Enn eitt "Ekki benda á mig" viðtalið var í kastljósinu í kvöld. Formaður Fjármálaeftirlitsins og varaformaður bankaráðs Seðlabankans var tekinn tali. Hrun bankanna og hin gríðarlegu efnahagslegu áföll sem íslenskt þjóðfélag hefur orðið fyrir er allt saman utanaðkomandi efnahagslegu Tsunami að kenna. Það kom efnahagsleg flóðbylgja og færi allt í kaf. Að vísu höfðu innlendir algerlega vanrækt að byggja varnargarða þrátt fyrir að menn vissu að Tsunami gæti komið. Þeir höfðu meir að segja fært byggðina í stórum stíl niður í flæðarmál þar sem ljóst var að allt færi á kaf ef færi saman háflóð og hafátt. Viðvörunarkerfið hafði ekki verið yfirfarið árum saman og varðmennirnir voru allir sofandi eða í kaffi. Engu að síður fullyrða þeir sem bera ábyrgð á skipulagsmálum, eftirlitinu, öryggismálum og öðru því sem varðar málið að skaðinn sé einvörðungu flóðbylgjunni að kenna.
Hrafna Flóki missti allt búfé sitt hér í denn tíð vegna þess að hann notaði ekki sumarið til að heyja. Skömmu eftir landnám var búfjáreftirlit sett á fót til að fylgjast með heyforða hjá bændum. Ef forðinn var ekki nógur þá var gengið í málið og reynt að tryggja að allir gætu komið skepnum á græn grös. Ef eftirlitsmennirnir mega ekki segja frá yfirvofandi vandræðum þá er eins gott að leggja eftirlitið niður.
Til er fag sem heitir áhættustjórnun. Eftir ákveðnu kerfi er reiknað út hve miklar líkur sé á að ákveðið áfall gerist og hvað það kosti að setja upp mismunandi varnir fyrir því að áfallið gerist ekki. Hvað kosta varnirnar og hver getur skaðinn orðið af áfallinu? Varnirnar mega ekki vera dýrari en skaðinn sem getur orðið. Það getur borgað sig að taka einhevrja áhættu en hvað má hún vera mikil? Þetta er allt stillt saman undir samheitinu áhættustjórnun. Skyldu Seðlabankamenn aldrei hafa heyrt um þetta, að maður tali nú ekki um ríkisstjórnina.
Neil hjólar á fullu í Mexíkó. Tuttugu keppnendur byrjuðu á fullu kl. 9.00 á laugardagsmorgun að þarlendum tíma (svona kl. 3 síðdegis að okkar tíma). Átján karlar og tvær konur. Neil er sem stendur í 7. sæti og er búinn með 921 km á hjólinu. Þá er hann rétt hálfnaður. Svíinn Martens er fremstur með 1160 km. Hringurinn sem er hjólaður er 1900 metrar að lengd.
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli