miðvikudagur, júlí 29, 2009

Punkturinn var settur fyrir aftan Akureyrarhlaupið í gær niðri á Grensásdeildinni. Það var smá samkoma í garðinum fyrir utan deildina þar sem formaður UMFÍ afhenti Hollvinasamtökum Grensáss formlega söfnunarféð sem safnaðist í kringum hlaupið itl Akureyrar. Forysta samtakanna og eldhuginn sjálfur, Edda Heiðrún Backmann, tóku á móti því sem safnaðist. Þetta var fín stund og gott að ljúka þessu verkefni á svona hátt. Það er svona með litlar hugmyndir sem virðast út í hött í byrjun að þær eru oft þær skástu þegar upp er staðið.

Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getað tekist á við þetta verkefni. Mér var það betur ljóst en nokkru sinni þessa stuttu stund sem ég kom við á Grensássdeildinni í gær. Þar hitti ég þrjá menn, sem ég er vel málkunnugur, sem eru að takast á við endurhæfingu eftir að hafa fengið heilablóðfall á síðustu mánuðum. Ég vissi um einn að hann hafði fengið heilablóðfall í vor en um hina vissi ég ekki. Tveir þeirra eru heppnir þannig að þeir hafa málstöðvar í allgóðu lagi og hafa ekki verulega skerta hreifigetu. Sá þriðji situr í hjólastól og hefur verulega skerta talgetu. Allir voru þeir á fullu í samfélaginu fyrir áfallið og ekki annað að sjá að svo yrði áfram um óráðna framtíð þegar ég hitti þá síðast. Nú stendur yfir hjá þeim baráttan við að ná sér sem best aftur með þrotleusum æfingum undir leiðsögn fagfólksins á Grensássdeildinni. Þetta leiðir hugann að því að það veit enginn hver verður næstur sem þarf á fagþjónustu Grensássdeildarinnar að halda.

Edda fór með okkur um húsnæðið og sýndi okkur eitt og annað sem fólk dreymir um að gera deildinni til bóta og framfara. Hún var tekin í notkun árið 1973. Þrátt fyrir að þjóðinni hafi fjölgað um nær 40% og þörfin fyrir þjónustu deildarinnar aukist miklu meira meðal annars vegna breyttra þjóðfélagshátta, þá hefur ekkert verið gert í að stækka og bæta húsnæðið á þeim 35 árum sem liðin eru frá því að það var tekið í notkun utan að það hefur verið byggð sundlaug. Maður getur ekki annað en leitt hugann að því hverjar eru áherslur þeirra sem ráða forgangsröðun í notkun opinberra fjármuna. Í því sambandi má minna á að árum saman (ég man ekki í hve mörg) var togast á um tvöföldun Reykjanessbrautarinnar. Það þótti dýrt og önnur verkefni voru talin nauðsynlegari af yfirvöldum. Árlega fórst samt fólk þar í umferðarslysum og ótölulegur fjöldi slasaðist og sumt örkumlaðist til lífstíðar. Á meðan var togast á um fjármunina. Eftir að tvöfölduninni var loksins lokið þá verður varla slys þarna, alla vega ekkert í samanburði við það sem áður var.

Það er ekki hægt annað en að þakka öllum þeim sem sem lögðu þessu verkefni lið með fjárgjöfum, stuðningi á annan hátt og jákvæðri umræðu sem vonandi skilar sér á áþreifanlegan hátt þegar stóra söfnunin fer fram í haust.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var flott framtak, stórt prik fyrir það. Og alltaf gaman að lesa bloggið. Guðni

Nafnlaus sagði...

Þetta var mögnuð hugmynd sem þú gerðir að veruleika.
Varð hugsað til þín þegar ég sá þessa skí: www.fourhourworkweek.com/blog/2009/05/07/vibram-five-fingers-shoes/
kv Jón

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón
Ég hef alltf hlaupið í þumlasokkum sl. fjögur ár eða eftir að ég sá þá í WS hlaupinu árið 2005.
Það væri kannski ekki vo vitlaust að fá sér þumlaskó líka!!
Mbk

GUnnl.