Það er vel þekkt syndrom hjá óráðsíufólki í fjármálum að þegar reynt er að koma vitinu fyrir það þá skilur það ekki neitt í neinu og telur sjálfu sér trú um að allt verði í lagi bara að það fái eitt lánið í viðbót. Íslendingar eru búnir að halda uppi fölskum kaupmætti árum saman með lánsfé. Gaurarnir sem tóku lánin og dældu þeim inn í samfélagið voru hafnir í guðatölu. Regluverðirnir stigu hrunadansinn í ákafa og neituðu að horfast í augu við það að fyrirsjáanlegt var að veisluföngin voru að vera búin. Loks tóku lánveitendur í taumana og sögðu hingað og ekki lengra. Nú þarf að fara að taka til í óráðsíunni. Þá verða menn vondir og bregðast við eins og einstaklingur sem fær láninu ekki lengur framlengt í bankanum vegna þess að allir nema hann vita að hann getur ekki borgað lánin til baka. Þá er bankastjórinn orðin að vonda kallinum en engin sök liggur hjá þeim sem ekki getur borgað til baka.
Það er þetta syndróm sem liggur að baki upphlaupi forsetans á hádegisverðarfundi með erlendum sendiherrum fyrir viku síðan. "Islands president i skandalelunsj". Það er ekki sérstaklega skemmtilegt að lesa svona fyrirsagnir í blöðunum, jafnvel þótt það sé fyrst birt í "Klassekampen" i Noregi. Fljótlega var samskonar frétt að finna víða í norrænum fjölmiðlum. "Skjelte ut Sverige og Danmark" Þarna er afneitunin í fullum gangi. Þeir eru bara skammaðir sem ekki vilja kaupa enn eitt innistæðulausa skuldabréfið. Það þýðir varla að nefna orðið víxill, það þekkir það varla nokkur maður undir fertugu. Útnesjaliðinu á Íslandi fínnst síðan fínt að forsetinn skuli bara "segja þessu liði til syndanna". Svona framkoma er náttúrulega til háborinnar skammar. Ég læt mér ekki detta í hug að norski sendiherrann hafi verið að skreyta frásögnina eða ljúga upp á forsetann. Honum hefur einfaldlega verið brugðið. Síðan kemur forsetinn í Kastljós og segist "ekki nenna að elta ólar við missagnir" Að tala er sifur, að þegja er gull.
Gylfi Zoega hagfræðingur hélt skemmtilegt erindi um alvarlegt málefni á fjármálaráðstefnunni í dag. Hann skýrði vel út orðið verðbóla. Það er verðbóla þegar við erum að kaupa eitthvað hvert af öðru og verðið hækkar án þess að nokkur verðmætaaukning sé fyrir hendi. Húsin voru seld af offorsi og alltaf hækkaði verðið. Hærra verð hafði í för með sér að menn gátu tekið meiri lán út á húsin (veðrými jókst) án þess að launin hækkuðu samsvarandi. Allt var veðsett eins og frekast vildi. Svo springur bólan. Gengi krónunnar fellur, launin lækka, verð húseigna lækkar. Það var bara loft í blöðrunni. Þetta er bara eins og hvert annað píramídakerfi. þeir sem koma fyrsti inn og fara út á réttum tíma græða. Þeir sem koma síðast inn tapa.
Þetta er "The greatest fools theory"
Gylfa tókst hið ómögulega. Hann hélt hagfræðierindi um mjög alvarlegt efni með orðavali þannig að allir skyldu og flutti mál sitt svo að salurinn lá úr hlátri með reglulegu millibili.
föstudagur, nóvember 14, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli