Hitti Vini Gullu í morgun og fórum vestur á Eiðistorg með smá viðkomu á hafnarsvæðinu. Þar standa auðir grunnar og hálfbyggð hús eins og víðar. Tók síðasta afleggjarann með Orwell. Hann lét vel af endurskipulögðu mataræði. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig því vindur fram.
Eivör Pálsdóttir er á einhverju allt öðru plani en maður sér svona dagsdaglega. Þátturinn í gærkvöldi þar sem spjallað var við hana var mjög áhugaverður. Hún er bæði jarðbundin en fer svo með himinskautum í söngnum. Það er magnað hjá þenni hvað hún leggur mikla áherslu á bakgrunninn. Syngur á færeysku, semur ljóð til landsins og byggir músikina á gömlum færeyskum rótum. Lagið um systur hennar er eitt af þessum lögum sem manni finnst að hafi aldrei verið samin heldur hafi alltaf verið til. Það er einstaka lag sem manni finnst vera svona. Lagið "Turistens klagan" með Cornelius Wreesvik er líka í þessum dúr.
Eyvör notaði trommu til að ljá lögum sínum sérstaka stemmingu. Hún gerði það listilega vel. Ég sá um daginn lag á You Tube þar sem kona sló á trommu í hljómsveit. Það var lagið "Woman is the nigger of the world" eftir John Lennon. John samdi lag og texta, spilaði á gítar í hljómsveitinni og söng. Yoko Ono spilaði á bongotrommu í laginu og var í álíka klassa og barn sem er búið að læra að slá takt svona í mánuð. Dunk ----- dunk dunk; dunk ----- dunkdunk. Mér fannst þetta myndband vera dæmigert fyrir þau skötuhjú sem listafólk. John var allt í öllu en hún ekki neitt. Það eina sem hefur haldið nafni hennar á lofti er að hún var gift John Lennon. Hún kemur hingað og blaðrar um áhrifamátt þess að reisa vasaljós upp á endann til að koma á friði í heiminum. Það kann enginn við að segja að þetta sé bara blaður heldur kóa allir málsmetandi með. Við borgum vasaljósið og rafmagnið sem kostar að kynda það. Ef svona ljóskastari er nothæfur til að auka friðarlíkur í heiminum þá á vitaskuld að setja hann á fjölfarinn stað þar sem eitthvað af fólki á leið um en ekki þar sem enginn sér hann. Trafalagar Square eða Hide Park, að maður tali nú ekki um Torg hins himneska friðar. Viðey, godbevares!! Af hverju segir enginn að þessi affera öll sé bara vitleysa.
Mér fannst tvennt athyglisvert koma fram í Silfri Egils í dag. Annars vegar fannst mér athyglisvert sem Sigrún Elsa var að ræða um. Ef verðbólga fer í 50% í hálft ár vegna þess að gengið snarfellur tímabundið og en lækka rsíðan mikið þegar gengið hækkar aftur þa hefur það þau áhrif að öll verðtryggð lán hækka um á.m.k. 25% og eru þar áfram. Þetta er svakaleg eignaupptaka sem á sér stak vegna þess. Af hverju eiga forkólar lífeyrissjóðanna að hafa leyfi til að stunda áhættufjárfestignar með lífeyrissjóðina og tapa hundruðum milljarða á því en þurfa síðan að hafa allt á hreinu gagnvart því fólki sem tekur lán hjá þeim. Það eru mjög absúrd tímar nú og þá geta menn þurft að nota handstýrið til að sigla sem áfalla innst fyrir sem flesta út úr briminu.
Gunnar Smári sagði margt athyglisvert. Ég tek undir það að það þarf útskýringar við að ríkisvaldið skjóti 11 milljörðum sérstaklega inn í Sjóð 9 hjá Glitni. Það þarf einnig sérstakrar útskýringar við að ríkissjóður leggi 200 milljarða í að gera upp peningamarkaðsbréf í bönkunum. Þessir 200 milljarðar eru teknir af láni af ríkinu. Almenningur þarf að borga þessi lán með sköttum. Þessir peningar eru ekki notaðir í annað á meðan.
Gunnar Smári sagði einnig að strax í fyrra hefði verið nær ómögulegt fyrir bankana að fá lán og erfitt fyrir ríkið. Þótt hann sé svo sem ekki nein véfrétt þá veit hann eitt og annað. Við þessar aðstæður fóru bankarnir að ná sér í lausafé með yfirboðum á m.a. Icesave reikningum. Slík aðferðafræði gat ekki endað nema með ósköpum.
Nú er búið að samþykkja 600 miljarða lántöku ríkissjóðs vegna Icesave reikninganna. Niðurstaðan gat aldrei orðið önnur. Þó niðurstaðan sé bitur var hún óumflýjanleg. Maður getur ímyndað sér hvað hefur gengið á þegar öll EU ríkin hömuðust á Íslandi. Íslenska ríkið getur ekki hagað sér eins og ómerkilegur kennitöluflakkari og sagt, við borgum bara útvöldum en ekki öðrum. Það er ekki flóknara en þetta. Þetta game allt hefur valdið Íslandi og íslendingum ómældum skaða um heim allann. Við höfum verið úthrópaðir sem ómerkingar sem ekki sé hægt að nálgast í viðskiptum. Slíkan stimpil er ekki auðvelt að þvo af sér.
sunnudagur, nóvember 16, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli