laugardagur, nóvember 29, 2008

Fúsi Þorsteins var jarðaður í dag frá Patreksfjarðarkirkju. Hann var verkstjóri á kúttunarloftinu hjá HP á Patró þegar ég fór að vinna þar í febrúar 1970. Það var fyrsta alvöru launavinna sem ég réði mig í. Fúsi er sá síðasti sem fellur frá af köllunum sem unnu þarna saman á loftinu. Þarna voru Fúsi, Númi, Búi, Beggi, Mikki og Mangi á Stekkunum. Oft var kátt á hjalla og karlarnir höfu gaman að glamrinu í strákunum. Maður hugsar stundum um það hve fullorðið fólk vann mikið á þessum tíma. Fólk sem þegar var margt hvert orðið slitið fyrir aldur fram. Það var lélegur dagur í frystihúsinu ef ekki var unnið fram til kl. 19.00. Gott var að fá kvöldvinnu. Það var léleg vika ef ekki var unnið á laugardegi. Gott var að fá sunnudagsvinnu. Svona var þetta. Strit þessa fólks lagði grunninn að því þjóðfélagi sem við höfum lifað í heldur þokkalegu lífi fram til þessa en var fokkað upp af uppskafningum og þjófum og sér ekki fyrir endann á þeim ósköpum.

Fúsi var kátur og spaugsamur sem verkstjóri en hafði góð tök á öllu með rólegheitum. Ég vann nokkrum árum seinna undir hans verkstjórn á nýjan leik í frystihúsinu á Geirseyri. Þá var maður eldri og þóttist veraldarvanari. Fúsi var aftur á móti alveg eins. Einu sinni brugðustum við trausti hans í einhverjum bjánaskap. Fúsi skammaði okkur ekki, sem hann hafði fulla ástæðu til, en hann var óskaplega sár. Við fundum það vel og höfðum vit á að skammast okkar eins og hundar. Án þess að neinn segði neitt þá reyndi hópurinn ósjálfrátt að sýna honum að þetta hefði verið asnastrik sem endurtæki sig ekki. Við unnum þarna við að pakka skreið og skreiðarhaugurinn var ansi stór. Með því að það myndaðist stemming fyrir að fækka gagnslausum handtökum, draga úr ónauðsynlegum skrefum og á annan hátt að vinna sem skynsamlegast þá náðum við miklum afköstum, mun meiri en við áttum sjálfir von á. Haugurinn kláraðist miklu fyrr en við og Fúsi bjuggumst við og reiknað hafði verið með. Þegar verkið var búið brosti Fúsi og sagði: "Ég vissi það strákar mínir að þið væruð alveg ágætir." Þessi viðbrögð hans ristu miklu dýpra en ef við hefðum verið skammaðir eða á annan hátt refsað fyrir bjánaháttinn.

Ég heyrði nýlega viðtal við nýskipaðan sendiherra í utanríkisráðuneytinu. Verið var að fara yfir hvernig utanríkisþjónustan höndlaði hrun bankakerfisins, átökin við Breta og ört minnkandi álit annarra þjóða á íslendingum. Sendiherrann svaraði því til að þeim sem hringdu væri svarað en þeir bæru ekki við að reyna að leiðrétta allar þær missagnir sem birtust í erlendum fjölmiðlum. Sem sagt menn bíða bara þarna eftir að síminn hringi ef trúa skal sendiherranum. Ef eitthvað er mikilvægt á þessum tímum hjá utanríkisþjónustunni þá er það að hafa frumkvæði að því að gera allt sem hægt er til að leiðrétta missagnir, hálfsannleik og ósannindi sem birtast um íslendinga og Ísland í erlendum fjölmiðlum. Fátt er mikilvægara á þessum tímum. Ef þeirri skoðun vex fiskur um hrygg aða íslendingar séu almennt skúrkar og dusilmenni þá er skaðinn sem af því hlýst alveg gríðarlegur. Það hefur bæði áhrif á stöðu einstaklinga í útlöndum og ekki síður á viðskiptalífið.

Tók 20 km með Jóa og Kristínu í morgun. Fínt veður. Fórum fyrir Kársnesið og fram og til baka um Kópavoginn, tókum tröppurnar og annað gagnlegt. Fínn dagur.

Skyldu fréttamenn hafa beðið strákinn sem gekk meðfram alþingishúsinu og kastaði eggjum í gluggana um að láta eggin vaða? Ósköp var þetta eitthvað innantómt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur.

Þakka þér falleg orð um föður minn.
Man þessa tíma,
þú varst ný kominn frá Kúbu.

Með kveðju, Kristján P. Vigfússon.

Nafnlaus sagði...

Flottur sá gamli vantar bara mynd af því þegar hann var að keyra ömmu í kirkju þá sagðist sú gamla
vera í drotningarvagni í körfustólnum bundnum í kerruna, sem var svo til heima
kveðja
Erla

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Sæll Kristján og gaman að sjá að gamlir sveitungar eru að kíkja á það sem maður er að dunda sér við. Það er oft gaman að rifja upp eitt og annað að vestan frá fyrri árum. Þetta voru góðir tímar.
Mvk
Gunnlaugur