laugardagur, nóvember 01, 2008

Það er dapurlegt að heyra hvað fréttamenn hafa slakan skilning á prósentureikningi. Oft er mikilvægt en aldrei sem nú að það fólk sem telur sig þess fært til að starfa á fréttadeildum fjölmiðla og vera þar með í framvarðarsveit fjórða valdsins hafi slíka lágmarksþekkingu á valdi sínu.

Stýrivextir voru hækkaðir á dögunum úr 12% í 18%. Þetta er 6 prósentustiga hækkun en 50 prósenta hækkun. Þegar vextir hækka úr 2% í 3% er það 50% hækkun en 1 prósentustigs hækkun. Það er ekki 1% hækkun. Orðið prósenta þýðir einn af hundraði. Prósentureikningur er einfaldur hlutfallareikningur til að geta sett stærðir í samhengi hverja við aðra. Þetta er grundvallaratriði. Maður heyrir trekk í trekk gamalgrónar raddir í útvarpinu tala um 6% hækkun stýrivaxta. Það er einfaldlega rangt. Stýrivextir hækkuðu um 50% þegar þeir hækkuðu úr 12% í 18%. Það veitti kannski ekki af því að fréttamenn færu af og til aðeins yfir fjórða heftið af reikningsbók Elíasar Bjarnasonar til að fríska þetta upp. Þegar grunnskólarnir öpuðu mengjafræðina eftir Svíum á vissu árabili þá komu flokkar unglinga út úr grunnskólum sem kunnu ekki að reikna. Hugarreiknigur var eins og stjarneðlisfræði í þeirra augum. Ég þekki það sjálfur persónulega að kennarar í Réttarholtsskóla vildu ekki kenna strákunum mínum og bekkjarfélögum þeirra þríliðu sem er gagnlegasta og praktiska reikniregla sem til er. Er það furða að sumir fréttamenn virðast ekki hafa hugmynd um hvað prósentureikningur er? Það skiptir máli að fólki sé sagt satt og rétt frá. Sex prósent er ekki mjög mikið en fimmtíu prósent er mjög mikið.

Hluti af kreppuástandi og kannski einn versti hluti hennar er að allt fjárstreymi í þjóðfélaginu minnkar. Það dregur meðvitað og ómeðvitað úr verslun og viðskiptum. Þannig hafa fyrirtækin minni peninga til að greiða laun. Það leiðir af sér að einhver leggja upp laupana og önnur draga saman seglin með því að segja upp fólki. Það magnar kreppuna enn frekar. Ég er búinn að taka meðvitaða ákvörðun um að magna upp kreppuna að óbreyttu. Það er ekki af tómri mannvonsku og óþjóðhollustu heldur af því ég ætla að reyna að bjarga mér og mínum. Það er hver sjálfum sér næstur í því ástandi sem framundan er.

Grundvallaratriði í þessu sambandi er tvöföldunartími lána. Þar er talan 70 lykiltala. Ef maður deilir vöxtum láns upp í 70 þá segir útkoman manni á hve mörgum árum höfuðstóll lánsins muni tvöfaldast að öðrum stærðum óbreyttum. Vextir verðtryggða lána á Íslandi eru samsettir af verðbótum annars vegar og raunvöxtum hins vegar. Verðbætur eiga að samsvara verðbólgu. Hún er nú um 16%. Þar ofan á koma að lágmarki 5% raunvextir sé talað um almenn húsnæðislán sem flestir hafa tekið. Þannig eru vextir verðtryggðra húsnæðislána sem stendur að lágmarki ekki undir 21%. Ef við deilum þessari tölu (21) upp í 70 er útkoman 3,3. Það segir okkur að höfuðstóll lánsins muni tvöfaldast á 3,3 árum. Eitthvað er borgað af því en afborganir vega mjög lítið af 40 ára láni þannig að raunveruleikinn er ekki langt frá þessari stærð. Alla vega er tvöföldunartíminn innan við 4 ár þegar tekið er mið af afborgunum. Ég er bara ekki búinn að reikna það nákvæmlega út. Tökum dæmi af fjölskyldu sem átti hús sem var verðmetið á 40 milljónir fyrr á þessu ári. Fjölskyldan skuldaði 16 milljónir í húsinu. Skuldaði sem sagt um 40% af verðmæti hússins og afborganir voru svo sem ekkert mál. Nú er allt gjörbreytt. Verðmæti hússins hefur fallið. Yfir höfuð spurning hvort það muni seljast á næstu misserum. Verðmæti þess mun örugglega falla niður í ca 30 milljónir þar til landið fer að rísa á nýjan leik. Spurning hvenær það verður. Nú ætlar maður svo sem að vona að verðbólgan lækki á næstu misserum, svo sannarlega. Frést hefur af því að fólk er farið að taka á sig beinar launalækkanir til að halda vinnunni. Þar fyrir utan verður veruleg kaupmáttarskerðing hjá almenningi vegna hruns krónunnar sem leiðir af sér gríðarlegar verðhækkanir. Annað er ómögulegt. Enda þótt maður verði að vona hið besta þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvernig staðan væri ef þróunin væri á annan og verri veg. Miðað við óbreytt verðbólgu ástand væri 16 milljóna lán samkvæmt tvöföldunarreglunni komið í 32 milljónir eftir þrjú og hálft ár. Áætlaðar afborganir á sama tíma eru áætlaðar samtals um 3 - 3.5 milljónir. Ergó: Fjölskyldan ætti ekki neitt í húsinu eftir þennan tíma ef verðbólgan lækkar ekki.

