Veðrið að undanförnu hefur verið gott til hlaupa en samt sem áður finnst mér ekkert voðalega spennandi að skokka með fram götum bæjarins. Enda þótt ég hlaupi yfirleitt seint á kvöldiní miðri viku þegar umferðin er verulega minni en um hádaginn þá sér maður engu að síður rykskýin þyrlast upp af götunni þegar bílar keyra hjá. Maður talar ekki um ósköpin yfir hádaginn. Það er ekkert voðalega spennandi að sjúga gúmmí-og malbiks rykið niður í öndunarfærin. Það er ekki laust við að maður vorkenni því fólki sem býr t.d. í blokkunum sem standa næst við Kringlumýrarbrautina þar sem umferðin rennur áfram í stríðum straum dag út og dag inn með rykskýið á eftir sér. Þegar svifrykmengunin fer yfir hættumörk flesta daga þegar verður er stillt á veturna þá er eitthvað öðruvísi en á að vera.
Svifryksmengun fer yfir hættumörk. Hvað þýðir það? Þýðir það að einhverjir verða fyrir skaða? Er t.d. hættulegt fyrir ungabörn að vera í kerru eða gangandi á gangstéttum við hliðina á mestu umferðaræðunum? Börnin eru það lág að þau anda í rykmekkinum á meðan þeir sem hærri eru finna ekki eins fyrir þessu. Mér finnst full ástæða til að veita þessu meiri athygli. Eins og veturnir hafa verið undanfarin ár þegar varla kemur snjókorn hér í Reykjavík heilu veturna þá slitna götur eðlilega mjög mikið vegna nagladekkjana. Bílarnir eru staðreynd og það þýðir ekki að tala um að fækka þeim. Því verður að bregðast við þessum ófögnuði sem rykið er með einhverjum hætti, þó ekki væri nema þrífa göturnar af og til yfir veturinn.
Skrappp í gær til Sandgerðis og Reykjanesbæjar. Það er gaman að kíkja í heimsókn til nágrannasveitarfélaganna og heyra í þeim hljóðið. Margt gott er að gerast á þessum slóðum enda þótt alltaf sé brekku að finna.
Nú er vetrarfrí í grunnskólum. Ég hef stundum velt fyrir mér tilgangi þess. Það eru góð jólafrí og páskafrí og síðan er sett á sérstakt vetrarfrí. Það er ekki sérstaklega auðvelt fyrir marga foreldra að taka sér frí og gera eitthvað með krökkunum um miðjan veturinn hvernig sem á stendur. Sumar stéttir eiga rétt á vetrarfríi en aðrar ekki. Þar sem krakkarnir á heimilinu eru á mismunandi skólastigum er í fleiri horn að líta en bara til þeirra sem eru í grunnskóla.
Stjórnaði framhaldsaðalfundi í Kjördæmissambandi Framsóknarmanna í Reykjavík suður í gærkvöldi. Lagði fram bókun, sagði af mér fundarstjórastörfum og gekk af fundi þegar sýnt var að meirihluti fundarmanna var ekki á þeim buxunum að virða fundarsköp og viðurkenndar fundarreglur og hafði lagt fram vantrauststillögu á fundarstjóra.
Jói og félagar spiluðu við HK 2 í gærkvöldi í Víkinni. Þeir unnu góðan sigur og spiluðu fínan handbolta.
föstudagur, mars 03, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það er ekki vetrarfrí í öllum grunnskólum borgarinnar. Í Austurbæjarskóla skemmta eldri nemendur þeim yngri (og sjálfum sér) á Öskudag. Síðan var sett landsmet í knúsi - sem ég held að einingis Blaðið hafi séð ástæðu til að mynda og ræða. 600 nemenda knús. Hugmynd einhverra nemenda. Ólíkt er hafst að.
Skrifa ummæli