Fór af stað kl. 7.30 í morgun og hitti Jóa og Stebba úti við Fossvogsbotn um átta leitið. Þegar við vorum nýfarnir af stað vestur eftir hittum við Bigga sem var á bakaleið. Hann er að berjast við að sjá fyrir sér og sínum eftir atvinnumissi fyrr í sumar. Hann sagði okkur ýmsar sögur enda er hann vel kunnugur í innflutningi og ýmisskonar höndlun. Hann sagði okkur meðal annars frá fyrirtæki sem hafði verið hætt að borga erlendum birgi. Sá var orðinn órólegur og vildi fá að vita hvenær greiðslur færu að koma. Honum var stöðugt lofað að þetta væri alveg að koma, eigendurnir væru að fara að skjóta meiri peningum í fyrirtækið og bankinn kæmi með svipað á móti. En ekkert gerðist. Að lokum brast birginn þolimæðin og sagðist bara koma til Íslands til að taka til baka eitthvað af þeim vörum sem lægju á lager og væru ógreiddar. Jú það stóð ekki á því að honum var lofað allri þeirri hjálp sem menn gætu innt af hendi. Þetta væri bara dálítið erfitt akkúrat núna. Þegar sá erlendi lenti í Keflavík síðla dags var tekið á móti honum af viðskiptavinum hans sem hann hafði oft hitt áður. Þeir sögðu að þvi miður hefði forstjórinn þurft að bregða sér frá en hann myndi hitta hann kl. 9.00 uppi í fyrirtækinu morguninn eftir. Sá erlendi mætir á fundinn morguninn eftir og þá segja hinir íslensku "vinir" hans honum að bankinn hafi tekið fyrirtækið yfir um nóttina og þeir geti því ekkert gert til að aðstoða hann. Hann fór því til baka, skaðbrenndur eftir viðskiptin við íslendingana og lítur nú á íslendinga sem ómerkilega þjófa og lygara. "Þið luguð að mér, hvers vegna var mér ekki sagt neitt." Það er rétt að hafa svona sögur í huga þegar viðtalið við seðlabankastjóra í Kastljósinu er rifjað upp. Þar segir hann hve þetta verði allt svo einfalt. Menn einfaldlega láti skuldirnar falla á kröfuhafa, skipti um kennitölu og hefji viðskipti á nýjan leik. "Við borgum ekki skuldir óreiðumanna" Hann tók hins vegar ekki með í reikninginn að til að viðskipti komist á þarf yfirleitt tvo til, seljanda og kaupenda. Kaupandi má sín yfirleitt lítils á markaði ef enginn vill selja honum. Svona orðspor er það íslendingar munu þurfa að berjast við í náinni framtíð.
Ég held að sú skoðun Vilhjálms Egilssonar að það verði að afhenda kröfuhöfum einn banka eða fleiri upp í kröfur þerra sé skynsamleg. Það er ekki hægt að sýna þeim bara fingurinn og láta ekki ná í sig. Millibankaviðskipti verða að komast á. Það er ekki flóknara. Í þeirri stöðu sem við erum í eru engir kostir góðir, einungis misjafnlega slæmir.
Nýskipuð bankaráð vekja enga sérstaka hrifningu hjá mér nema formennirnir eru öflugir. Ef markmiðið hefur verið að skipa flekklaust valinkunnugt sæmdarfólk í bankaráðin þá hefur það takmark án efa náðst. Það er kannski það sem er mikilvægast í dag. Geta og þekking til ákvarðanatöku á krísutímum í bankageiranum er hins vegar ekki til staðar hjá hverjum sem er. Vafalaust er það hinsvegar erfitt að finna óumdeilt fólk til þessara starfa í dag.
Skelfing hef ég lítinn áhuga á þessum drottningarviðtölum á Stöð 2 við fyrrverandi útrásarvíkinga og meinta núverandi þjóðníðinga. Að telja að það þjóni einhverjum tilgangi að mala við þá í hugulegheitum er náttúrulega í besta falli tær misskilningur. Enda horfir ekki nokkur maður á þetta það maður heyrir.
