laugardagur, júlí 04, 2009

Ég legg að stað í fyrramálið til Akureyrar - á fæti. Þetta er verkefni sem er sett upp í samvinnu UMFÍ og Eddu Heiðrúnar Backmann fyrir hönd Grensásshópsins. Hlaupið er jafnframt sett upp í minningu Jóns H. Sigurðssonar frá Úthlið, þess mikla afreksmanns sem lést langt fyrir aldur fram. Markmiðið er að safna fé til styrktar endurhæfingarstofnunni við Grensás. Þetta er undanfari stóra fjáröflunarátaksins sem verður í haust. Ég hef sett dæmið upp þannig að ég tek sex daga í hlaupið og kem til Akureyrar á föstudagskvöldið. Að jafnaði eru þetta um 65 km á dag en það getur verið að ég fari eitthvað lengra suma dagana til að eiga borð fyrir báru á föstudeginum. UMFÍ hefur skipulagt þetta allt með miklum sóma. Ingimundur hlaupari úr Borgarnesi fylgir mér frá og með mánudeginum. Sveinn ætlar að vera með mér á morgun. Höldur bílaleiga leggur bíl til ferðarinnar. Rás 2 verður með umfjöllun um verkefnið og stjórnar fjáröfluninni í samvinnu við UMFÍ. Ég legg af stað upp úr kl. 9:00 frá Efstaleiti, kem við á Grensásdeildinni á leiðinni út úr bænum og svo verður nuddað áfram. Það spáir mjög vel næstu daga þannig að ekki á veðrið að vera til trafala. Þetta verður skemmtilegt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært framtak, gangi þér vel! Við förum norður á föstudaginn, sjáum kannski í skottið á þér á leiðinni :)

Nafnlaus sagði...

Við erum: Eva og co. :)

Nafnlaus sagði...

Veit ekki hvort þú lest þetta fyrr en hlaupinu lýkur... en það hefði nú verið gaman að fá að lána þér "depil" svo fólk geti fylgst með þér á hlaupinu í rauntíma?! Hafðu samband við okkur ef þér hentar. Þá þefa ég þig uppi á þjóðveginum og kem á þig Depli.
kv,
Baldvin / Rögg / depill.is

Nafnlaus sagði...

Frábært hjá þér Gunnlaugur minn, það er alltaf sami krafturinn í þér og þetta er þarft framtak.

Gangi þér vel og hugur okkar mun fylgja þér alla leið. Kannski sjáumst við fyrir norðan, við erum að spá.
Kær kveðja,

Bryndís og Úlfar.