Síðasti dagurinn í Grensásshlaupinu rann upp á föstudagsmörgun, bjartur og fagur eins og aðrir. Við Ingimundur vorum tiltölulega slakir og vorum komnir upp á Öxnadalsheiðiáð réttum stað um kl. 10:00. Þessi dagur myndi lengjast í seinni endann og því gátum við tekið það rólega framan af. Við skokkuðum af stað upp brekkurnar eftir því sem fært var en það er töluvert á fótinn upp Öxnadalsheiðina. Alls voru rúmir 8 km uppá kjöl frá þeim stað sem við byrjuðum. Svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir að við lögðum af stað þá stoppaði hjá okkur bíll með tveimur konum í. Þar var komin Gústý, gömul skólasystir frá Hvanneyri. Hún var á leið vestur á sínar gömlu heimaslóðir í Austur Hún. Hún hafði viljað gleðja kallinn og rétti mér fallegan blómvönd. Þetta þýddi ekki annað en myndatöku í vegkantinum. Það voru margir kunnugir á leið á landsmót. Sigurður P. og kona hans stoppuðu hjá mér uppi á kilinum og Björn og Ólafur Margeirssynir og Rakel stoppuðu ofarlega í Öxnadalnum. Sama gerðu Ívar og Jóhanna svo og Stefán Örn og Hafdís. Stefán kom með mér á fæti í ca klukkutíma. Það var bjart og hlýtt en smá gola á móti. Það hélt hitanum aðeins niðri. Það var svolítið skrítið að það var ekki mófugl að sjá efst í Öxnadalnum en þeim fór fjölgandi þegar nær dró mannabyggð. Fólk rétti mér peininga út um gluggann á bílnum til að styðja verkefnið. Oddur, Pétur, Sigurður úr Hörgárdalnum og lítil stúlka í aftursætinu. Þeim er þakkaður góður hugur. Þegar leið á daginn heyrðum við í Sigurði. Edda Heiðrún og hennar fólk var á leið að sunnan og það hafði verið ákveðið að við myndum hittast við Þelamörk. Við stilltum okkur af þannig að þau væru örugglega komin þangað þegar okkur bæri að garði. Þangað komum við á fyrri hálftímanum í sex. Við þelamörk voru Edda og varaformaður Hollvinasamtaka Grennsáss og starfsmaður stofnunarinnar. Einnig var þar formaður, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri UMFÍ ásamt vinum og kunningjum. Það var tekið höfðinglega á móti mér með blómvendi og gjöfum og mörg falleg orð féllu á þessari stundu. Það geta ekki annað en bærst með manni ýmsar tilfinningar eftir við lok svona verkefnis. Lítil hugmynd sem kviknaði seint í vetur og þótti kannski ekki alltof raunveruleikatengd hafði gengið fyllilega upp. Það er ekki lítils virði að geta notað það sem manni er gefið til að styðja við þá sem standa veikar fyrir. Það sem gerði þetta hlaup þess virði sem það varð var að vekja athygli á því að örlög manna eru misjöfn á marga lund. Staða þess fólks sem verður fyrir áföllum vill oft gleymast og falla í skuggann af því sem þykir fréttnæmara og sölulegra hjá fjölmiðlum. Það að hlaupa til Akureyrar bara til að gera það hefði ekki verið svipur hjá sjón miðað við þetta verkefni.
Eftir góða stund við Þelamerkurskóla þá fórum við Ingimundur og Stefán Gíslacon í heita pottinn og slökuðum aðeina á. Nú var aðeins lokaspretturinn eftir. Ég átti að mæta á setningarhátíð landsmóts UMFÍ upp úr kl. 21:00. Ég lagði því af stað á seinni hálftímanum í átta. Brekkurnar frá skólanum upp á Moldaugnahálsinn voru drýgri en mig minnti svo mér veitti ekki af tímanum. Ég skokkaði svo til Akureyrar í kvöldblíðunni. Við Húsasmiðjuna komu Þórey Gylfa og vinkonur hennar tvær á móti mér. ég kom svo upp að Boganum rétt um kl 9:00 og beið í smá stund við hliðið. Það setur fljótt að manni svo ég tók nokkra hringi á planinu áður en Sigurður veifaði. Það var skemmtilegur lokapunktur á þessu verkefni að ljúka því á setningarhátíð landsmótsins. Helga formaður UMFÍ tók þar á móti mér með kransi og kossum. Það var UMFÍ til mikils sóma hvað þeir tóku fljótt við sér þegar ég ræddi þessa hugmynd við Sæmund. Þau settu allt í gang til að gera þetta mögulegt. Sigurður skipulagði verkefnið af miklum myndarskap. Hann lagði m.a. áherslu á að með mér væri maður sem væri hlaupari og þekkti hvað um var að vera. Hann hefði ekki getað valið betri mann en Ingimund úr Borgarnesinu til að fylgja mér norður. Við náðum strax mjög vel saman og hann hafði vakandi auga á hverjum fingri um að allt væri eins og best væri á kosið. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér.
Það var svo sem ekki til setunnar boðið þótt til Akureyrar væri komið. Morguninn eftir var maraþon. ég hafi haft ákveðinn fyrirvara um þátttöku í því ef fæturnir væru ekki í lagi. En þar sem allt var eins og best var á kosið þá var ekkert því til fyrirstöðu að klára það. Það var þó ákveðið stress í manni fyrir því þar sem það tekur sig alltaf upp ákveðið kapp þegar í keppni er komið. Ég hafði getað stjórnað öllu sjálfur á leiðinni frá Rek til Ak en nú var því ekki að heilsa. Maður vissi t.d. ekki hvernig fæturnir myndu þola álag af nýju tagi. Í stuttu máli þá gekk hlaupið upp eins og ætlað var. Það var nokkuð heitt en þó allt í lagi. Ég fór á þeim hraða sem ég tali mig ráða vel við, passaði mig á að drekka vel, taka gel og steinefnatöflur og lauk hlaupinu á 3.46 sem ég var mjög ánægður með þegar tekið var mið af öllum aðstæðum. Þá var þessum ævintýri lokið. 429 km að baki á 7 dögum. Þessi vika verður ógleymanleg fyrir margra hluta sakir. Fyrir utan allt annað var ég mjög ánægður með hvernig skrokkurinn hélt. Engar blöðrur, ekkert skafsár, ekkert nudd, engin naglaeymsli. Engin eymsli í liðamótum eða vöðvum. Aðeins smá bólga aftan á hægri hésbótinni. Alltaf ánægja og tilhlökkun. Aldrei streð eða leiði. Það er langur vegur frá því að maður hélt að það tilheyrði að koma í mark á maraþoni með bláar og lausar neglur, blöðrur og skafsár. Svona lærast hlutirnir. Ég keyrði síðan suður á laugardagskvöldið því önnur verkefni biðu.
sunnudagur, júlí 12, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju, Gunnlaugur minn, með ótrúlegt afrek, sem framkvæmt var af góðum hug, svo aðrir megi njóta.
Kær kveðja,
Bryndís (og Úlfar)
Skrifa ummæli