föstudagur, nóvember 21, 2008

Nú skil ég þetta með STÍM. Vilhjálmur Bjarnason skýrði fléttuna út með skilmerkilegum hætti í kvöld. Glitnir var að falsa eignastöðu sína. Með því að lána fjármagn út til einhverra félagaþá var komin viðskiptakrafa sem fer eignamegin í efnahagsreikning bankans. Sama þótt hún væri innistæðulaus. Fyrst þessir peningar voru notaðir til að kaupa í FL group þá er ekki ósennilegt að þeir hafi runnið til bankans aftur á einn eða annan hátt og verið síðan lánaðir öðrum til að styrkja eignastöðuna. Þarna er bankinn orðinn algerlega desperat yfir gangi mála og er að reyna að fegra stöðu sína með sjónhverfingum og blekkingum. Í kvöld kom fram í ríkissjónvarpinu hve lán bankanna til innlendra einkahlutafélaga voru orðin svakaleg. Sautján hundruð milljarðar. Viðbótin á árinu var um 700 milljarðar. Maður gerir sér ekki grein fyrir hvaða svakalegar upphæðir eru þarna á ferðinni. Kárahnjúkavirkjun kostaði litla 130 milljarða. Skít á priki miðað við að sem einkahlutafélögunum var lánað. Tryggingar voru yfirleitt ekki fyrir hendi þar sem stærstu lánin voru heldur gert ráð fyrir því að verð hlutabréfanna bara hækkuðu og hækkuðu. Svo þegar allt er komið í steik þá byrja bankarnir að fella niður kröfur á þessa lántakendur því ella sé hætta á að þeir selji bréfin. Það segir manni að þarna er á ferinni eitthvað geim milli bankanna og viðkomandi einstaklinga með það að markmiði að tjúna upp eiginfjárstöðu bankanna. Með því að tjúna upp stöðu bankanna var verið að senda röng (fölsuð) skilaboð út á markaðinn. Bæði til þeirra sem treystu bönkunum fyrir peningunum sínum í formi innlána og hins vegar þeim sem treystu bönkunum fyrir peningunum sínum í formi hlutafjárkaupa. Til að kóróna allt saman situr fjármálaeftirlitið og metur eiginfjárstöðu bankanna.

Það vita allir sem hafa komið nálægt rekstri að það sem mestu máli skiptir er greiðsluflæðið. Eru tekur meiri en gjöld? Eiga menn fyrir skuldbindingum? Þetta er kannski gamaldags þúfnakollahagfræði en engu að síður eru þetta principin sem gilda þegar í harðbakka slær. Ég man ekki hvort ég hafi minnst á Kaupfélag Svalbarðseyrar það ágæta félag sem fór á hausinn upp úr 1980. Reksturinn gekk illa og yfirleitt var tap á honum. Lausafjárskorturinn var brúaður með lántöku því veðrýmið var svo mikið. Eiginfjárstaðan var svo góð því eignir voru svo mikið umfram skuldir. Bændurnir sem sátu í stjórn skrifuðu óhikað upp á lánin því þeir töldu það vera hættulaust því það var mikið borð fyrir báru á efnahagsreikning fyrirtækisins. Svo fengu þeir ekki meira lán enn eitt tapárið. Félagið fór á hausinn og reksturinn stöðvaðist. Þegar átti að fara að selja þessar miklu eignir sem félagið átti samkvæmt bókhaldinu þá vildi enginn kaupa þær. Eignirnar voru verðlausar og kröfuhafar gerðu aðför að jörðum bændanna sem höfðu gengið í ábyrgð fyrir félagið. Eignir sem eru ekki í rekstri eru yfirleitt miklu minna virði heldur en ef þær eru notaðar undir rekstur sem gengur vel. Því er það fáránleg aðferðafræði til að meta styrk fyrirtækja með því að líta einvörðungu á efnahagsreikninginn eins og sagt er að fjármálaeftirlitið hafi gert við bankana. Ekki síst þegar skuldatryggingarálag þeirra hafði var allt að 1000 punktum mánuðum saman sem þýðir að þeir séu gjaldþrota. Þegar allt lék í lyndi var skuldatryggingarálagið um 60 - 80 punktar. Enda þótt almenningur hafi ekki áttað sig á alvöru málsins í fljótu bragði þá eiga fagstofnanir og ráðherrar viðkomandi málaflokka að þekkja signölin og bregðast við í tíma með öllum tiltækum ráðum.

Niðurstaðan er eins og allir vita:

Óðaverðbólga
Gengishrun
Bankahrun
Gríðarleg kaupmáttarskerðing
Ófyrirsjáanleg hækkun allra lána
Greiðsluþrot fjölda fólks og fyrirtækja

Neil hjólar enn í Mexíkó. Hann er búinn með hátt í 1600 km og er í 9. sæti eftir 127 tíma. Svíinn Martens heldur forystunni en hann er búinn að hjóla ásamt tveimur öðrum. Hann er búinn að hlaupa rúma 70 km (af 422).

Engin ummæli: