Eru þingmenn fyrst nú að átta sig á hvað hin gríðarlega lántaka ríkisins þýðir inn í framtíðina? Ég sá að einn þeirra talaði í dag um þá byrði sem verið er að leggja á þjóðina sem eitthvað alveg nýuppgötvað. Þetta er mjög einfalt. 4% vextir af 1000 milljörðum er 40 milljarðar á ári. Ef 1000 milljarðar eru greiddir niður á 20 árum þá eru það 50 milljarðar á ári. Samtals eru því afborganir og vextir 90 milljarðar á ári. Hvað kemur til baka vegna eignasölu bankanna er alsendis óljóst. Ég þekki vitaskuld ekki allar forsendur nákvæmlega en það er hægt að átta sig á hlutunum á þennan hátt. Það er rétt að búast við því versta því hið góða sakar ekki. Heildartekjur sveitarfélaganna í landinu í fyrra voru um 170 milljarðar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 sem lagt var fram í septemberlok voru tekjur ríkisins áætlaðar 450 milljarðar en útgjöld 507 milljarðar. Ef gert er ráð fyrir 10% samdrætti í tekjum ríkisins á næsta ári frá því sem ætlað var í septemberlok vegna aukins atvinnuleysis, minni tekna af fjármagnstekjuskatti, veltusköttum og staðgreiðslu þá færu þær niður í ca 400 milljarða. Gefin hefur verið út lína um 10% niðurskurð hjá ríkisstofnunum frá fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Segjum að það takist og útgjöld ríkisins verði 450 milljarðar. Þannig er hægt að sjá hvílík gríðarleg byrði leggst á landsmenn vegna hinnar miklu skuldaaukningar. Gert er ráð fyrir að afborganir hefjist ekki fyrr en eftir nokkur ár og þá verði efnahagslífið vonandi farið að rísa úr öldudalnum. Sama er, það er hægt að setja þessar stærðir í samhengi við aðrar stærðir í þjóðarbúskapnum á þennan hátt í grófum dráttum. Fyrir höndum eru skattahækkanir og mikill niðurskurður á ríkisútgjöldum.
Það er tvennt sem mér finnst skipta meginmáli í stöðunni eins og hún er í dag. Í fyrtsa lagi skiptir gríðarlegu máli hvernig haldið verður á málum í Seðlabankanum. Mun lánið frá AGS brenna upp í veikburða tilraun til að halda uppi gengi krónunnar og hún muni svo sökkva þegar það er búið. Á árunum frá 1991 til 1995 féll rússneska rúblan úr 30 rúblum á móti dollar í 5500 rúblur á móti dollar bara svona sem dæmi. Í öðru lagi verður að tryggja að fyrirtækin séu ekki afhent vildarvinum bankaklíknanna á spottprís en skuldirnar skildar eftir á herðum þjóðarinnar. Ég verð að segja að maður treystir engu og engum eins og staðan er í dag.
GIFT heitir eignarhaldsfélag sem fór með eignir Samvinnutrygginga sem einu sinni var til. Í fyrra var skipuð skilanefnd yfir þeim 30 milljörðum sem voru til í sjóðum félagsins samkvæmt fréttum í fjölmiðlum. Það er ósköp einfaldlega hægt að Googla Samvinnutryggingar eða GIFT og þá koma upp fréttir um málið. Þessum fjármunum átti að skila til fyrrum viðskiptavina félagsins samkvæmt ákveðnum reglum. Í dag eru þessir peningar allir búnir, farnir. Þrjátíu milljarðar. Common. Hvaða snillingar tapa þrjátíu milljörðum sem búið er að setja í skilanefnd? Staðreyndir eru að þrátt fyrir að það hafi verið búið að setja skilanefnd yfir þessa fjármuni þá var engu að síður haldið áfram að höndla með þá og einhvern veginn tókst svo óhönduglega til að það tapaðist allt. Maður hefur heyrt að þessi sjóður hafi verið notaður til að kaupa hlutabréf ákveðinna aðila í verðlausum fyrirtækjum. Hvar er réttarríkið? Eiga hlutaðeigandi bara að komast upp með að segja ekki neitt, ekki einu sinni því miður, ekki má persónugera vandann í þessu frekar en á öðrum sviðum heldur bara taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti? Maður spyr.
Neil er kominn í 6. sæti í Mexíkó. Keppendur eru búnir að vera að í 199 klst og 30 mín. Sá ssem lengst er kominn er Heinig frá Þýskalandi. Hann er búinn með 388 km og á því 34 km eftir!!! Það eru allir búnir að hjóla. Neil er búinn að fara 237 km af þeim 422 km sem hann verður að leggja undir fót. Hann hleypur nú tvo hringi og gengur einn. Síðasta hringinn fór hann á 16.30 mín. Hringurinn er 1900 metrar. Hann hefur þetta vonandi úr þessu með skynsemi og þrautseigju enda þótt þetta sé erfitt. Maður vonar það bara að hann bíði ekki skaða af þessum ósköpum.
mánudagur, nóvember 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli