þriðjudagur, júlí 07, 2009
Við Ingimundur gistum á Staðarflöt við Staðarskála í nótt er leið. Staðarhaldarar þar sýndu hlaupinu þann rausnarskap að þau buðu okkur gistingu og mat og kunnum viðþeim hinar bestu þakkir fyrir. Við lögðum af stað upp úr kl. 8:00 upp á heiði og það var lagt í hann tuttugu mínútur í níu. Ingimundur hljóp með mér fyrsta spölinn til að ná dagsskammtinum en sneri svo við til að ná í bílinn. Veðrið var fínt. Skýjað, logn og 12°C. Ég var svona klukkutíma uppá kjöl og svo var rúllað niður heiðina en hún er dálítið löng. Ætli hún sé ekki um 50 km í það heila. Þegar niður í Hrútafjörðinn kom fór að létta til og hlýna. Það var síðan standandi blíða daginn út, 18°C og logn. Nú sparaði ég ekki sólarvörnina en ég hafði vanrækt kálfana að aftanverðu í gær og það sagði strax til sín. Ég stoppaði svolítið í Staðarskála og græjaði mig en hélt svo áfram sem leið lá út Hrútafjörðinn. Við vorum komnir að Hvammstangavegamótunum rúmlega þrjú og fórum ca 13 km austur fyrir þau eða að afleggjaranum upp í Fitjárdal. Þá voru komnir 65 km. Dagurinn var þó ekki alveg búinn því ég hafði ákveðið að taka "göngin" og það passaðia ð hlaupa afleggjarann út að Hvammstanga til að klára þau. Þar kom hópur frá Hvammstanga á móti okkur og við skokkuðum út í bæinn. Þar var farið í heita pottinn í sundlauginni. Góður dagur var á enda runninn. Að því loknu kíktum við aðeins í heimsókn til Ragnars frænda og Sissu konunnar hans en héldum svo í gistingu að Gauksmýri. Í svona hlaupi og í svona veðri liggur manni ekkert á. Fólk stoppar og spjallar nokkur orð og óskar manni górar ferðar. Aðrir flauta og veifa. Bjarki flutningabílstjóri og Narfi og kona hans gaukuðu að mér peningum á Holtavörðuheiðinni. Sigvaldi girðingarmaður úr Skagafirði henti frá sér verkfærunum við vegkantinn inn við Brú og hljóp með mér í klossunum og samfestingnum út að Staðarskála. Hallgrímur Guðmundsson úr heilbrigðisráðuneytinu stoppaði hjá okkur í Hrútafirðinum og víð fórum langt með að útfæra flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga á meðan ég borðaði. Síðan hitti ég Steina bónda á Reykjum, gamlan skólabróður frá Hvanneyri, við vegkantinn fyrir ofan Reykjaskóla og við máttum til með að taka sólarhæðina á ýmsum hlutum. Steini er pabbi Helgu Margrétar, þeirrar miklu frjálsíþróttakonu. Í dag var farinn 71 km. Tíminn var eitthvað á níunda klukkutíma þegar allt var talið saman en það er ekki svo nauið þegar í mörg horn er að líta. Allt er í fínu lagi og maður þarf heldur að halda aftur af sér heldur en hitt. Ég heyri að fjölmiðlarnir hafi staðið sig vel í allri umfjöllun en ég hef ekkert útvarp meðferðis. Á morgun á að taka legginn frá Fitjárdal í gegnum Blönduós og best væri að ná Húnaveri.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Sæll frændi,
Þar sem þú ert að fara að gista á Gauksmýri ertu að gista hjá Rauðsendsk ættaðri húsfrú. Sigríður Lárusdóttir húsmóðir á Gauksmýri er dótturdóttir Þórdísar Pétursdóttir Jónssonar frá Stökkum :-)
Gangi þér vel í næsta áfanga, það er sko fylgst með þér og frú Asta kveikir á kerti þér til heiðurs :-)
Bestu kveðjur,
Sólveig.
Takk fyrir þetta Sólveig. Skoða málið. Kveðja heim.
G
Skrifa ummæli