Það er orðið þannig síðustu daga og vikur að maður bíður eiginlega eftir því hvaða skandalar koma upp á yfirborðið hvern dag. Nú syngja smáfuglarnir eins og á vordegi. Að menn skuli láta sér yfir höfuð detta í hug að verja þann gjörning stjórnar Kaupþings að létta af skuldum og ábyrgðum forystumanna bankans sem höfðu tekið lán til hlutabréfakaupa. Það voru ekki neinar smáupphæðir því manni sýndist að það væri varla nokkur maður sem hefði lánað minna en hálfan til einn milljarð og þaðan af meira. Engin áhætta heldur einungis ágóðinn hirtur. Það var dapurlegt að sjá formann VR að reyna að verja stöðu sína og ákvarðanir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Auðvitað er þetta siðfræðileg staða sem gengur ekki upp að forystumaður launþegasamtaka sitji báðum megin við borðið. Íslendingar hafa hins vegar aldrei verið voðalega uppteknir að því sem heitir hagsmunaárekstrar. Margir skilja yfir höfuð ekki við hvað er átt þegar þetta orð kemur upp á yfirborðið.
Eftir því sem maður fréttir meir þá sannfærist maður um að í bönkunum hafi verið á ferli harðsvíraðir glæpamenn sem hafi einskist svifist. Ég heyrði tvær sögur í dag sem ég veit að eru sannar.
Maður sem átti einhvern pening lét Landsbankann forvalta þá fyrir sig. Kunningi hans sá fyrir nokkrum misserum að honum var boðið í ferð til Ítalíu á vegum Landsbankans. Hann var heldur hissa á því þar sem hann vissi ekki til að hann væri svo stór viðskiptaaðili. Nýlega hittust þeir og þá sagði Ítalíufarinn kunningja sínum að hann væri gjaldþrota. Eftir Ítalíuferðina byrjaði Landsbankinn í Luxemborg að hafa samband við hann og útmála hvað það væru miklir hagnaðarmöguleikar í því að taka erlent lán (ca 200 milljónir) og láta Landsbankann í Luxemborg fjárfesta fyrir sig. Hann freistaðist loks til þess og skrifaði sig fyrir 200 milljóna láni. Landsbankinn í Luxemborg keypti skuldabréf af Landsbankanum á Íslandi fyrir peninginn og flutti þannig fjármagnið heim til móðurbankans. Við hrunið þurrkaðist allt út og nú situr Ítalíufarinn uppi með 200 milljóna skuld um hálsinn sem hann ræður ekkert við. Auðvitað má segja að hann beri sjálfur ábyrgðina en söm er gjörð bankans. Landsbankinn þurfti nauðsynlega að flytja peninga heim til móðurbankans. Það var ekki hægt að flytja þá frá útibúi til aðalbanka á annan hátt en að gabba auðtrúa einstaklinga til að taka lán. Þetta er einfaldlega næsti bær við Nígeríubréfin.
Annar sagði mér frá kunningja sínum sem hafði selt eign fyrir dálítinn pening. Hann lagði andvirði sölunnar inn á venjulegan bankareikning. Innan tíðar byrjuðu bankamenn Landsbankans að hringja í hann og útmála möguleikana sem færu fólgnir í því að fjárfesta fyrir peninginn. Að sveitamanna sið vildi hann ekki hætta öllu en samþykkti loks að láta bankann fjárfesta fyrir um 20% af heildarfjárhæðinni. Hver einasta króna af því er fokin. Þarna brýtur bankinn allar siðareglur banka með því að þeir sem annast innlánsreikninga láta það berast til fjárfestingardeildar bankans að þarna sé á ferðinni feit bankabók. Hvar eru eldveggirnir sem manni var kennt í verðbréfanáminu að væru skotheldir. Auðvitað er það bara blekking.
Ríkissjóður greiddi óbeint stærstan hluta af peiningamarkaðsbréfunum eða um 200 milljarða með því að leggja bönkunum til eigið fé. Það er fjárhæð sem er jafnhá og það kostaði að virkja við Kárahnjúka og byggja álverið í Reyðarfirði. Þetta eru engir smápeningar. Ég set spurningarmerki við þessa aðferðafræði að ríkisbankarnir taki þetta svona lóðbeint yfir og ráðstafi yfir helmingi af eigin fé í þennan gjörning. Hvað með þá sem eiga peningamarkaðsbréf í þeim bönkum sem ekki hafa verið þjóðnýttir. Eigum þeir von á sömu reddingum? Þetta er svona um 670 þúsund kall á hvern einstakling í landinu.
Ég get ekki ímyndað mér annað en að það verði að hreinsa almennt út úr bönkunum. Hvernig á maður að geta treyst neinum einasta af þeim sem réðu ferðinni á gamla skipinu eftir þær fréttir sem hafa borist út á götu síðustu daga og vikur.
Mér fannst ekki hátt risið á kvörtunum þingmanna í þingræðum í gær. Þeir hafa skapað sér þetta sjálfir með því að þegja og hlýða gegnum árin. Ef þeir hafa ekki hlýtt þá hafa þeir verið settir á frost. Nefna má Ólaf Örn Framsóknarþingmwnn sem dæmi. Hann var gagnrýninn á sumt í verkum stjórnarinnar á sínum tíma. Hann var hraðfrystur á stundinni og hent fyrir borð eins fljótt og hægt var. Ég skil síðan ekki af hverju þeir tóku afgreiðslufólk til viðmiðunar sem lægstu mögulega viðmiðun. Mér finnst afgreiðslufólk ekki eiga það skilið. Afgreiðslufólk vinnur verk sín yfirleitt vel og samviskulega.
Víkingur gerði jafntefli við Stjörnuna í kvöld. Fyrsta stigið í hús. Reynsluleysi kostaði þá sigurinn.
föstudagur, nóvember 07, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli