Nýr dagur ber alltaf eitthvað nýtt í skauti sér. Nú er maður að heyra af snillingunum í Landsbankanum í Luxemborg enn frekar. Margir enskir ellilífeyrisþegar voru að spökulera í að kaupa sér hús á Spáni. Bankasnillingarnir fullyrtu að lang snallast væri að taka þrefalt hærra lán (eða svo) heldur en húsið kostaði. Húsið var keypt fyrir 1/3 lánsins en 2/3 hlutar lánsins voru látnir í hendur snillinganna aftur. Ávöxtunin af þeim hluta áttu svo að standa undir afborgunum og vöxtum af láninu öllu. Fín mylla sem bjó til eign úr engu. Sama módel sem Glitnisbankastjórinn var að presentera. Nú eru allar spekulationir ensku ellilífeyrisþeganna sem voru fjármagnaðar með lánum horfnar út í veður og vind. Allt horfið. Ellilífeyrisþegarnir geta ekki borgað af lánunum og eru gjaldþrota. Er það von að enskir séu brjálaðir? Menn hafa kannski komist upp með að plata íslenska útnesjamenn upp úr skónum átölulaust á þennan hátt en í löndum þar sem bankageirinn þekkir hugtakið siðferði vekur svona lagað nokkra athygli. Þeir sem haga sér svona eru ekkert annað en glæpamenn og vitleysingar upp til hópa. En hinu má ekki gleyma að launakerfi bankans var á þann veg að laun ráðgjafanna hækkuðu eftir því sem þeir gátu komið úr meiri lánum. Þetta segir okkur að trúa aldrei orði sem bankastarfsmaður segir í vinnunni ef hann er að ráðleggja manni eitthvað.
Norskur hernaðarfræðilega menntaður maður kom fram í sjónvarpinu í kvöld sem sagður var vera hægri hönd forsætisráðherra í "crisis management". OK, vonandi er verið að gera skynsama hluti þarna hugsaði maður. Nokkrum tímum síðar les maður að þessi ágæti herforingi hafi verið hægri hönd Bjarna Ármannssonar þegar hann var sem fyrirferðarmestur í bankageiranum. Þá fór það.
Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankastjóri Glitnis hefur hlaupið nokkur maraþonhlaup á liðnum árum. Menn minnast þess hvað gekk á í Reykjavíkurmaraþoninu fyrsta árið þegar Glitnir studdi hlaupið og gerði það svo sem ágætlega. Það var eins og himinn og jörð ætluðu að farast þegar í ljós kom að bankamaðurinn gat skokkað hlaupið hjálparlaust á leiðarenda. Nú hleypur Bjarni hins vegar undir norskum fána eins og kom í ljós í Frankfurt maraþoninu um daginn. Gott og vel. Menn geta skammast sín svo fyrir uppruna sinn að þeir reyni að þvo hann af sér. Alltaf hefur það þó heldur þótt vera háttur lítilmenna. En það væri gaman að taka snúning á því hverjir hafa skitið meir út nafn lands og þjóðar nú á seinni tímum en einmitt Bjarni og hans kollegar.
Sá skaði gæti nefnilega verið verstur til lengri tíma litið ef einhvern tíma sést út úr þessu fárviðri sem geysar á landinu að íslensk fyrirtæki eru "persona non grata" meðal nálægra erlendra þjóða, sérstaklega á Englandi og á meginlandi Evrópu. Þar eru einmitt okkar mikilvægustu viðskiptalönd. Það mun enginn treysta íslenskum fyrirtækjum í viðskiptum um nokkra framtíð. Menn verða að sanna sig upp á nýtt. Þýskir bankar hafa tapað óhemju peningum á íslenskum bönkum. Fjármálastofnanir og fyrirtæki eru víða brennd svo svíður undan. Það gleymist ekki svo glatt. Þökk sé fjármálagúrúunum sem héldu að þeir gætu gleypt heiminn.
Egill Helgason birtir mikið af bréfum sem honum berast á eyjan.is. Þar kemur margt fróðlegt fram.
Barak Obama var kosinn forseti Bandaríkjanna í vikunni. Án þess að ég hafi tekið afstöðu um hvor frambjóðandinn falli mér betur í geð þá held ég samt sem áður að skiptin séu frekar jákvæð. Bush liðið var búið að sitja nógu lengi. Það er margt áhugavert sem kemur fram í framhaldi af þessum kosningum. Framsóknarmenn tala um Framsóknarmanninn Obama. VG lítur á hann sem sinn liðsmann. Samfylkingin metur hann sem sænskan sósíaldemókrat. Allt er þetta ágætt. Verst er ef menn verða fyrir vonbrigðum með þennan nýja liðsmann þegar frá líður. Ég man nefnilega eftir því þegar Tony Blair var kosinn forsætisráðherra Bretlands. Þá áttu nú aldeilis að vera runnir upp nýir tímar. New Labor var málið. Sócíaldemókratar gengu hnarreistir um og áttu heiminn. Hvað gerðist? Tony hrökklaðist trausti rúinn frá völdum þegar yfir lauk. Nú vill enginn kannast við að hafa haldið hann sem mikinn foringja. Þetta vill segja að því dempaðri sem væntingarnar eru, því minni verða vonbrigðin.
Eitt er áhugavert í sambandi við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna var kona valin sem varaforsetaefni. Einhverra hluta vegna var fögnuðurinn yfir þessum áfanga takmarkaður hjá þeim hluta þjóðarinnar sem hamrar sífellt og eilíflega á því hve mikilvægt sé að kona skipi hina eða þessa stöðuna. Það var eins og þeir hefðu stigið á dauða rottu í tilfellinu Palin. Nú er sagt að Palin hafi verið McCain fjötur um fót í kosningabaráttunni. Þá getur maður ekki annað en spurt: Er það vegna þess að hún er kona eða vegna þess að hún hafi ekki verið nægilega hæf? Spyr sá sem ekki veit. Ég hef alltaf haldið því fram að það eigi að meta einstaklinginn eftir hæfi en ekki eftir kynferði. Hver á að leggja mat á hæfið er kannski öllu erfiðara verkefni.
Það verður haldið 100 km hlaup í miðri Kaupmannahöfn þann 25. apríl n.k. Það verður með svipuðu fyrirkomulagi og hlaupið hjá okkur. Hlaupinn verður 10 km hringur. Drykkjarstöðvar eru fjórar. Hámarkstími er 13 klst.
Maður er hins vegar efins um að það verði farnar margar hlaupaferðir á næstu árum. Krónan er orðin svo verðlaus að maður er hálft í hvoru læstur inni í landinu. Ekki mun það batna ef verðbólgan verður í 20 - 30% næstu misseri vegna þess að gengisvísitalan er komin í 300. Þá er ástandið orðið álíka og var á Bíldudal hér í den tíð. Fólkið sem vann hjá fyrirtæki staðarins fékk greitt í peningum sem eigandi fyrirtækisins gaf út. Eini staðurinn sem hægt var að nota þá var í búðinni á staðnum sem var einnig í eigu þess sem átti fyrirtækið. Hringnum var lokað. Ég held að þau nátttröll sem enn vilja halda í krónuna ættu að hgsa aðeins um þessa staðreynd. Á hinn bóginn verður við núverandi aðstæður stórmál að skipta um gjaldmiðil vegna þess hve gengi krónunnar er lágt. Við verðum með svo lág laun þegar krónan hefur verið umreiknuð í evrur að kaupmátturinn verður harla lítill, bæði hérlendis sem erlendis. Vonandi hef ég þó rangt fyrir mér.
föstudagur, nóvember 07, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli