Ég get ekki sagt annað en að mér hnykkti svolítið við þegar ég las Moggann í morgun. Þar var framkvæmd landsmótsmaraþonsins á Akureyri fundið flest til foráttu af konunni sem var krýndur sigurvegari í kvennaflokki. Ég get ekki sagt annað en að ég er ósammála öllu því sem fram kom í fréttinni sem varðar framkvæmd hlaupsins. Ég hef nokkra reynslu af maraþonhlaupum þannig að ég hef þokkalegan samanburð við önnur hlaup. Hlaupaleiðin var ágætlega merkt. Upplýsingar um vegalengdir voru að vísu ekki á keilum heldur voru þær skrifaðar á götuna en það var gert á mjög áberandi og skýran hátt. Brautarverðir voru þar sem þurfti að leiðbeina hlaupurum. Þeir voru mjög áberandi og sinntu sínu hlutverki með sóma. Drykkjarstöðvar voru með eðlilegu millibili (ca 5 km) og þær voru vel mannaðar af hjálpfúsu fólki sem stóð út við götuna með glös og rétti hlaupurum. Ég á mjög erfitt með að trúa því að það sé rétt að starfsfólk á drykjarstöðvum hafi verið svo upptekið við innbyrðis spjall að það hafi ekki tekið eftir hlaupara sem kemur aðvífandi. Að það sé brekka upp í markið er bara partur af hlaupinu. Það er engin hlaupaleið eins í maraþoni. Það vissu allir af þessari brekku og allir þurftu að fara hana. Hún er mönnum miserfið eftir því í hvernig ástandi þeir eru þegar í mark er komið. Ég hef hlaupið maraþon þar sem brekka upp í markið var miklu erfiðari en á Akureyri. Ef hlauparar ruglast á leiðinni þegar þeir eru að örmagnast af vatnsskorti og sykurfalli er það ekki mótshöldurum að kenna heldur getur hlaupari engum um kennt nema sjálfum sér. Þegar menn svitna mikið í heitu veðri með goluna í bakið eins og gerðist á leiðinni inn að snúningnum við Stokkahlaðir þá verður að gæta sérstaklega að því að drekka vel og hafa orkuna í lagi.
Það rifjaðist upp í þessu sambandi að árið 2001 hljóp ég 10 km í Álafosshlaupinu. Við vorum nokkrir saman í hóp sem vorum fremstir. Einhverra hluta vegna tók sá fremsti ekki eftir merkingu sem vísaði veginn og því hlupum við ranga leið. Við vissum svo ekki fyrr en við mættum hlaupurunum sem hlupu réttu leiðina. Meðan þeir hlupu í hring þá hlupum við í nokkursskonar 8 en áþekkt langa leið. Við sem fórum villur vegar komum aðeins á undan hinum í mark. Það var ca 12 ára gamall strákur sem var fyrstur þeirra sem hlupu réttu leiðina og vitaskuld fékk hann stóra bikarinn.
þriðjudagur, júlí 14, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Sæll og takk fyrir síðast! Ég er algjörlega sammála þér varðandi framkvæmd hlaupsins. Hún var með ágætum. Og það flokkast undir væl að mínu mati að kvarta yfir brekkum. Þær eru jafnbrattar fyrir alla. Málið snýst náttúrulega bara um að allir standi jafnt að vígi. Það er ekkert óskaplega flókið. :)
Takk sömuleiðis Stefán og gratúlera ykkur hlaupabræður úr Borgarnesinu með flokkaverðlaunin. Það var ekki að sjá að brekkan sæti mikið í þér miðað við myndina góðu þegar þú kemur gleiðbrosandi í mark, tilbúinn að gefa hverjum sem er fimmuna af ánægju yfir vel hepppnuðu hlaupi.
Það er nú bara svoleiðis að þegar fólki líður illa þá finnst því oft allt ómögulegt. .. ja, ég er allavega sjálf þannig :)
Flestir sem ég talaði við sem hlupu þetta hlaup voru ánægðir með framkvæmdina.
Bibba
Skrifa ummæli