Í nótt var gist á Gauksmýri rétt fyrir austan Hvammstanga. Fínn staður með góðu steikarhlaðborði. Veðrið í morgun var frábært, heiðskýrt, logn og hlýtt. Við lögðum af stað um kl. 9:00 og Ingimundur skokkaði með mér nokkuð austur fyrir Víðigerði. Þá var hann búinn að ná dagskammtinum. Hann sneri svo við og sótti bílinn en ég skokkaði áfram. Veðrið va rfínt, örlítinn andvari á bakið. Tíminn leið fljótt og eftir rúma 20 km gerðum við stuttan stans við Þrístapa og settumst aðeins niður á hólnum þar sem Friðrik og Agnes voru hálshöggvin í janúar 1830. Fuglalífið var á fullu, stelkar, spóar og jaðrakanar styttu mér stundir. Héðinn héraðslæknir á Blönduósi slóst í för með mér skömmu fyrir austan Vatnsdal og hljóp með mér austur að Kringlu. Við veginn fyrir neðan Torfalæk beið Jóhannes frændi með Hjálmari sonarsyni sínum. Það er alltaf gaman að hitta Jóhannes og sjá fallegt bú þeirra hjóna, hans og Ellu. Hjálmar skokkaði með mér að næstu drykkjarstöð. Gamall skólabróðir frá Hvanneyri, Jón Sigurðsson frá Blönduósi, beið við veginn og tók mikið af myndum. Hann bætti svo um betur þegar ég kom til Blönduóss. Ég gerði stuttan stans á Blönduósi en hélt svo af stað inn Langadalinn. Skömmu fyrir austan Blönduós fótu hjólreiðastrákarnir að tínast fram úr mér. Við hittum svo þann síðasta þegar við hættum eftir 65 km. Það var mjög heitt í dag og maður drekkur mikið. Ætli fari ekki milli 6-8 lítrar á dag. Við stoppuðum svona 10 km fyrir vestan Húnaver og var það á áætlun. Síðan var heiti potturinn í Húnavallaskóla tekinn og svo farið að borða og gera klárt.
Bróðurdóttir Jóns frá Úthlíð hringdi í mig í dag og ætlar að hitta mig í Varmahlíð á morgun. Þá kemur Depillinn sér vel til að stilla af tímann. Nú þekkja ekki allir Jón heitinn frá Úthlíð og því er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum hví þetta hlaup er öðrum þræði minningarhlaup um hann. Jón var fæddur ca 10 árum fyrr en ég í Úthlíð í Biskupstungum. Ég man eftir honum um og fyrir sjötiu úr blöðunum sem mikils hlaupara, fyrst og fremst í 5.000 m og 10.000 m. Hann var landsliðsmaður um nokkurra ára skeið. Hann hafði alltaf ætlað sér að verða bóndí í Úthlíð og bjó þar með sauðfé. Þegar hann er 32 ára gamann þá verður hann fyrir því slysi að það hrynur á hann heybaggastæða og hann hryggbrotnar. Lífið tekur kúvendingu á einni svipan eins og svo margir verða fyrir sem lenda í slysum. Eftir endurhæfingu þá þurfti hann að taka nýja stefnu í lífinu vegna breyttra aðstæðna. Hann tók stúdentspróf og las síðan líffræði við HÍ. AÐ námi loknu stundaði hann síðan kennslu til æfiloka. Þegar ég var að byrja að skokka þá sá maður þennan firrum mikla hlaupara í hjólastólnum alltaf í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann tók þátt í 10 km hlaupi eða hálfmaraþoni. Hann var mér og öðrum hvatnig á þessum árum til að gera betur því það er allt afstætt. Maður sá að það var ekki mikið mál fyrir fullfrískan mann að fara hálft maraþon á tveimur jafnfljótum þegar lamaður maður í hjólastól lék sér að því. Síðar kynntist ég Jóni nokkuð þegar við tókum tal saman á stígunum þegar leiðir okkar lágu saman. Jón lést fyrir tveimur árum langt fyrir aldur fram aðeins 64 ára gamall. Við hjá UMFR36 vildum leggja okkar litla skerf fram til að halda minningu hans á lofti með að nefna 6 tíma hlaupið í höfuðuð á honum sem mikils afreksmanns sem vanns ín stærstu afrek ekki síður eftir slysið en fyrr það. Okkur þótti því við hæfi að hafa þetta hlaup að öðrum þræði minningarhlaup um Jón því hann var mikill afreksmaður á landsmótum UMFÍ í gegnum tíðina.
Kristján verktaki rétti mér pening út um bílgluggann í dag, Jóhannes og Ella á Torfalæk skákuðu að mér umslagi og Snorri Pálsson frá Vopnafirði lagði söfnunni lið á bílaplaninu á Blönduósi.
Við leggjum af stað á álíka tíma á morgun. Verðurútlit er gott. Þá verður farið langleiðina upp á Öxnadalsheiði. Allt er á áætlun og allt er eins gott og það getur verið.
miðvikudagur, júlí 08, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Sennilega er heppilegt að taka Langadalinn í tveim lotum, hann hefur orðið mörgum drjúgur, sbr þennan gamla húsgang,
"Ætti eg ekki vífaval,
von á þínum fundum.
Leiðin eftir Langadal
löng mér þætti stundum"
Ég fylgdist með deplinum í hádeginu þegar hlaupið var yfir sýslumörkin. Framundan er nú hin óárennilega Bólstaðarhlíðarbrekka.
Það verður fylgst með þér á morgun!
Bestu kveðjur, Haukur og Inga.
Takk fyrir skrifin Gunnlaugur. Það er frábært að geta kíkt á þetta á kvöldin og fengið dálitla innsýn í atburði dagsins. Hef líka fylgst all náið með deplinum. Sé þar tölunni 13 bregða fyrir annað slagið á hraðamælinum. Það er greinilega ekkert slugs í gangi þarna fyrir norðan. :)
Hef sjálfur aðeins reynt að hvetja til fjárframlaga í gegnum bloggið mitt. Veit ekki hverju það skilar, en útdráttur úr blogginu náði þó alla vega inn í blogghornið í Mogganum í morgun.
Gróf upp æfingadagbókina mína frá ofanverðri síðustu öld. Eins og mig minnti keppti ég við Jón heitinn í 5.000 m á Landsmótinu á Akranesi 11. júlí 2005. Í bókinni stendur m.a.: "... var síðan lengi vel 6. eftir að Jón bóndi hafði dottið. Jón náði mér svo aftur (og reyndar öllum hinum nema Jóni Dick)". Jón gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana, en einhvern veginn minnir mig að hann hafi fengið slæma byltu snemma í hlaupinu.
Bestu kveðjur til þín og Ingimundar. Gangi ykkur allt í haginn á þessum spotta sem eftir er. :)
Takk fyrir góðar kveðjur. Langidalurinn var nú ekki svo langur en það var ansi heitt!!
G
Skrifa ummæli