Hún var býsna athyglisverð ræða fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi Seðlabankastjóra á Viðskiptaráðsþingi í dag. Þarna var á ferðinni mikill hvítþvottur fyrir hönd bankans. Ekki vantaði að bankinn hefði varað við þróuninni. Það kom hins vegar fram í kvöldfréttum sjónvarps að menn höfðu annað hvort ekki skilið viðvörunarorð bankans, ekki heyrt þau eða ég veit ekki hvað. Mikill "ekki benda á mig" sirkus fór af stað eftir ræðu bankastjórans. Formaður fjármálaeftirlitsins taldi nú ekki aldeilis að hans stofnun hefði átt að fylgjast með kerfislægum vanda heldur eingöngu einstökum bönkum. Þar sem hann situr einnig í stjórn Seðlabankans þá hefur hann líklega fylgst með kerfislæga vandanum þeim megin veggjarins en ekki með einstökum bönkum. Ráðherra bankamála hafði aldrei heyrt minnst á varnaðarorð seðlabankastjóra, forsætisráðherra svolítið en aldrei heyrt að um mikinn vanda væri að ræða. Þetta væri fyrst og fremst að kenna bönkunum sjálfum.
Við getum hugsað okkur hús þar sem er geymt mikið af eldfimum efnum. Byggingareftirlitið á að sjá um að eldvarnarveggir séu í lagi. Öryggismiðstöðin á að sjá um að það sé brunavarnarkerfi í húsinu og slökkviliðið á að hafa tiltækan búnað til að geta gripið til aðgerða ef svo óheppilega skyldi fara ef kviknaði í. Svo kviknar í og það sem meira er það er kveikt í húsinu og það skíðlogar. Af því brunavarnarkefið funkerar ekki þá berast boð um brunann seint og illa. Eldvarnarveggirnir eru illa frágengnir og eldurinn fer um allt húsið. Þegar slökkviliðið kemst loks á vettvang þá virka tækin ekki og húsið brennur til grunna. Enginn þessara aðila finnur sök hjá sér og ber fyrir sig ótal aðstæðum. En um eitt eru allir sammála. Það er delinn sem kveikti í húsinu sem er orsök vandans.
Enda þótt seðlabankastjóri telji að það hafi ekki verið hlustað á hann þá má nú draga ýmislegt upp úr skjóðunni:
1. Den danske bank lagði fram skýrslu árið 2006 þar sem bent var á mikil hættumerki. Þeirri umræðu var svarað með að danir væru bara öfundsjúkir.
2. Árið 2001 var bindiskylda bankanna lækkuð án þess að neinar hliðaraðgerðir kæmu á móti. Þetta hafði í för með sér að bankarnir gátu mokað gríðarlegu magni af ódýru lánsfé inn í landið.
3. Reynt er að hemja verðbólgu sem skapast af gríðarlegu innstreymi fjár með hækkun stýrivaxta í umhverfi þegar allir sem vildu gátu tekið erlend lán og aukið þannig á undirliggjandi verðbólguþrýsting. Ég hef nefnt það áður að þetta er eins og að standa bensínið í botni með annarri löppinni og bremsuna með hinni. Ef menn eru í óvissu um afleiðingarnar þá ættu hinir sömu að prófa.
4. Í vor samþykktu Alþingi lög (60/2008) þess efnis að Seðlabankinn gæti aukið gjaldeyrisforðann með lántöku. Ekkert var gert í þeim efnum á meðan gengið var hagstætt. Stjórnvöld hrósuðu sér af því að aðgerðaleysið hefði fært þjóðfélaginu aukna hagsæld.
5. Tryggingasjóður innistæðueigenda var ekki aukinn í samræmi við gríðarlegan vöxt innlána. Ég veit ekki hver á að taka ákvörðun um það en ég held að það hljóti að falla undir kerfislægan vanda.
6. Ekkert mark er tekið á orðum Gordin Brown í fyrravetur um að allir vísar séu komnir á rautt í íslensku efnahagslífi.
7. Margir hagfræðingar voru farnir að vara við þróun mála fyrir nokkrum árum. Ekkert var hlustað á þá.
Síðan bendir hver á annann.
Það var snöggt um Guðna Ágústsson. Hann hefur vafalaust metið það svo að það væri betra að ganga út en láta henda sér út á landsfundi í janúar. Rétt hjá honum. Jón Sigurðsson tók við óviðráðanlegu verkefni að taka við flokknum af Halldóri Ásgrímssyni. Guðni tók við mjög erfiðu verkefni en hafði þó meiri tíma. Mitt mat var að Guðni hefði tvo valkosti þegar hann tók við. Annar og sá skárri var að gera hreinskilnislega upp við Halldór Ásgrímsson og reyna að fjarlægjast hann eins og hægt var. Guðni valdi verri kostinn sem var að reyna að sópa öllu undir teppið og sullast áfram. Það var fyrirsjáanleg blindgata. Það er stór spurnig hvort ára Framsóknarflokksins sé ekki orðin þannig útleikin að dagar hans séu senn taldir. Ég skil vel að Guðna sárni þegar hann fær framan í sig orðaleppa eins og að SUFarar hafni gömlum mönnum og gömlum hugmyndum eins og Bandaríkjamenn. Það er náttúrulega ekkert annað en dónaskapur að halda því fram að menn séu ónothæfir einungis aldursins vegna. Á sama hátt væri hægt að segja að SUFarar væru bara einfeldningar aldursins vegna. Slíkt dettur náttúrulega ekki nokkrum vitibornum manni í hug. Menn eiga að takast á á málefnalegum grunni en láta persónuníðið vera. Hvað gamla manninn og gömlu hugmyndirnar í Bandaríkjunum þá hefur nú annað eins gerst að yfirboðsmenn séu kosnir við miklar vinsældir en vindurinn fari fljótt úr þeim þegar til kastanna kemur. Minnumst Tony Blair í því sambandi.
Neil er byrjaður í Mexíco. Tífaldi Ironmaninn byrjaði á laugardaginn. Fyrst er hjólað. Hringurinn sem er hjólaður er um 1900 metra langur. Heildarvegalengdin er 1800 km eða nær 1000 hringir. Eftir 55 klst er Neil í 8 sæti af 20 keppendum og búinn að hjóla rúma 614 km. Hjólið tekur svona 6 sólarhringa!! Slóðin er www. multisport.com.mx
Það verður gaman að fylgjast með kappanum næstu 12 dagana eða svo!!!
Come hell and high water.
þriðjudagur, nóvember 18, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli