Ég hef verið að lesa að undanförnu þrjár bækur sem hafa verið gefnar út um hrun efnahagskerfisins hérlendis. Þær eru "Íslenska efnahagsundrið, flugeldahagfræði fyrir byrjendur", "Sofandi að feigðarósi" (sem á náttúrulega að heita "Flotið sofandi að feigðarósi") og "Hrunið". Í umræðunni hafa tvær fyrrnefndu bækurnar verið gagnrýndar nokkuð, m.a. fyrir efnisleg lausatök og að hafa persónugert umræðuna nokkuð. Hin síðasta hefur á hinn bóginn fengið nokkuð almennt góða dóma. Mitt mat er að "Hrunið" sé sísta bókin af þessum þremur ef maður leggur mat á hvað þær hafa fram að færa hvað varðar greiningu á orsökum og aðdraganda hrunsins. "Hrunið" fjallar á áferðafallegan og látlausan hátt um atburðarásina eins og hún kemur höfundi fyrir en dregur ekki ályktanir né leitar að orsökum atburðarrásarinnar. Sagnfræðilega er frásögnin vafalaust ágæt og gæti hentað vel sem eitt bindi í seríunni Öldin okkar. Manni finnst að höfundur Hrunsins gæti hafa sett atburðarásina í eftirfarandi sagnfræðilegt samhengi: "Aflabrögð voru með ágætum í september." "Bankakerfið á Íslandi hrundi allt í byrjun október". "Það vetraði snemma og bændur þurftu að taka sauðfé óvenju snemma á hús". "FH vann Fram í fyrstu umferð íslandsmótsins í handknattleik".
Hinar tvær fyrri bækur gera heiðarlega tilraun til að greina orsakasamhengi og hvernig atburðarásins varð eins og raun bar vitni. Hvað var gert og hvað var ekki gert sem hefði getað breytt þeirri hrikalegu atburðarás sem landsmenn stóðu frammi fyrir á síðasta ári? Hverjir svikust undan merkjum? Hverjir fóru yfir strikið og þannig mætti áfram telja. Að mínu mati er þannig greining miklu verðmætari en áferðarfalleg lýsing aá atburðarásinni án þess að samhengi hlutanna sé dregið fram.
Viðtalið við bankastjóra Íslandsbanka í helgarblaði DV er dálítið sérstakt. Hvernig getur einstaklingur sem er í insta hring framkvæmdastjóra eins banka verið slegin slíktri blindu að hún hafi ekki haft hugmynd um stöðu bankans. Í nýútkominni bók er sagt að Glitnir hafi verið orðinn handónýtur strax á árinu 2007. Ef það sé rétt að bankastjórinn hafi ekki haft hugmynd um stöðu bankans þá eru lílega tvær ástæður fyrir því. Henni hafi verið haldið fyrir utan alla ákvarðanatöku á æðstu stigum og þar af leiðandi ekki borið þá ábyrgð sem staða hennar bauð upp á eða að hún hafi ekki kunnað að lesa út hagtölum bankans. Hvorugt er gott.
Mér finnst síðan óþarfi hjá henni að gera bændastéttina í heild sinni að holdgerfingum bankahrunsins eins og það hefðu verið eintómir Gíslar, Eirikar og Helgar starfandi í bönkunum. Gísli, Eiríkur og Helgi stigu kannski ekki sérstaklega í vitið en þeir voru ekki þjófóttir. Þeir tóku ekki kúlulán sem voru þannig útbúin að mögulegur hagnaður féll lántakenda í hendur án þess að hann bæri neina ábyrgð. Gísli, Eiríkur og Helgi fengu ekki niðurfelld lán sem þeir voru búnir að taka þegar ótti greip um sig að það væri ekki allt sem skyldi. Þannig mætti áfram telja. Ég held að hrokafullir bankastjórar ættu ekkert að leita út fyrir raðir kolleganna þegar þeir eru að leita að holdgerfingum einfeldninnar, græðginnar, heimskunnar og glæpamennskunnar. Þar er nægum kandidötum úr að velja.
Maður veltir stundum fyrir sér hvaða kröfur eru gerðar til málfars hjá fjölmiðlafólki. Ég efast um að þær séu nokkrar. Eiður Guðnason, fyrrverandi alþingismaður heldur úti skemmtilegri síðu þar sem hann tiltekur dæmi úr daglega lífinu um hræðilegt málfar. Það er á hreinu að ef sú þróun sem nú er hafin heldur áfram í nokkra áratugi þá mun málið taka stórkostlegum breytingum. Kannski er það allt í lagi en menn verða að vera meðvitaðir um þá þróun sem er í gangi. Í gær spurði fréttamður í RÚV í viðtalis em birt var í fréttatíma hvernig eitt eða annað yrði "coverað". Ég er hræddur um að sá hinn sami hefði fengið orð í eyra fyrr á árum fyrir svona orðaval. Nú deplar varla nokkur auga.
Umræðan um atvinnulausa er með ólíkindum. Hluti þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum vill ekki vinnu sé þeim boðin hún. Er það furða ef atvinnuleysisbætur eru hærri en lægstu laun. Síðan bætast við ýmisskonar fríðindi. Ofan í kaupið er því haldið fram fullum hálsi að atvinnulausir megi sem best vinna svarta vinnu því þeir séu að reyna að bjarga sér. Grundvallaratriði í þessu er að það sé fyrir hendi hvati til fólks að leita sér að vinnu. Vitaskuld eru flestir þannig hugsandi en það á ekki við um alla. Það er þekkt í okkar nágrannalöndum að bótakerfi félagshyggjunnar er orðið svo þéttriðið að það er orðið vinnuletjandi. Staða þessara mála er metið sem alvarlegt þjóðfélagsmein í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Vinnufælni er orðin mikil og allt of margt fók leitar allra færra leiða til að komast inn í bótakerfið.
Maður skilur á stundum ekki hugsanaganginn sem ræður umræðunni. Ástæða þess getur svo sem vel verið mín megin, það má vel vera. Á fyrstu mánuðum og misserum feðraorlofsins þegar útfærsla þess var sem fáránlegust þá stóð maður í jagi og orðaskaki af því maður hélt því fram að það væri út í hött að karlar ættu alltaf að fá 80% launa sinna í feðraorlofi, sama hve há launin voru. Aðrir héldu því fram að það væri svo erfitt fyrir hálaunaða karla að lækka etthvað í launum ef þeir tæku sér feðraorlof að þeir yrðu að fá 80% launa sinna úr vösum almennings svo þeir gætu tekið þetta orlof. Þessu hélt sumt fólk statt og stöðugt fram. Þegar maður amlaði á móti þessu þá var ástæðan sögð vera sú að maður skildi ekki þarfir einstaklinga í nútíma samfélagi.
mánudagur, júlí 27, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli