fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Fyrirtæki heitir Stím. Það er í eigu einhvers huldumanns vestur á Bolungarvík. So far, so good. Segir ekki af því ágæta fyrirtæki fyrr en það fær tuttugu og fimm milljarða að láni hjá Glitni án allra veða. Tuttugu og fimm milljarða. Það er fjórðungur af því sem það kostaði að byggja Kárahnjúkavirkjun. Og án allra veða nema í bréfunum sem keypt voru. Stím fjárfestir í verðlitlum hlutabréfum s.s. í FL group rétt áður en FL group tilkynnir um 65 milljarða tap. Verðmæti þeirra eigna sem keyptar voru fyrir lánið góða hríðfellur. Að lokum fellur 13 milljarða Stímskattur á landsmenn í gegnum gjaldþrot Glitnis. Forsvarsmennirnir segjast ekkert vilja segja um málið. Og þeir komast upp með það. Þarna er framið bankarán fyrir opnum tjöldum og það segir enginn múkk. Látum vera þótt þessir andskotans glæpamenn séu að stela hver frá öðrum en þegar ég og mínir líka verða að borga brúsann þá er það dálítið annað mál. Hafskipsmenn voru á sínum tíma leiddir út handjárnaðir á nærbuxunum vegna þess að það var verið að rannsaka fyrirtækið. Ástæða þess var fyrst og fremst slúður úr Helgarpóstinum. Niðurstaða gjaldþrotsins lá ekki fyrir. Umræðan snerist meðal annars um áprentaðar golfkúlur. Það er ekki að ástæðulausu að hinir svokölluðu fjármálamenn vilja eignast banka ekki síður en fjölmiðla. Þar er nefnilega peningauppsprettan sjálf.

Norðmenn halda átta ultrahlaup á næsta ári. Listi yfir þau er hér að neðan.

1. 18.04. Eggemoen 6-timers Ultra Challenge 6-timers
2. 27.06. Kristins Runde - Oslo 50 miles trail 81.3 km
3. 11.07. St Olavs Ultra (1 el 2 dager) (ikke avklart)
4. 25.07. Rallarvegsløpet 2 dager 81 km (54+27)
5. 22.08. Eidsvoll 6-timers =NM Ultra 2009 6-timers
6. 24.10. Bergen Ultra 63 eller 100 km
7. 07.11? Halden Ultraintervall 8x10 km
8. 05.12? Bislett 12&24 Hour Indoor Challenge 12- eller 24-timers

Þarna eru ýmsir varíantar sem hægt er að læra af. Það er í sjálfu sér ekkert mál að gera Þingvallavatnshlaupið og Þingstaðahlaupið að formlegum Ultrahlaupum. Það þarf ekki mikið meira en formlega tímamælingu. Menn geta skipulagt næringuna sjálfir eða haft hana í bíl sem keyrir leiðina. Skemmtilegur valkostur með 8 tíu km hlaup á braut á einum sólarhring. Þetta þurfum við að prufa.

Í Mexíkó eru 102 tímar liðnir frá því að þolraunin 10 x Ironman byrjaði. Enn er hjólað. Neil er í 8. sæti og búinn að hjóla 1200 km. Martens hinn sænski er fyrstur með 1540 km. Hann á um 250 km eftir. Þeir byrjuðu á laugardaginn!!!

Ég hef farið síðan í október reglulega út upp úr kl. sex á morgnana og tekið 8 km hring í hverfinu. Það passar vel upp á magnið. Svo fer ég lengra á helgum. Þótt ég hlaupi alla daga vikunnar þá skiptir það ekki máli. Með þessu næ ég 80 km +/- sem er gott viðhaldsmagn. Mér finnst þetta vera ágætt að taka daginn snemma. Á veturna er oft eitthvað að gera á kvöldin og eftirmiðdagarnir eru ekki minn tími.

Ég sé ekki að maður fari meir en einu sinni út á næsta ári að hlaupa ef það verður þá svo mikið. Það verður annað hvort 48 tíma hlaup eða London - Brighton. Það væri gaman að klára hin klassísku fjögur. Ég veit ekki um neinn sem hefur klárað þau öll. Það eru hins vegar ýmsar spökulasjónir um verkefni hér innanlands á næsta ári. Þau geta verið ærin ef áhugi er fyrir hendi.

P.S. Gaman að lesa að þú ert að renna yfir síðuna Áslaug mín. Maður hugsar stundum til ykkar þvert í gegnum hnöttinn. Það þarf ekki lítið hugrekki til að leggja út í vegferð eins og þið hafið verið á undanfarin ár. Bestu kveðjur til þín og Kára og farnist ykkur vel. Þótt þér þyki nóg um sem maður er að skrifa þá er margt til viðbótar sem maður getur ekki skrifað um. Það er nú bara þannig.

Engin ummæli: