Það kemur fyrri að ég þyki jaðra við að vera öfgafullur þegar ég er að lýsa þeim fæðutegundum sem ér er hættur að borða. Ég kalla það einu nafni drasl og hvítan sykur legg ég til jafns við eitur. Stundum verður að mála hlutina sterkum litum til að eftir verði tekið. Ég er hins vegar viss um að mitt mat á mismunandi gæðum einstakra fæðutegunda er rétt í öllum aðalatrðium. Reynslan hefur kennt mér það og hún er oftast ólyngust. Það er hins vegar með þetta eins og margt annað, almenningsálitið vill hafa mann í ákveðnum kassa og reynir að troða manni inn í hann aftur ef maður er ekki samkvæmt norminu.
Ég sá í Mogganum í morgun niðurstöður rannsóknar sem unnin var í Danmörku þar sem tekið var fyrir fæðuval flutningabílstjóra sem borða að stærstum hluta til á vegasjoppum. Tilraunahóp va rskipt í tvo hluta. Annar hlutinn borðaði óbreyttan mat frá þvís em þeir höfðu gert en hinn hlutinn borðaði hollari mat. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Viðbragðflýtir þeirra sem skiptu yfir í hollari mat jókst verulega og þar með umferðaröryggi, blóðþrýstingur, kólesteról og blóðfita lækkaði og þeir léttust. Fæðan sem hollustuhópuinn fékk tryggði m.a. jafnari blóðsykurframleiðslu líkamans yfir daginn. Neysla einfaldra kolvetna, sem finnst í ríkulegu magni í hvítum sykri, sykruðum gosdrykkjum, sætindum og hvítu hveiti, setur blóðsykurinn úr jafnvægi. Afleiðingar mikilla sveiflna í blóðsykurframleiðslu eru m.a. streita, skapsveiflur, höfuðverkur og einbeitingarleysi. Miklar sveiflur í blóðsyrinum kalla á meiri sykurneyslu því líkaminn vill vinna á móti niðursveiflunni þegar blóðsykurinn fer lækkandi. Fitusöfnun síðan ekki talin með í þessu sambandi en hún er óumdeilanlegur fylgifiskur mikillar kolvetnaneyslu. Orsakasamhengið liggur því nokkuð ljóst fyrir. Það hafði hins vegar ekki legið jafn ljóst fyrir að það mætti ná jafn skjótum árangri með bættu mataræði eins og þessi rannsókn sýndi.
Ég hef ekki borðað hvítan sykur, kökur, kex, gos, sælgæti eða aðra óhollustu í þessum dúr i rúm þrjú ár. Ég fæ mér þó heimabakaðan pizzubita þegar þær eru bakaðar hér heima. Ég sakna einskis í þessu sambandi og nýt þess betur en nokkru sinni að borða mikið af góðum mat. Ég er ekki í nokkrum vafa um að líkaminn býr yfir miklu meiri orku eftir breytinguna en áður.
Ármannshlaupið var í gærkvöldi. Það var endurvakið eftir nokkurra ára dvala. Þátttakan hefur vaxið svo gríðarlega í almenningshlaupum í ár að þörfin er virkilega til staðar. Rúmlega 200 manns komi í Laugardalinn í gærkvöldi og spreyttu sig á 10 km og skemmtiskokki. Brautin er hröð en nokkur mótvindur á bakaleiðinni þyngdi sporið dálítið. Fyrstu menn voru á um 34 mín sem er fínn tími. Sveinn náði að fara á undir 42 mín sem er hans besti tími. Hann á hiklaust að geta náð undir 40 mín með sama áframhaldi en þann múr hef ég ekki brotið ennþá. Þorkell félagi ofan af Skaga hljóp á undir 46 mín. Fyrir 11 mánuðum og 20 kílóum síðan hljóp hann 10 km í RM á rúmlega klukkutíma þannig að breytingin er gríðarleg á tæpu ári, enda var hann kátur við hlaupalok. Þetta er eitt dæmi um ánægjuleg áhrif hlaupavakningarinnar enda þótt hún teljist ekki til íþrótta.
Eitt verð ég að minnast á frá gærkvöldinu. Við vorum tveir að fara um og loka götum með formlegum skiltum og keilum sem borgin útvegaði. Við gatnamótin við Suðurlandsbrautina þar sem gatan liggur niður í Laugardalinn var lokað fyrir akstur niður í Laugardalinn. Það var gert bæði með bannmerki á afreininni og síðan með keilum sem settar voru á götuna sem liggur beint niður í Laugardalinn. Þegar við vorum búinir að setja merki sem sýndi bann við hægribeygju og tvær keilur voru komnar út á götuna þá kom "elderly woman" á stífbónuðum Range Rover og tróð sér fram hjá keilunum eins og henni kæmi bara ekkert við það sem við vorum að gera. Ef það er eitthvað sem ég hef tapað litla þolimæði fyrir nú á seinni mánuðum þá er það fólk á dýrum bílum sem virðir ekki reglur og hagar sér eins og það sé eitt í heiminum. Það tókst að stoppa konuna og koma henni í skilning um að hún ætti að snúa við sem fljótast. Hér væri lokað og það gilti fyrir hana eins og aðra. Þetta er dæmigert fyrir ákveðinn hluta þjóðarinnar sem hugsar bara um eigin afturenda og treðst og potast ef það er nokkur möguleiki. Ég vona að sá tími sé liðinn að menn komist upp með það í eins ríkum mæli og áður. Því fyrr sem viðkomandi uppgötva það því betra fyrir þá sömu.
Einar Daði er í áttunda sæti á Evrópumeistaramóti í tugþraut fyrir 19 ára og yngri eftir fyrri daginn. Hann náði mjög góðum árangri í flestum greinum fyrri dags og stutt er í efstu men því keppni er mjög jöfn. Morgunblaðið sá ekki ástæðu til að geta um þetta í íþróttakálfinum í morgun heldur var varið heilli síðu í hvern og einn fótboltaleik í efstu deild sem fór fram í gærkvöldi. Enda þótt maður hafi gaman af því að horfa á fótbolta þá er maður löngu hættur að lesa þessar yfirdrifnu frásagnir af lítt athyglisverðum leikjum í blöðunum. Maður fer miklu frekar á fótbolti.net og skannar umfjöllunina þar. Það var hins vegar flott hjá KRingunum að slá Grikkina út. Þetta skiptir máli fyrir íslenskan fótbolta ef eitthvað lið nær að komast upp úr fyrstu umferðunum. Þeir eiga hins vegar eitt og annað ólært þegar þeir eru að kvarta yfir hitan um í Grikklandi. Það er hægt að undirbúa sig undir að þola hita eins og allt annað. Það er bara hluti af pakkanum. Eftir reynsluna frá Spartathlon í fyrra þá er maður hættur að hlusta á kvartanir út af miklum hita þegar íslenskir íþróttamenn fara erlendis að keppa. Það er bara vankunnaátta að búa sig ekki undir hann.
föstudagur, júlí 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli