bæði fjölbreytt og þægileg.
María fór með skömmum fyrirvara fyrir helgina á Gautaborgarleikana í frjálsum íþróttum. Markmiðið var að reyna að ná lágmarkinu á Ólympíuleikana fyrir 15 og 16 ára krakka. Þeir eru haldnir í Tampere i Finnlandi um miðjan júlí. Þetta er síðasti möguleiki hennar til að komast á leikana. Nokkrir aðrir krakkar frá Íslandi á leikunum í sama tilgangi. Þau voru svo óheppin að í Gautaborg er þessa dagana ca 28°C og heiðskýrt. Það er því erfitt fyrir hlaupara í lengri hlaupum að ná sínu besta við slíkar aðstæður heldur óvanur hitanum. Það er hægt að æfa hitaæfingar en það hafði enginn gert. Þó setti Íris Anna úr Fjölni íslandsmet í 2000 m hindrunarhlaupi. Hjá Maríu voru bundnar mestar vonir við 400 m grind sem hún hefur verið að standa sig vel í að undanförnu. Það gekk hins vegar ekki að ná lágmarknu þar og ekki heldur í 400 m hlaupi. Í morgun keppti hún svo í 100 m grind sem var svona aukagrein en tekin til að fá reynslu af að keppa á stóru móti. Þá bætti hún sinn persónulega árangur verulega, komst í úrslitahlaupið og náði lágmarkinu á OL fyrir unglinga í Finnlandi. Það var gaman að þetta skyldi allt ganga upp.
sunnudagur, júní 28, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
En gaman, til hamingju með stelpuna þína :)
Kv. Eva
Skrifa ummæli