Ég heyri frá starfsmönnum Laugavegshlaupsins að landverðir við Laugaveginn hafi gert verulegar athugasemdir við umgengni hlauparanna við landið í hlaupinu. Gelbréf og verkjalyfjaumbúðir út um allt með stígnum. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Vitaskuld er það alltaf minnihlutinn sem hagar sér eins og fífl og svertir hópinn allann. Það á við í þessu tilviki eins og öðru. Það sem manni gremst hins vegar verulega að það skuli vera til staðar töluvert stór hópur fólks sem er búinn að byggja sig líkamlega upp í að fara Laugaveginn en er svo andlega sjálfhverft að það hendir rusli frá sér út um allt, jafnvel þótt í friðlandi sé. Þarna er ákveðnum hluta íslendinga rétt lýst. Maður sér stundum til kvikinda sem t.d. henda umbúðum út um gluggann á bílnum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég hélt satt að segja að það myndi öðru gilda um hlaupara á Laugaveginum. Maður vonar bara að það verði tekin um þetta ákveðin og hörð umræða svo viðkomandi skammist sín og heiti sjálfum sér að gera þetta ekki aftur. Ef það gengur ekki þá er bara að vona að þetta lið láti ekki sjá sig á Laugaveginum aftur.
Ég hef verið að lesa þær bækur sem hafa verið skrifaðar um efnahagshrunið að undanförnu. Mér finnst það vera skylda manns að reyna að fá eins greinargott yfirlit um þróunina og orsakir hennar eins og frekast er unnt. Þetta eru þvílíkir atburðir að þeir eru einstakir á seinni tímum. Við megum hins vegar ekki gleyma því að ríki hafa komið og farið þó stærri séu en Ísland. Rómaveldi leið undir lok, ríki Gengis Kan hvarf og þannig má vafalaust áfram telja. Hvað þá með eitt smáríki norður í Atlandshafi? Fjármálageirinn einkenndist í upphafi af oflátungshætti sem er sprottin af inngróinni minnimáttarkennd, grobbi, drambi og taumlausu rugli sem breyttist smám saman yfir í hreina glæpamennsku. Þeir sem lengst gengu frömdu hrein landráð. Það er alveg á hreinu að það kemst aldrei friður á í samfélaginu ef þetta lið verður ekki dregið til ábyrgðar. Hvernig á almenningur að geta tekið á sig stórkostlega lífskjaraskerðinu árum saman ef hann þarf síðan að horfa upp á glæpamennina haga sér eins og ekkert hafi ískorist. Eina vonin í að á þessu verði tekið og verkin kláruð er að erlendir aðilar stjórni rannsóknarferlinu. Hið spillta íslenska kunningjasamfélag hefur enga möguleika á að klára svona mál. Maður er að heyra að nú fyrst hætta á að spillingin byrji fyrir alvöru þegar farið verður að ráðstafa þeim fyrirtækjum sem ríkið hefur yfirtekið. Rússland hvað.
Umræðan um Icesafe málið hefur farið hina undarlegustu krókaleiðir. Þetta er eitt allra afdrifaríkasta mál sem löggjafarsamkoman hefur staðið frammi fyrir að afgreiða frá landnámi síðan kristni var viðtekin á Þingvöllum. Mig skal ekki undra að þingmenn séu órólegir yfir því að þeir séu að taka ákvarðanir án þess að geta verið vissir um að sú ákvörðun sem tekin verður sé sú rétta. Greining fagmanna hefur leitt af sér óöryggi um forsendur allar eftir því sem maður heyrir úr fréttum. Stjórnarliðar eru ekki einu sinni samstiga. Hin endanlega afstaða verður að vera efnisleg en má ekki mótast af því að verið sé að verja "heiður hússins".
Þegar verið er að leggja mat á hvort samfélagið ráði við skuldbindingar sínar í þessu sambandi þá hefur m.a. verið miðað við þjóðarframleiðslu. Það er að mínu viti rangt. Það er ríkissjóður sem kemur til með að borga brúsann. Hann fær tekjur sínar með skattgreiðslum einstaklinga og fyrirtækja. Því eru það tekjur ríkissjóðs sem verður að hafa til viðmiðunar um greiðslugetu og skuldaþol en ekki þjóðarframleiðsluna. Skatttekjur ríkissjóðs í ár verða nálægt 450 milljörðum. Það er ágætt að setja það í samhengi við bróttóskuldir ríkissjóðs sem verða það ég best veit milli 1100 og 1200 milljarðar þegar Icesafe dæmið er komið inn í myndina. Gömul þumalfingursregla segir að ef maður skuldar 150% umfram brúttótekjur þá þurfi maður að fara varlega. Ef skuldin er orðin tvöfaldar brúttótekjur er stutt í vandræðin. Maður stendur síðan varla undir skuldum sem eru þrefaldar brúttótekur. Vitaskuld er þetta gróf þumalfingurregla. Lánstími, vextir og framlegð skipta miklu máli í þessu samhengi. Reynslan hefur hins vegar sýnt manni að fyrrgreind þumalfingurregla er hins vegar yfirleitt mjög marktæk. Ég segi fyrir mig að ef við skulduðum þrefaldar brúttótekjur fjölskyldunnar þá væri allt í fjárhagslegri steik.
Sveinn benti mér á fínan vef í dag. www.grooveshark.com. Þetta er aðgangur að öllum hugsanlegum lögum. Þetta er ekki sett upp til að dánlóda heldur til að spila. Nú virkar tölvan sem ein risavaxin spiladós.
miðvikudagur, júlí 22, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þú manst eftir því þegar hlaupinu var beint niður í Fljótshlíð vegna veðurs. Þá dundaði Guðjón Ólafsson sér við að tína upp gelbréf eftir Álftavatn og blöskraði honum umgengnin og óvirðingin við náttúruna. Þetta þarf að brýna fyrir hlaupurum í upphafi og til vara að fá eftirfarann til að hirða ruslið eftir sóðana.
Sæll Gísli
Ég tók ekki þátt í vatnshlaupinu mikla en ég man ekki eftir annari eins umgengni í þau fimm eða sex skipti sem ég hef hlaupið Laugaveginn eins og sást núna. Enda voru þáttakendur þrefalt fleiri nú en áður (að árinu í fyrra undanskyldu).
Mbk
Gunnlaugur
Sæll Gunnlaugur.
Mig langar að forvitnast aðeins hjá þér hvernig þú ert að nota Herbalife vörurnar ... ég er dreifingaraðili og fékk í dag fyrirspurn frá einum góðum hlaupara sem vill fá að vita hvað þú ert að gera. :-)
Ég væri þakklát ef þú gætir sent mér línu á birna.maria@internet.is
með bestu kveðju,
Birna María
Skrifa ummæli