Hljóp ekkert í gærkvöldi því ég var seint fyrir vegna þess að ég var ásamt fleiri foreldrum að horfa á Jóa og félaga spila við Stjörnuna niðri í Vík. Þeir unnu öruggan sigur.
Skrapp suður í Garðabæ eftir vinnu og heilsaði upp á Dr. Ágúst frá San Francisko. Hann er farinn að vinna hér heima við HÍ og kemur af og til til landsins. Gaman að hitta góða félaga og rifja upp ánægjulegar minningar.
Það hafa orðið nokkrir eftirmálar eftir framhaldsaðalfund Framsóknarmanna í RvkS þann 2. mars sl. eins og við var að búast. Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi fjallar nokkuð um málið í ágætri grein í Fréttablaðinu í dag. Ég læt fylgja hér með bókun þá sem ég lagði fram á fundinum til að skýra málið frá mínu sjónarhorni því ég hef nokkuð verið spurður um hvers eðlis þau átök voru sem þarna fóru fram.
Bókunin er eftirfarandi:
Bókun fundarstjóra.
Aðalfundur er æðsta stofnun hvers félags. Lýðræðisleg félagsstörf byggjast á ákveðnu skipulagi og aðferðum sem bundnar eru í lögum, öðrum samþykktum eða reglum, almennum fundarsköpum og óskráðum hefðum og venjum hvers félags. Dagskrá aðalfundar er þannig yfirleitt ákveðin í lögum félaga til að tryggja að um framkvæmd hans ríki ákveðin formfesta. Því geta aldrei orðið nema smávægilegar breytingar á dagskrá aðalfundar. Ef aðalfundi tekst ekki að ljúka störfum sínum í samræmi við lögbundna dagskrá, þa er boðað til framhaldsaðalfundar til að ljúka henni. Ekki má taka önnur efni fyrir á aðalfundi til ákvörðunar sem einhverju máli skipta en þau sem boðuð hafa verið útsendri dagskrá.
Hlutverk fundarstjóra er mjög víðtækt og vald hans er mikið á fundi. Hann er æðsti maður á fundi og túlkar lög, reglur og fundarsköp á fundinum. Hann skal gæta hlutleysis á fundinum. Hann tekur við tillögum, flokkar þær og leggur þær fyrir til afgreiðslu. Hann getur vísað tillögu frá ef hún er óviðkomandi dagskrá fundarins.
Það er meginregla að réttum reglum sé nákvæmlega fylgt við framkvæmd aðalfunda og sérstaklega þegar gengið er til atkvæða enda er hér um að ræða lýðræðið í framkvæmd. Í því efni reynir bæði á beina þekkingu manna á þessum reglum, en einnig á siðferðislegt þrek og mannlegan þroska.
Á aðalfundi kjördæmissambands Framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður var gengið til kosninga á stjórn þess samkvæmt lögbundinni dagskrá eftir að fundarmönnum hafði verið tilkynnt formlega og greinilega að til kosninga yrði gengið. Dreifingu kjörseðla og söfnun þeirra önnuðust hlutlausir aðilar, starfsmenn skrifstofu flokksins. Engin mótmæli komu fram á fundinum við framkvæmd kosninganna. Enginn formlegur úrskurður hefur fallið í þar til bærum stofnunum flokksins þess efnis að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögmæt eða verið framkvæmd með svo stórkostlegum ágöllum að rétt þyki að endurtaka hana. Fyrri hluta dagskrárliðsins kosningar til stjórnar kjördæmissambandsins lauk með framkvæmd kosningar og var aðalfundi síðan frestað. Næsta verkefni fundarins var að skipa talningarmenn til talningar atkvæðaseðla. Að ógilda formlega kosningu á aðalfundi með einfaldri atkvæðagreiðslu á framhaldsaðalfundi og án þess að slíkrar atkvæðagreiðslu sé getið í fundarboði framhaldsaðalfundar er mjög alvarlegur hlutur sem gengur þvert á almenn fundarsköp og lögfesta dagskrá aðalfundar. Með slíkri ákvörðun eru allar lýðræðislegar hefðir brotnar og gengið þvert á almenn viðurkennd fundarsköp og getur undirritaður ekki staðið að slíkri misbeitingu valds.
föstudagur, mars 17, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Eg las bloggið í gær um að fara að prófa ljósið sem þú keyptir. Þú ættir að prófa að fara í Heiðmörkina að kvöldlagi, ég gafst upp í gær að hlaupa á stígunum kl 2100,sá ekki neitt Annars þá skokka ég mikið þarna uppfrá og ég rekst bara aldrei á hlaupara, ekki einu sinni á Steingrím J. VG ættu að eiga mann reglulega á stígum Heiðmarkar. Eg verð að segja það að mér fynst þú heppin að eiga ekki í neinum meiðslum eins og þú hleypur, meina fjöldi km. Eg er búinn að fást við Ilioband syndrom í feb. og nú er ég með Achilles Tendinitis sem eru ömurlegust meiðsl sem hent getur hlaupara, og mánuður í London.
ps hefur þú séð myndina North Country.
kv Jón Kr Har
Charlize leikur einstæða móður og vinnuþjarkinn, Josey Aimes sem vinnur í námu í Norður Minnisota en hún mætir mikilli andúð af hálfu karlmanna þar sem þeir telja að konur eigi ekkert með námustörf og karlmannsstörf að gera. Hún lætur ekki bjóða sér þetta og sækir rétt sinn. Og út frá því verður eitt frægasta dómsmál í réttarkerfi Bandaríkjanna tekið fyrir.
Skrifa ummæli