Það fjölgar á mótmælafundum í miðbænum. Ég veit ekki hve lengi Iðnó dugar. Ætli það verði ekki að fara að nota Egilshöllina þegar líður lengra fram á veturinn. Nú eru flestir þeirra sem hafa misst vinnuna á uppsagnarfresti. Það breytist eftir jólin. Þá bíða atvinnuleysisbæturnar. Ég heyrði skilmerkilegt viðtal við Sigurbjörgu Árnadóttur í morgunútvarpinu Rás 2 á þriðjudagsmorguninn fyrir tilviljun. Yfirleitt nenni ég ekki að hlusta á þessa stöð en þarna hittist svona á að ég hlustaði á hana yfir hafragrautnum. Hún sagði frá hvernig kreppan lék finnskt þjóðfélag í upphafi tíunda áratugarins og fram eftir honum. Það voru skelfilegar lýsingar. Stjórnvöld beittu aðgerðaleysisaðferðinni með skelfilegum afleiðingum. Fram að þessu höfðum við heyrt frá ýmsum froðusnökkum hvað finnska leiðin hefði verið snjöll. Auknir peningar hefðu veruð settir í menntun og sprotafyrirtæki og málið var leyst. Það kom fram hjá Sigurbjörgu að sú stefnubreyting hefði ekki átt sér stað fyrr en eftir að þjóðin hefði þjáðst í þrjú ár. Þá kom nýtt fólk til valda í pólitíkinni. Kari Kovisto kunni engin ráð önnur en að spara sig í gegnum kreppuna.
Það er dag hvern talað um lán erlendis frá sem sé að koma og það muni leysa allan vandann. Það er einungis nauðsynleg aðgerð til að koma gangverki þjóðlífsins af stað aftur. Síðan er eftir að borga. Ég var að slá á það í dag í grófum dráttum hvað það þýddi að taka lán sem nemur landsframleiðslunni ef það er fært yfir á heimilisreikninginn. Þá myndi maður taka lán sem væri jafnhátt og brúttótekur heimilisins og þyrfti að greiða það til baka á 10 árum. Afborgun væri 1/10 af brúttótekum (fyrir skatt). Ef vextir væru tíu% þá væru vaxtagreiðslur fyrsta árið jafnháar afborgun.
Setjum dæmið svona upp. Brúttótekur heimilis 12 milljónir (þokkalegar meðaltekjur eins og hafa verið á Íslandi). Bæði hjónin vinna úti með allgóðar tekjur. Lán tekið upp á 12 milljónir sem skal greiða á 10 árum. Afborgun fyrsta árið 1.2 milljón. Vextir 10% sem þýðir að þeir eru einnig 1.2 milljónir fyrsta árið. Ef skattar væru samtals um 40% af brúttótekjum þá væru 7.2 milljónir eftir til ráðstöfunar. Vextir og afborganir af láninu myndu vera 2.4 milljónir eða 33% af ráðstöfunartekjum fyrsta árið. Fjölskyldan hefði því 4.8 milljónir til að standa undir rekstri heimilisins fyrsta árið í stað 7.2 milljóna. Árleg afborgunin væri síðan jöfn en vextirnir færu stiglækkandi með lækkandi höfuðstól. Ég er hræddur um að ýmsum fyndist þyngja á dalnum ef 33% af fyrri ráðstöfunartekjum væru gerðar upptækar vegna svona láns. Þar á ofan myndi kannski bætast kaupmáttarskerðing vegna gríðarlegrar verðbólgu. Þetta eru svo sem engin vísindi heldur gróft dæmi til að menn átti sig á hvað verið er að tala um.
laugardagur, nóvember 08, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
Netfang: atlasloan83@gmail . com
whatsapp / hangout + 14433459339
Atlasloan.wordpress.com
Skrifa ummæli