sunnudagur, júlí 05, 2009

Ég mætti upp á Efstaleiti rétt fyrir kl. 9:00 í morgun. Þegar ég var að taka mig saman um morguninn þá hellirigndi en svo fór þetta að breytast í léttan úða. Það var smá spjall við Sirrý á morgunvaktinni og svo átti að skjóta hlaupið í gang. Það tókst í þriðju tilraun og þá var rúllað út á stétt. Þar voru smá viðtöl við sjónvarpsstöðvarnar og svo skokkuðum við Sigurður upp á Grensás. Þar beið Kolbrún Halldórsdóttir frænka mín sem staðgengill Eddu Heiðrúnar. Hún lýsti fyrir okkur þeim fyrirætlunum sem uppi eru um stækkun deildarinnar sem verið er að safna fyrir, því þótt ríkisvaldið hafi ekki verið örlátt til deildarinnar á góðæristímum þá er vart hægt að búast við meiri í því samfélagi sem verið er að sigla inn í. Sigurður skokkaði með mér inn að Sprengisandi og síðan hélt ég sem leið lá gegnum Grafarvoginn og upp í Mosfellsbæ. Veðrið var fínt, hlýtt, logn og það þornaði fljótt svo þetta varð hið besta hlaupaveður. Danskur maður sem heitir Stefán kom með mér frá Mosfellsbæ og upp að göngum. Þar beið Sveinn og við rúlluðum í gengum þau og síðan var pjakkað áfram. Frá göngunum og upp til móts við álverin er malarstígur við hliðina á þjóðveginum. Það var fínt að þurfa ekki alltaf að hlaupa á vegöxlinni. Sveinn beið rétt fyrir norðan Skagavegamótin og þar fyllti ég á. Síðan lá leiðin í gegnum Melasveitina og upp með Hafnarfjalli. Ég gat hlaupið á malarvegi í gegnum Melasveitina og síðan var hlaupið svona til skiptis á öxlinni og fyrir utan veg fyrir Hafnarfjallið. Reynir frændi slóst í "hópinn" við Ölver. Gummi Sig og Sigrún kona hans (foreldrar Sigurðar UMFÍ manns) biðu undir Hafnarfjallinu. Við Gummi erum gamlir skólabræður til margra ára. Haukur bróðir og Ingimundur komu svo með síðasta spölinn niður að Hótel Venus. Ingumundur verður svo ferðafélagi minn norður. Það er frábært hjá honum að skella sér út í þetta með skömmum fyrirvara. Við fórum ekki lengra því umferðin yfir brúna var mjög þung. VIð Venus biðu Edda Heiðrún og maðurinn hennar. Edda var afar ánægð með hvaða umfjöllun þetta litla verkefni hlaut yfir daginn. Það var góð umfjöllun í fjölmiðlum sem greinilega skilaði sér því þegar leið á daginn jókst það verulega að bílar flautuðu og fólk vinkaði. Það var fínt að verða var við að umfjöllunin hafi skilað sér út til almennings. Bílstjórar voru mjög tillitssamir og viku vel þegar það var hægt en það var ekkert voðalega gaman að hlaupa á þröngri vegöxl á móti þungri umferð. Maður reyndi einnig að vera áveðurs til að fá útblásturinn ekki allan niður í lungun. Einn sjálfskipaður húmoristi kom á móti mér með opna hurð rétt fyrir sunnan göngin. Svona bjánar eru allstaðar til og það eru þeir sem maður þarf að vara sig á.
Ég skellti mér svo í sturtu í Borgarnesi og svo rúlluðum við Sveinn í bæinn. Þetta var fínn dagur. Allt í fínu lagi. Engin eymsli en smá sinadráttur eftir að hlaupinu lauk. Ég þarf að taka magnesíum reglulegar því maður svitnar verulega. Það spáir þvílíku dúndur veðri á leiðinni þannig að það yrði ekki betra þótt maður hefði lagt inn pöntun.

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta aðbúnað á Grensásdeildinni geta lagt inn á reikning 0130 - 260 - 9981 Kennitala: 660269-5929

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég og Sumarliði ætluðum að hlaupa með þér upp úr hádegi í dag. Við fórum með einn bíl inn í Hvalfjarðarbotn og biðum svo í öðrum bíl við afleggjarann. Stuttu seinna sáum við þig bruna framm hjá í bíl í átt að göngunum! Rétt misstum af þér. - Gangi þér vel. Kveðja, Elín Reed

Nafnlaus sagði...

Sæl Elín.
Þið hefðuð átt að koma á eftir. Ég fór ekki langt í bílnum út úr munnanum norðan megin!!
Mbk
Gunnl.

Ásta sagði...

Sæll

Frábært hjá þér, ég er búin að leggja inn í söfnunina. Við vorum á leið frá N1 mótinu í gær og ég ætlaði að kasta á þig kveðju og hlaupa aðeins með þér en var of sein á ferðinni. Gangi þér sem allra best með restina.

Kv.
Ásta Laugaskokkari.

Nafnlaus sagði...

Hej Gunnlaugur
Det var hyggeligt at kunne følge dig op til Hvalfjörðurgöngin. Mange bilister har tilsyneladene hørt om foretagenet og blinkede med lysene, brugte hornet eller bare vinkede til os. Jeg vil endelig opfordre alle der har lyst og mod på at tage et par kilometer med GJ at få snørret skoene og komme af sted. Held og lykke med projektet.

kv.
Steffan Iwersen,
einrúm arkitekar