Fyrir venjulegt fólk er helsta eign þeirra fólgin í íbúðarhúsnæðinu og þá skuldir sömuleiðis. Flestir skulda eitthvað í húsnæðinu, lán sem tekin hafa verið hjá Íbúðarlánasjóði, lífeyrissjóðum eða bönkum. Því er ekki hægt að gera skynsamlegri hluti við þá peninga sem menn eiga nú en að greiða niður lán af öllum mætti ef menn ætla að verja eigur sínar. Það ætla ég líka að gera. Það þýðir aftur á móti að maður kaupir minna en áður. Minna fer í föt, olíu, bækur, veitingahús (svo sem aldrei mikið) og ýmislegt annað sem maður hefur látið eftir sér en hefur svo sem ekki verið bráðnauðsynlegt. Það þýðir að öll þau fyrirtæki sem maður hefur átt viðskipti við fá minni peninga úr mínum vasa til að greiða laun og annan kostnað. Staða þeirra versnar þannig því miður en það er hver sjálfum sér næstur. Í þessari stöðu þarf að handstýra hlutum þannig að skaðinn dreifist en kerfið sé ekki þannig að sumir sleppi og hafi allt sitt á hreinu en aðrir séu ofurseldir þróuninni. Fólk hefur yfirleitt ekki valkost um hvort það kaupi sér íbúð eða ekki. Framboð af öðrum valkostum eru svo takmarkaðir hérlendis að það er hæpið að tala um leiguhúsnæði eða Búseta sem raunverulegan valkost. Þeir eru svo örlítill hluti af húsnæðismarkaðnum að það telur harla lítið fyrir allann almenning. Fyrst að lífeyrissjóðirnir töldu sig hafa efni á því að spila fjárhættuspil með lífeyri þjóðarinnar og tapa verulegum fjárhæðum á því spili, þá hafa þeir einnig efni á því að verðtrygging lána verði tekin úr sambandi þegar verðbólgan fer yfir ákveðin mörk. Sama gildir um Íbúðarlánasjóð og bankana. Þetta þýðir að það er verið að dreifa byrðunum á alla í stað þess að hluti þjóðarinnar verði eignalaus eða hættir að ráðstafa peningum út í hagkerfið vegna þess að það fer hver eyrir í að verja húsnæðið.

Gengislán eru öðruvísi en verðtryggð lán. Þau rjúka upp þegar gengi gjaldmiðilsins fellur en þau lækka aftur á móti jafnharðan ef krónan styrkist. Framtíðarþróun þeirra er því miklu sveiflukenndari en verðtryggðra lána sem hækka einungis en lækka aldrei nema sem svarar því sem borgað af þeim. Við getum fullyrt að gengistryggð lán munu aldrei lækka niður í svipaða upphæð og þegar þau voru tekin fyrir ári síðan eða þar áður því styrkur krónunnar var óraunhæfur vegna kengruglaðrar peningastefnu.

Af því að mönnum er svo gjarnt að nota myndmál á þessum tímum þá má jafna ástandinu þjóðarinnar við að skip sé komið upp í brimgarðinn er er ekki strandað. Sérhver skipstjóri með viti myndi taka sjálfstýringuna úr sambandi við slíkar aðstæður og nota handstýrið, vélina, gírinn, kúplinguna og öll önnur möguleg stjórntæki til að freista þess að ná að sígla út á kyrrari sjó. Menn keyra vélina jafnvel upp á rauða strikið því það er allt undir. Það þýðir ekki að segja að stjórntækin eigi að vera föst í þeirri stöðu sem dugði á stilltum sjó. Við erum í álíka stöðu. Því þýðir t.d. ekki að segja að verðtrygging lána sé heilög og við henni verði ekki hróflað á sama tíma og allur almenningur sér eignir sínar brenna upp. Hann freistar þess að bjara því sem bjargað verður, hættir að eyða peningum nema í brýnustu nauðþurftir til að geta borgað niður lánin og magnar þannig upp kreppuna.

Munið tvöföldunarregluna og reiknið út stöðu ykkar samkvæmt henni. Einfalt en segir mikið.

Fór út kl. 7.30 í morgun og tók Eiðistorgshringinn. Hlýtt en hvasst. Gott hlaup.

Engin ummæli: