laugardagur, nóvember 22, 2008

Ég var á smá ráðstefnu í dag á vegum Húmanistahreyfingarinnar. Pétur Guðjónsson, sá mæti maður, hringdi í mig fyrir skömmu og bað mig að taka þátt í umræðum eftir framsöguerindi. Umræðuefnið var bæði veraldlegt og huglægt. Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur, fluttu framsöguerindi. Það er svolítið tímanna tákn að Árni talaði um mjúka og huglæga hluti en Lilja um harða greiningu á stöðu mála í þjóðfélaginu í dag. Ég var sammála henni að flestu leyti nema að ég er ekki jafnsannfærður og hún að lánveiting AGS (Alþjóðagjaldeyrissjósðins)sé albölvuð. Ég held að það hefði enginn lánað okkur fjármuni nema að því fylgdu ákveðin skilyrði um aðhald, sparnað og aðgerðir í efnahagsmálum. Ef maður tekur sveitarfélag sem dæmi sem er búinn að spila rassinn úr buxunum með aðgerðum og aðgerðaleysi þá er engin von til að það fengi fyrirgreiðslu og lán nema að tryggt væri að það yrðu alger umskipti í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Enda þótt það héti svo í orði kveðnu að sveitarstjórnin færi áfram með stjórnina þá hefði hún ekki heimild ti að taka neina einustu ákvörðum um ráðstöfun fjármuna umfram það sem væri bundið í kjarasamningum og öðrum samningum nema með vilja og vitund þeirra sem veittu þeim fyrirgreiðslu. Þannig eru nú bara. Það hefur einu sinni gerst á Íslandi að sveitarfélagi hefur verið settur tilsjónarmaður og sveitarstjórn sett til hliðar. Það er ekki gert nema að ljóst þyki að sveitarstjórn sé ófær um að taka á fyrirliggjandi viðfangsefnum.

Mér fannst eitt allrar athygli vert sem Lilja sagði í dag. Hún hélt því fram að það hefði hlaupið samskonar ofvöxtur í háskólana hérlendis eins og í bankana. Það vill segja að með fjölgun háskóla umfram getu er verið að gengisfella orðið háskólamenntun. Umræðan hefur oft verið þannig að það eigi að setja upp háskóla út um allt. Það segir sig sjálft að það gengur ekki. Með fullri virðingu fyrir mínu gamla heimahéraði Vestfjörðum þá sé ég ekki hvernig 7000 manns á að vera nægilega stórt upptökusvæði fyrir háskóla. Því fólki sem gengur í svokallaðan háskóla sem stendur ekki undir nafni er nefnilega enginn greiði gerður. Ég var aldrei sammála þeirri stefnu að fara að setja upp háskólakennslu í öllum mögulegum og ómögulegum greinum hérlendis. Við höfum ekki möguleika á að byggja upp nægilega öfluga kennslu í öllum þeim háskólagreinum sem menn hafa verið að káka í. Það er miklu gæfulegra að halda sig við ákveðinn grunn en semja við erlenda háskóla að áhugasamir nemendur geti stunda nám í þeim greinum erlendis sem við ráðum ekki við. Í annan stað hef ég alltaf fengið hroll þegar íslenskar stofnanir er að stilla sér upp í huganum við hlið hinna bestu í heiminum. Háskóli Íslands á að komast í hóp 100 bestu háskóla í heiminum. Það er hreint út sagt fáránleg stefnumótun. Hvað hafa margir vísindamenn við íslenskan háskóla verið orðaðir við Nóbelsverðlunin? Hve margir þeirra eru virkir þátttakendur í aljóðavísindasamfélaginu? Hver er hlutdeild vísindamanna við HÍ í skrifum í þekkt og viðurkennd vísindatímarit? O.s.frv. o.s.frv. Það er ágætt að hafa Brekkukotsannál í huga af og til.

Það var athyglisverð grein í Mogganum í dag. Agnes Bragadóttir hefur fengið sent afrit af lánabók Glitnis. Það er ljóst að það eru einhverjir þar innan dyra sem vilja koma af stað umræðu um stefnu bankans og vinnubrögð hans undanfarið. Agnes kemst að þeirri niðurstöðu að Glitnir hafi miskunnarlaust verið misnotaður til að kaupa hlutabréf í FL group til að halda uppi verði hlutabréfa í félaginu. Þetta er saknæmt í meira lagi ef rétt reynist. Í fyrsta lagi er Glitnir almenningshlutafélag og einn hluthafi á ekki að nota stöðu sína í félaginu sjálfum sér til hagsbóta umfram aðra. Í öðru lagi er það saknæmt að vera að manipúlera með markaðinn. Hann grundvallast á því að allir hafi sömu vitneskju. Með því að falsa gengi bréfa í fyrirtæki með tilbúinni eftirspurn er verið að senda röng skilaboð út á markaðinn og blöffa hugsanlega kaupendur. Staðhæfingum Agnesar hefur þegar verið mótmælt harkalega. Það er ekki óvænt. Vonandi þróast þetta mál þannig að fram fari alvöru skoðun á málinu sem geti leitt hið rétta í ljós.

Neil er byrjaður að hlaupa í Mexíco og búinn með sund (38 km) og hjólreiðar (1800 km). Sundið er fljótgert eða ca 10 klst. Hjólreiðarnar taka ca 6 daga. Eftir eru 422 km hlaup. Það tekur svona 5 - 6 daga. Nóg er að taka það eingöngu en eftir það sem á undan er gengið ætti það að vera meir en nóg fyrir flesta. Neil sagðist vera hræddastur við hjólreiðarnar en ef hann kæmist í gegum þær þá myndi hann komast alla leið enda þótt hann þyrfti að skríða. Neil er búinn með maraþon (á níu eftir). Martens hinn sænski er búinn með rúma 170 km og er nær 20 km á undan næsta manni. Sjötugur maður kláraði fimmfaldan Ironman í gær en það einnig keppt í þeirri þolraun. Það er sem sagt ekki of seint að byrja. Slóðin er www.multisport.com.mx

Við Jói, Stebbi og Biggi fórum góðan túr í morgun. Spáin var ekki góð en þegar á hólminn var komið var þetta allt í lagi. Smá vindur en ekki til skaða. Smá úrkoma en ekki til skaða.

María var að keppa á Silfurmóti ÍR í dag. Hún er á yngra ári í 15-16 ára meyja flokki. Hún komst á pall í öllum greinum sem hún keppti í nema í 60 m. hlaupi. Þar varð hún fjórða.

Engin ummæli: