Ég hef nokkrum sinnum að undanförnu verið að velta vöngum yfir slysum og óhöppum í ferðamennsku. Það liggur ljóst fyrir að þau eru alltof mörg og er ýmsu um að kenna í þeim efnum. Það getur verið ókunnugleiki, lélegar upplýsingar eða slakar merkingar, klaufaskapur, fífldirfska, vanmat á aðstæðum eða vont veður. Ég heyrði rétt fyrir skömmu að það ætti að fara að setja upp ein 10 upplýsingaskilti til að leiðbeina ferðamönnum sem aka um á hálendinu. Þau eru ekki síður ætluð fyrir erlenda ferðamann. Þótt segja megi að betra sé seint en aldrei þá getur maður einnig spurt; Því er ekki búið að þessu fyrir lifandis löngu? Hver er sýn fjárveitingavaldsins til svona hluta? Það er náttúrulega óverjandi að merkingar séu slaklegar varðandi helstu öryggisatriði. Þeir sem hafa farið um hálendið þekkja vel hve merkingar á vegum og slóðum eru oft slæmar. Merkin skökk, úr lagi gengin eða textinn máður af ef þau eru þá yfir höfuð til staðar.
Ég fór leiðina frá Hveravöllum til Hvítárness á sunnudaginn í fyrsta sinn. Sú leið er nokkuð fjölfarin. Við mættum nokkrum slæðing af göngufólki. Engu að síður er leiðin mjög illa merkt. Á Hveravöllum er vegprestur sem vísar til Þjófadala eftir vegslóða. Það er allt í lagi með að rata ef maður fylgir slóðanum. Í Þjófadölum eru svo engar merkingar um hvert á að halda þaðan. engar stikur, ekkert nema kindagötur. maður verður alltaf að horfa á svona hluti með augum þess sem ekkert veit. Ef maður er staddur í Þjófadölum í þoku þá veit maður ekkert hvert maður á að fara. Flestir hafa með sér kort verður maður að vona en sama er. Ef menn missa af slóðanum þá er ekki á góðu von. Engar merkingar eru við Hlaupin um að þar sé leið í skálann. Engar emrkingar eru við brúna yfir Fúlukvísl við Þverbrekknamúlaskála um hvert eigi að fara til Hvítárness. Þegar maður er kominn langleiðina í Hvítárnes þá skerast leiðir milli kindaslóðanna og leiðarinnar í skálann. Merkingin var spýta sem var skorið Hvítárnes sem lá á jörðinni. Sem betur fer sneri textinn upp. Engar merkingar eru við Hvítárnesskálann um leiðina til Hveravalla. Þetta er bara svona dæmi um hve laklega er staðið að þessum málum á leið sem er nokkuð fjölfarin. Í fréttum á mánudaginn heyrði maður að erlend kona hefði villst á leiðinni frá Þjófadölum til Hveravalla. Ellefu km af tólf á þeirri leið eru á vegarslóða. Það á ekki að vera hægt að villast á þessari leið. engu að síður villist fólk. Kannski vegna þess að það eru engar stikur frá skálanum upp á slóðann. Í þoku geta menn hæglega rambað ranga leið.
Maður vill nú helst ekki segja mikið um slysið á Langjökli. Það er svo svakalegt að það tekur engu tali. Þar hefur hárstrá skilið að líf og dauða. Á jökli eru aðstæður eins og voru þennan dag ekki síður hættulegar en þegar veður er verra. Sól og blíða. Þá eru menn ekki eins gætnir. Það er náttúrulega ekki í lagi að krakka sé hleypt einum út á jökulinn á vélsleða, krakka sem hvorki má keyra svona sleða né gerir sér grein fyrir aðstæðum á jökli. Hann endar svo inn á slíku dauðasprungusvæði að björgunarsveitarmennirnir þorðu ekki að hreyfa sleðann. Þeir náðu honum ekki yfir sprungurnar. Jökulsprungur eru eitt af því svakalegasta sem maður veit um. Menn geta t.d. lent svo í þeim að það náist ekki til þeirra enda þótt þeir lifi af fallið.
Það virðist aldrei taka einhverja umræðu um hvort það sé eðlilegt að björgunarsveitarménn eigi ætíð og eilíflega að vera klárir að rjúka af stað hvar og hvenær sem er fyrir ekki neitt þegar eitthvað verður að hjá einhverjum. Af hverju eru þeir sem skipuleggja fjalla- og hálendisferðir t.d. ekki skyldaðir til að kaupa sér tryggingar vegna hugsanlegra útkalla? Það gæti verið að menn skipulegðu sig öðruvísi ef sjálfsábyrgð væri nokkur í slíkum tryggingum. Svona tryggingar gera ferðina dýrari en af hverju ætti samfélagið að standa straum af hugsanlegum björgunarkostnaði. Það er ekkert ókeypis í henni veröld. Það er þó alla vega ódýrara fyrir samfélagið að hafa slíkt fyrirkomulag en að láta ræsa út tugi eða hundruð manna með tæki og tól við hvaða aðstæður sem er án þess að fá neina umbun þó ekki væri nema upp í útlagðan kostnað. Grænlendingar eru löngu hættir þessum leikaraskap. Þeir sem leggja af stað yfir Grænlandsjökul verða að hafa allar tryggingar á hreinu því Grænlendingar eru hættir að bjarga mönnum fyrir ekki neitt ofan af jöklinum.
miðvikudagur, júlí 01, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli