Við Ingimundur tókum daginn upp úr kl. 7:00, fengum okkur morgunverð og gerðum klárt. Veðurútlitið var hið besta og enn einn heiti dagurinn virtist í uppsiglingu. Veðrið hefur verið eins og eftir pöntunarlista. Maður getur vel ímyndað sér hvernig það væri að pjakka þessa leið í rigningarkalsa og strekkingi. Við lögðum upp skömmu fyrir kl. 9:00, 8 km fyrir vestan Húnaver. Ingimundur tók morgunlegginn og fór síðan til baka að sækja bílinn. Ég gekk upp Bólstaðarhlíðarbrekkuna enda ekkert annað að gera. Ingimundur beið á kili og þar voru einnig mættir Snorri Björn og Jón hlaupafélagi hans af Króknum. Það var fínt að hafa þá sem fylgdarfélaga niður að Varmahlíð. Snorri er hafsjór af fróðleik og sagði margar sögur, bæði almennan fróðleik og eins annað sem ekki er hafandi eftir. M.a. benti hann mér á jörðina þar sem fyrsti íslenski sálmurinn er ortur um 1200. Það er sálmurinn "Heyr himnasmiður". Einnig benti hann mér á gamalt býli þar sem sendimenn úr Skagafirði lentu á fylleríi en þeir áttu að fara með undirskriftir úr Skagafirði á móti símanum skömmu eftir þar síðustu aldamót. Ekki vildi betur til en svo að þeir týndu listunum en fóru samt suður. Síðan er skráð í annála að Skagfirðingar einir landsmanna hefðu ekki mótmælt símanum með undirskriftum.
Við komum að Varmahlíð rúmlega kl. 12:00 og va rþað á áætluðum tíma. Þar beið Sigríður Björnsdóttir, bróðurdóttir Jóns frá Úthlíð, með syni sínum og vinafólki. Þau hlupu með mér austur yfir Vötnin en strákarnir tveir héldu síðan áfram út fyrir Miklabæ. Þar skildust leiðir og fínt að fá svona góða og skemmtilega fylgd. Ég hélt síðan sem leið lá inn dalinn. Ýmsir sem ég þekkti og voru á leið á Landsmót stoppuðu eða hægðu á sér og köstuðu kveðju yfir veeginn. Rétt neðst í Norðurárdalnum slóst Trausti Valdimarsson með í för og hljóp með mér út dagsskammtinn sem var upp neðstu löngu brekkuna á Öxnadalsheiðinni. Hann kom með okkur að Engimýri þar sem við gistum en fór svo á puttanum til Akureyrar og er vonandi að hann hafi komist fljótt og vel á leiðarenda. Frændfólk Jóns og vinir þeirra styrktu söfnunina myndarlega svo og Trausti og Dísa.
Við borðuðum á Engimýri og nú er lystin farin að segja heldur betur til sín. Ég hef alltaf borðað mjög vel á kvöldin en nú dugði ekkert annað en tvöfaldur vel útilátinn skammtur. Í eftirrétt borðaði ég síðan stórt grillað laxaflak sem við áttum eftir frá gærkvöldinu. Ég borða vel á morgnana og einnig yfir daginn. Banana, próteinbita, gel og síðan fæ ég mér Herbalife hristing áður en lagt er í hann á morgnana oo svo á þriggja tíma fresti. Sama er það stendur allt í botni.
Á morgun er svo síðasti leggurinn af þessu skemmtilega ævintýri. Ég heyrði í Sigurði í kvöld og hann er að hnýta síðustu lausu endana. Við hittum Eddu Heiðrúnu og hennar fólk fyrst við hlaupalok og síðan lýkur hlaupinu formlega á setningarhátíð UMFÍ annað kvöld.
Ef allt verður í standi þá verður svo skokkað maraþon á laugardaginn.
fimmtudagur, júlí 09, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Gangi (hlauptu) þér vel á lokasprettinum, það hefur ævintýri líkast að fylgjast með þér þessa daganna, auðvitað hleypur þú Maraþonið á laugardaginn!
Bestu kveðjur frá öllum,
Inga systir
Heiðurshöfðingi :-)
Það er vel fylgst með kappanum af þínum ættingjum og vinum.
Þetta frábæra framtak þitt - að vekja athygli á málefnum þeirra sem síst kvarta í þjóðfélaginu er til fyrirmyndar.
Megi allar góðar vættir fylgja þér á leiðarenda og um alla tíð.
Bestu kveðjur,
Sólveig
Skrifa ummæli