Gott hlaup með Vinum Gulli í morgun. Hlýtt, létt rigning og logn. Tuttugu km lágu. Við spjölluðum um eitt og annað eins og gengur. Jens var að segja okkur frá ýmsu sem hann hefur kynnst í Rússlandi en hann er í nokkrum viðskiptum við þarlenda. Hann sagði okkur meðal annar hvernig hin nýríka yfirstétt þar í landi hagar sér. Hún virðir engin lög og engar reglur. Menn keyra meðal annar á móti umferðinni ef þeim sýnist svo, ganga í gegnum eftirlitshlið enda þótt öll viðvörunarljós blikki, fara alltaf fremst í biðraðir og eru með embættismenn í vinnu hjá sér á kvöldin til að ganga frá ýmsum hlutum. Þegar maður fer að setja hlutina í samhengi þá sér maður ýmis merki um að þróunin hafi verið á álíkri leið hérlendis. Furstarnir voru hættir að hlusta á stjórnvöld, eftirlitsstofnanirnar voru kraftlausar, stjórnmálamenn fengu í hnén ef furstarnir töluðu, þeir höfðu mikil áhrif á setningu laga og reglna o.s.frv. Þeir réðu í raun ferðinni. Ákveðin kaflaskil urðu þegar REI málið kom upp fyrir góðu ári síðan. Þá munaði ekki nema hársbreidd að furstarnir næðu tangarhaldi á orkulindum þeim sem eru í eigu Reykjavíkurborgar. Það kostaði gríðarleg átök, meirihlutaslit og allt sem því fylgir. Í dag held ég að þeir séu fáir sem ekki skynja mikilvægi þess uppgjörs og að ásókn furstanna í Orkuveituna var hrundið. Að óbreyttu hefði þessi þróun haldið áfram. Tök furstanna á íslenskt þjóðfélag hefðu orðið sífellt harðari. Þeir ráða nú sem stendur flestum fjölmiðlum nema ríkisútvarpinu. Það hefði ekki verið mikið mál að ná undirtökunum þar með því að senda málaliða inn á Alþingi til að ná undirtökunum á þeim bænum einnig. Það er bara spurning um að setja fjármuni í ákveðna frambjóðendur og láta fjölmiðlana beita sér fyrir ákveðna stjónmálamenn. Þannig hefðu tök fjármálafurstanna smám saman orðið enn harðari á íslensku þjóðinni og endirinn hefði orðið sá að það hefði ekki verið til baka snúið. Maður spyr sig vort ekki hafi verið betra til lengri tíma litið að allt helvítis móverkið krassaði nú og við tökum skellinn sem verður erfiður um hríð heldur en að þjóðfélagið hefði þróast á þann veg að það hefði verið í klónum á örfáum fjármálafurstum og börn framtíðarinnar fæðst inn í slíkt lénsherraskipulag. Ég er ekki í vafa um hvorn kostinn ég hefði kosið. Að vísu er sá valkostur fyrir hendi fyrir hluta þjóðarinnar að flytja úr landi. Þetta hefði sem sagt ekki verið eins og í Kína og Sovétríkjunum þar sem ríkisvaldið lokaði fólk inni svo það slyppi ekki burt.
Ég sé ekki hvernig seðlabankastjóri getur setið mikið lengur þegar verk hans eru orðin umfjöllunarefni á neikvæðum nótum í víðlesnum erlendum blöðum. Hluti af því að byggja upp traust meðal erlendra þjóða og erlendra fjármálastofnana á nýjan leik er að forsvarsmenn þjóðarinnar njóti fyllsta trausts hjá þeim aðilum sem mikil samskipti verður að hafa við. Annað gengur ekki. Hér verður helst að koma til virtur erlendur aðili sem hafi til að bera nauðsynlega þekkingu á þessum málum. Kunni krísustjórnun.
Mér finnst það vera ósköp lágkúrulegt að leiða fyrrverandi hringrásarmenn fram í fjölmiðla og kjaftaþætti eins og einhverja prófeta sem leggja þjóðinni góð ráð inn í framtíðina. Í mínum huga eru margir þeirra ekkert annað en ótíndir bandittar. Ég vil þó taka fram að ég undanskil t.d. Björgólf Thor því hann hefur frá upphafi starfað erlendis, hann auðgaðist erlendis á uppbyggingu framleiðslufyrirtækis, hann hefur greitt gríðarlega fjármuni inn í samfélagið við kaupin á Actacis og hann hefur verið að byggja upp fyrirtæki hérlendis s.s. Nova. Tek fram að ég hef enga þekkingu á viðskiptasögu Björgúlfs að öðru leyti. Það er allt annað en að kaupa og kaupa fyrirtæki hér heima og erlendis, selja þau sín á milli við síhækkandi verði og 100% lántöku sem skilar engri framleiðsluaukningu heldur einungis loftbóluefnahagsreikning.
sunnudagur, nóvember 02, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli