Það varð fljótt um félaga Bjarna Harðarson. Dómgreindarleysi hans í eina ögurstund varð til þess að allt varð vitlaust innan flokksins. Bjarni brást þannig við sem kannski færri höfðu búist við. Hann sagði af sér með það sama. Flestir höfðu líklega búist við að við tæki nokkurra daga þæfingur um hver hefði gert hvað og með hvaða hugarfari þessi eða hinn tölvupósturinn hefði verið sendur. Svo hefðu menn orðið leiðir á þessu og athyglin beinst að öðru. Eftir hefði setið smá blettur á kraga Bjarna sem hann hefði kannski átt erfitt með að þvo af sér, svona svipað og brennivínsveitingar utanríkisráðherrans fyrrverandi í afmælinu sínu. Nei, Bjarni brást snöfurmennlega við og sagði bara af sér. Labbaði út með hreinan skjöld því hann stóð undir ábyrgðinni. Þetta er eins og að skrifta hjá kaþólskum. Menn fara í skriftaklefann á stórhátíðum og játa syndir sínar (eða alla vega það af þeim sem er frásagnarhæft) og labba út nýir og betri menn. Nú eru Bjarna allir vegir færir og hann stendur sterkar pólitískt séð eftir en áður ef eitthvað er.
Hitt er svo annað mál að þarna segir alþingismaður af sér störfum vegna yfirsjónar sem svo sem skaðaði engan en átti kannski að stinga pínulítið. Þjóðin situr hins vegar í súpunni ærulaus, eignalaus og ráðlaus. Sú staða er komin upp vegna ákvarðana sem teknar voru eða vegna þess að það voru ekki teknar ákvarðanir. Það er nefnilega ekki síðri ákvörðun að taka ekki ákvörðun. Samt er enginn ábyrgur. Ekki benda á mig. Hvernig er hægt að skilja þetta? Og "you aint seen nothing yet" eins og forsetinn sagði.
Það er stundum verið að spyrja mig um mataræði. Ég hef ákveðnar skoðanir á því hvað er heppilegast í þeim málum eftir um tveggja og hálfs árs reynslu. Ég legg áherslu á að tl að ná árangri sé það spurning um lífsstílsbreytingu en ekki skammtíma átak. Menn eiga að forðast allt sem heitir átak. Átak í að grenna sig fyrir hitt og fyrir þetta. Það er logið svo milu að fólki í þessum efnum að það er alveg ótrúlegt. Yfirleitt kemur fólk feitara en áður út úr hverju átaki. Málið er að ef fólk vill grennna sig á það að borða minni orku en það brennir. Samt á fólk að borða eins og það langar til, bara velja réttan og hollan mat. Hæfileg hreyfing sem hentar hverjum og einum er síðan bara til bóta. Eftir að ég hætti alveg að borða allt ruslfæði, kex, kökur sælgæti, sykur og annann óþverra þá er ég sannfærður um að það er miklu meira jafnvægi í allri líkamsstarfsemi. Orkan er meiri og til viðbótar sef ég miklu betur. ég er viss um að minni hætta er á álagsmeiðslum undir miklu álagi þegar næringarjafnvægið er í lagi. Ég þarf síðan aldrei að fara á klósettið á nóttunni eins og maður var byrjaður að gera í of miklum mæli. Ég er ekki að segja að þetta sé hin eini rétti matseðill. Það hefur vafalaust hver sína sérvisku. Þetta hentar mér hins vegar vel og maður breytir ekki formúlu sem gengur vel upp.
þriðjudagur, nóvember 11, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sammála þessu með mataræðið. Gott að taka út úr fæðunni hluti eins og kex, kökur, sælgæti og það sem inniheldur mikinn hvítan sykur. Svo hefur það líka reynst mér vel að útiloka allt brauð og hvítt hveiti. Borða helst bara gróft haframjöl eða musli. Eiginlega allt líka sem er svona "tilbúið". En hvað með Herbalife? Ég hef aldrei haft mikla trú á því enda flokkast það undir "tilbúinn" mat. Er þetta eitthvað að virka? ég sé að þú hefur verið að prófa próteindrykkinn þeirra. Er þetta að virka?
Skrifa ummæli