þriðjudagur, mars 21, 2006

Stefni að því að vinna hlaupaleysi helgarinnar upp í vikunni. Fór út í gærmorgun fyrir vinnu og náði 8 km. Fór svo 12 km í gærkvöldi. Með þessu áframhaldi verð ég búinn að ná þokkalegri viðbót við það sem áætlað var. Reikna með að hvíla á föstudaginn.

Sænski utanríkisráðherrann Laila Freivalds sagði af sér í morgun. Það er í annað skiptið sem hún verður að segja af sér ráðherradómi en árið 2000 þurfti hún að segja af sér sem dómsmálaráðherra vegna húsnæðisbrasks. Nú var málið það að í febrúar gaf hún ordrur til nánasta samstarfsmanns síns um að hafa samband við netfyrirtæki sem hýsti vefsíðu Sverigedemókratanna til að fá síðunni lokað en á henni voru birtar einhverjar Múhameðsteikningar. Ráðherrann gaf þannig fyrirmæli um ritskoðun á heimasíðunni. Þegar málið var síðan kannað af fjölmiðlum kom hún af fjöllum og þóttist hvergi hafa komið nálægt því. Samt fór svo að smám saman varð öllum ljóst að hún hafði ekki sagt rétt frá málsatvikum (á íslensku heitir það að segja ósatt) og með hliðsjón af því og fyrri glappaskotum í starfi var ekki annað fyrir hana að gera en að segja af sér.

Vefsíður eru opinberir fjölmiðlar. Það þykir sem sagt töluvert alvarlegt mál í Svíþjóð þegar stjórnmálamenn beita áhrifum sínum til að hefta tjáningarfrelsi með því að ritskoða opinberar vefsíður.

Það er ágætt að hafa þetta í huga í tengslum við umræðu um beitingu ritskoðunar á vefsíðu Framsóknarfélaganna í Reykjavík þegar öðrum borgarfulltrúa flokksins var nýverið meinað að birta grein undir nafni á síðunni með þeim rökum að greinin skaðaði hagsmuni annarra stjórnmálamanna innan flokksins.
Sem betur fer eru til aðrir fjölmiðlar í landinu.

Talandi um opinbera starfsmenn og fjölmiðla. Sendiherrann í Danmörku Svavar Gestsson skrifaði ádrepugrein til danskra fjölmiðla varðandi umfjöllun þeirra um íslensk fjármálafyrirtæki? Hvað meinar sendiherrann? Hvaða tilgangi þjóna skrif hans? Er hann að leiðrétta missagnir? Ætlar hann að reyna að beita áhrifum sínum til að taka upp ritskoðun á dönskum fjölmiðlum? Eru fjármálafyrirtækin virkilega ekki nægilega öflug til að bera hönd fyrir höfuð sér ef talið er að á þau sé hallað í almennri fjölmiðlaumræðu? Spyr sá sem ekki veit en eitt er ljóst í mínum huga að sendiherrann á ekki að koma nálægt slíkri umræðu. Síðan má segja að öðruvísi mér áður brá og einhvern tíma hefði það verið saga til næsta bæjar að nefndur SG væri farinn að spila vörn hjá stórfínansinum á Íslandi.

Talandi enn um opinbera starfsmenn. Sá í blöðunum að löggan í Skaftafellssýslu hefði verið kölluð út vegna útlendinga sem fréttir hermdu að hefðu reynt að selja býantsteikningar á bæjum í V - Skaftafellssýslu. Grunur lék á að þetta væru pólskir ferðamenn sem ekki hefðu verslunarleyfi. Hefur löggan fyrir austan virkilega ekki annað að gera en að reyna að koma höndum yfir einhverja útlenska blýantsteikningasölumenn? Samkvæmt síðustu fréttum hafa teiknararnir ekki fundist enn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Blýantsteiknarar hafa víst farið eins og eldur um sinu í Evrópu og valdið miklum usla, t.d. í Rúr-héraði þar sem bóndi einn keypti teikningu í óðagoti og liggur nú milli heims og helju.

Halli